fbpx
en
Menu
en

Fréttir

13. mars 2020

Breyttir kennsluhættir vegna lokunar skóla

Breyttir kennsluhættir vegna lokunar skóla

Kæru nemendur

Í dag föstudaginn 13. mars tilkynnti heilbrigðisráðherra samkomubann og að framhaldsskólum yrði lokað frá og með miðnætti á sunnudag í fjórar vikur.  Þessi ákvörðun er liður í aðgerðum til að stemma stigu við COVID-19 faraldrinum. Kennsla við Tækniskólann mun því færast yfir á stafrænt form í næstu viku og vera þannig fram að páskum.

Á mánudaginn verður engin kennsla.  Helgina sem er fram undan og mánudaginn munu starfsmenn nýta til þess að undirbúa kennslu með breyttu sniði.  Við munum nota Microsoft teams samhliða Innunni og munuð þið fá nánari upplýsingar um það sendar í pósti ekki seinna en á mánudag.  Ef þið hafið ekki aðgang að tölvu utan skólans biðjum við ykkur um að senda póst á [email protected] og munum við reyna að leysa málin en við eigum dálítið af tölvum til láns.

Námið í Tækniskólanum er afskaplega fjölbreytt.  Sumt nám kallar á mikla viðveru nemanda í skóla meðan annað er hægt að færa alfarið yfir á netið.  Og svo er slatti af greinum sem lenda þarna mitt á milli.  Það er markmið okkar að nemendur verði fyrir sem minnstum töfum í námi og mun námið meðan skólalokun stendur taka mið af því.  Því má gera ráð fyrir að námsáætlanir breytist í sumum fögum og er því mikilvægt að þið fylgist vel með.  Þá verða kennsluhættir misjafnir milli greina.  Kennarar verða skv. stundatöflu á Microsoft teams. Misjafnt verður svo hvernig kennslustundir og verkefnavinna verður útfærð. Þið munuð fá nánari upplýsingar um það frá ykkar kennurum.

Þótt þið getið ekki mætt í skólahúsnæðið munum við reyna að sinna ykkur eins vel og hægt er. Þannig verður hægt að fá viðtöl yfir netið við náms- og starfsráðgjafa og sálfræðing, starfsmenn skrifstofu munu taka við erindum og koma þeim áleiðis o.s.frv.. þótt mest af þeirri vinnu verði unnin heiman frá.  Nú er aldeilis gott að vera komin með tækni sem gerir okkur þetta kleift.

Að lokum vil ég hvetja ykkur til þess að fylgja fyrirmælum landlæknis um sóttvarnir í hvívetna.  Þá hvet ég ykkur til þess að stunda námið vel meðan á lokun stendur og huga einnig vel að ykkur sjálfum og fólkinu í kringum ykkur. Ekki hika við að hafa samband ef eitthvað er.

Kær kveðja,
Hildur skólameistari