Mikil færni á skömmum tíma
Andrea segist hafa lært ótrúlega margt á skömmum tíma, ekki síst praktísk atriði, eins og gott skipulag. Hún segir skemmtilegast að sauma buxur og hefur nú þegar saumað margar slíkar í vinnustaðanáminu. Þessa dagana er hún að sauma kjóla sem hún segir að reyni á, þar á meðal að ná upp vinnuhraða án þess að það komi niður á gæðum.
Kristín Kristjánsdóttir, eigandi RYK, er virkilega ánægð með Andreu og segir það skemmtilegt að taka nema í vinnustaðanám, en jafnframt áskorun, sem taki tíma. Kristín er klæðskerameistari en fyrirtækið RYK er 20 ára um þessar mundir, svo þar liggur mikil reynsla að baki og er það ómetanlegt þegar nemendur fá tækifæri til að spreyta sig undir handleiðslu reynslumikils fagfólks.
Andrea er spennt fyrir því sem er fram undan og stefnir að því að ljúka námi í klæðskurði næsta vor og taka sveinspróf.