6. janúar – bréf frá skólameistara
Kæru nemendur og aðstandendur (Click here for English)
Fyrsti kennsludagurinn í Tækniskólanum er á morgun fimmtudag. Vonandi eruð þið búin að skoða stundatöflurnar ykkar í Innu. Eins og hefur komið fram hefur önninni verið skipt upp í tvennt, í svokallaðar spannir, og er hægt að lesa nánar um spannafyrirkomulagið hér.
Við munum nú geta boðið upp á meira staðnám hér í skólanum en gert var á haustönninni í ljósi nýrrar reglugerðar sem tók gildi um áramótin. Fyrirkomulag kennslunnar verður ekki allt með sama sniði en við munum kappkosta að bjóða upp á staðnám eins og verður við komið. Þannig verður verklegt kennt að mestu í fullu staðnámi en bóklegt ýmist í staðnámi eða í blöndu af stað- og fjarnámi og örfáum tilvikum alveg í fjarnámi. Athugið þó að þetta getur allt breyst eftir því hvernig gengur að halda COVID veirunni í skefjum næstu vikur.
Kennarar munu í dag setja inn tilkynningu á Innu um hvernig kennslan fer af stað og þá hvort nemandi eigi að mæta í skólann eða sækja viðkomandi tíma í Teams. Allar tilkynningar eiga að vera komnar inn fyrir morgundaginn en ef misbrestur verður á því eða þið eruð óviss bið ég ykkur um að hafa samband við viðkomandi kennara til að fá frekari upplýsingar.
Við skipulag kennslu í skólanum tökum við mið af gildandi reglum og höfum ávallt í fyrirrúmi öryggi og velferð ykkar og starfsmanna okkar. Við leggjum mikla áherslu á sóttvarnir í húsunum og hvet ég ykkur til þess að gæta ávallt að ykkar einstaklingsbundnu sóttvörnum. Þá er grímuskylda í skólanum og skylt að spritta hendur við komu í skólann og þegar komið er í ný rými auk þess sem nemendur eru beðnir um að sótthreinsa sitt borð fyrir og eftir tíma. Hvergi mega fleiri en 30 koma saman og mikilvægt að forðast hópamyndun. Mötuneytið er lokað eins og er og því ráðlegg ég ykkur að taka með ykkur nesti sem má neyta í kennslustofu. Ég vil biðja ykkur um að mæta ekki í skólann ef þið eruð í einangrun, sóttkví eða eruð með einkenni sem gætu bent til COVID-19, svo sem kvef.
Við viljum benda ykkur á að skoða síðu sem inniheldur hagnýtar upplýsingar um skólaupphaf. Einnig viljum við benda ykkur sem eruð að byrja á að kynna ykkur Innu, sem er kennslukerfið, og Microsoft Teams sem er notað í fjarkennslu. Þá bendi ég á upplýsingar um fyrirkomulag þjónustu náms- og starfsráðgjafa og sálfræðings.
Það er viðbúið að fyrstu dagarnir geti orðið dálítið ruglingslegir líkt og í haust. Í skólanum er kenndur mikill fjöldi greina og töluvert flókið að koma allri kennslu fyrir á sem bestan hátt við gildandi takmarkanir. En við munum gera okkar besta og gæta þess að allir komist af stað í náminu með öryggi og velferð allra að leiðarljósi.
Bestu kveðjur,
Hildur skólameistari og Guðrún aðstoðarskólameistari