fbpx
Menu

Skipstjórnar- og vélstjórnarnám


Ef þú ætlar í nám í skipstjórn eða vélstjórn og átt annað nám eða starfsreynslu að baki þá má vera að hægt sé að meta eitthvað af því og stytta þannig námið sem framundan er.

Nám í þessum greinum er háð ströngum skilyrðum og viðurkenningum frá IMO (Alþjóða siglingamálastofnuninni). Gerðar eru ríkar kröfur til kennslu og búnaðar sem ekki finnast alls staðar. Af þeim sökum er mat á fyrra námi og starfsreynslu háð ýmsum skilyrðum. Leitast er við að svara algengustu tilvikunum hér en annars má senda skólastjóra erindi.

Vakin er athygli á að mat á fyrra námi og starfsreynslu er bara gert eftir að nemandi hefur verið innritaður (samþykktur) í nám.

Jafnframt er bent á að nýjar námsbrautir í vélstjórn og skipstjórn tóku gildi haustið 2017, er því miðað við nýja áfanga. Nemendur sem hófu nám á eldri námsbrautum skólans hafa heimild til að ljúka þeim hafi þeir verið í yfir 50% samfelldu námi á námstímanum, annars færast þeir yfir á nýjar brautir og eldra nám metið þar inn.

Hægt er að sækja um raunfærnimat hjá Visku. Gögnum úr raunfærnimati er svo skilað til skólastjóra til að fá áfanga metna.


Raunfærnimat

Raunfærnimat er unnið í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og er gengið út frá að eðlilegt sé að meta færni sem til staðar er óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Raunfærnimat getur stytt námstímann eða auðveldað nemendum að taka það sem vantar upp á réttindin með vinnu. Að raunfærnimati loknu fær nemandi upplýsingar um þá áfanga sem metnir hafa verið og getur þá borið það saman við brautarlýsingu fyrirhugaðs náms og séð hvað stendur út af.

Nemendur þurfa að framvísa staðfestingu frá fræðsluaðila á raunfærnimati (nema það hafi verið fært inn í Innu af fræðsluaðila).

Skólinn viðurkennir raunfærnimat eftirfarandi greina upp í skipstjórnar- og vélstjórnarnám:


Fagnám framhaldsskóla

Staðnir framhaldsskólaáfangar úr fagnámi annarra framhaldsskóla kunna að verða metnir (lokið með einkunn 5 eða hærri). Áfangar eru metnir út frá efnisinnihaldi og að uppfylltum einingafjölda. Nemendur geta þurft að skila greinargerð og óska eftir mati á tilteknum áfanga (eða áföngum) á grundvelli áfangalýsinga fyrra náms eða sambærilegra gagna.

Áfangar úr framhaldsskólum fylgja nemendum í Innu (ekki þarf að framvísa námsferlum úr öðrum skólum).

Skólinn metur eftirtalið nám úr fagnámi annarra framhaldsskóla upp í skipstjórnarnám:

  • Nám til A-réttinda skipstjórnar samkvæmt aðalnámskrá frá 2009 (þó suma áfanga bara að hluta og ekki fjarskipti eða samlíki), sem veitt er af þeim skólum sem Samgöngustofa hefur viðurkennt (við skírteinisútgáfu).
  • Nám til A-réttinda skipstjórnar sem veitt er í samræmi við námsbrautarlýsingu Tækniskólans frá 2017 (þó ekki fjarskipti eða samlíki), sem veitt er af þeim skólum sem Samgöngustofa hefur viðurkennt (við skírteinisútgáfu)

Skólinn metur eftirtalið nám úr fagnámi annarra framhaldsskóla upp í vélstjórnarnám:

  • Nám til A- og B-réttinda vélstjórnar samkvæmt aðalnámskrá frá 2008 (þó suma áfanga bara að hluta og ekki vélhermi), sem veitt er af þeim skólum sem Samgöngustofa hefur viðurkennt (við skírteinisútgáfu).
  • Nám til A- og B-réttinda vélstjórnar sem veitt er í samræmi við námsbrautarlýsingu Tækniskólans frá 2017 (þó ekki vélhermi), sem veitt er af þeim skólum sem Samgöngustofa hefur viðurkennt (við skírteinisútgáfu).
  • Nám til allra réttindaflokka vélstjórnar sem veitt er af Verkmenntaskólanum á Akureyri (IMO viðurkenndur skóli).
  • Nám í málmiðngreinum (s.s. stálsmíði eða rennismíði), rafmagnsgreinum (s.s. rafvirkjun eða rafeindavirkjun) og vélvirkjagreinum (s.s. vélvirkjun eða bifvélavirkjun) sé um sambærilegt nám að ræða. Nemendur geta þurft að skila greinargerð og óska eftir mati á tilteknum áfanga (eða áföngum) á grundvelli áfangalýsinga fyrra náms eða sambærilegra gagna.

Háskóla og sérskólanám

Nám í háskólum og sér­skólum sem tengjast fagáföngum námsins kunna að verða metnir en það er sjaldgæft. Ef nemendur vilja óska eftir mati á slíku námi þá skal það gert með greinargerð þar sem óskað er eftir mati á tilteknum áfanga á grundvelli áfangalýsinga fyrra náms eða sambærilegra gagna. Áréttað er að slíkt mat fer eingöngu fram eftir að nemandi hefur verið innritaður (samþykktur) í námið.

Nemendur þurfa að óska eftir mati einstakra áfanga og framvísa greinargerð sem inniheldur áfangalýsingar eða sambærileg gögn.


Skírteini

Nemendur sem hafa skírteini sem útgefin eru af viðurkenndum stjórnvöldum í einstökum þáttum námsins fá áfanga sama efnis metna.

Nemendur þurfa að framvísa afriti skírteina (á pdf).

Skólinn metur eftirfarandi skírteini (útgefin af viðurkenndum stjórnvöldum) á þennan hátt:

  • ARPA + ECDIS skírteini: Metið saman sem samlíkisáfangi 2 (SAML3SC04BS) í skipstjórnarnámi.
  • GDMSS-ROC skírteini: Metið sem fyrri fjarskiptaáfanginn (FJAS3SA04AS) í skipstjórnarnámi.
  • GDMSS-GOC skírteini: Metið sem síðari fjarskiptaáfanginn (FJAS3SC04BS) í skipstjórnarnámi.
  • Heilbrigðisfræði – framhaldsskyndihjálparskírteini (t.d. úr Slysavarnaskólanum): Metinn sem fyrri heilbrigðisfræðiáfanginn (HBFR1SA03AS) í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi.
  • Heilbrigðisfræði – lyfjakistuskírteini (t.d. úr Slysavarnaskólanum): Metinn sem síðari heilbrigðisfræðiáfanginn (HBFR3SC03BS) í skipstjórnarnámi.
  • Skírteini um gamla 2. stigið í skipstjórn (yngra en 1990): Heimil inntaka á sérstaka námsbraut til viðbótarnáms fyrir D-réttindi skipstjórnar.
  • Smáskip – 30 brl skírteini (pungapróf), útgefið eftir 2000: Metið sem fyrsti siglingafræðiáfanginn (SIGF2SA04AS) í skipstjórnarnámi.
  • Smáskip – smáskipaskírteini: Metið sem fyrsti siglingafræðiáfanginn (SIGF2SA04AS) í skipstjórnarnámi.

 

 

Uppfært 23. nóvember 2023