1200 nemendur heimsækja skólann og Verk og vit.

Tækniskólinn tekur á móti 1200 nemendum
Tækniskólinn ætlar að taka á móti 1200 nemendum úr 9. og 10. bekk sem ætla að heimsækja og kynna sér stórsýninguna Verk og vit sem verður opin almenningi um helgina 10. til 11. mars. Nemendur úr 33 grunnskólum munu kynna sér nám Tækniskólans og skoða sýninguna sem sýnir íslenskan byggingariðnað, skipulagsmál og mannvirkjagerð í sinni fjölbreyttustu mynd.



Sinergia – samvinna margra
Fyrir tveimur árum tók skólinn á móti jafn mörgum nemendum á sýningunni og þá var sýningarsvæði Tækniskólans valið það athyglisverðasta. Þá var bás Tækniskólans talinn áhugaverður og líflegur og gestir upplifðu sig sem þátttakendur í því sem þar fór fram.
Í ár á að reyna að toppa þessa frammistöðu með glæsilegu sköpunarverki sem kallast Sinergia en það er spænska og táknar samvinnu eða krafta sem vinna saman. Nemendur, kennarar og starfsmenn unnu þetta stórglæsilega verk í frábærri samvinnu og er einstaklega ánægjulegt er að sjá hvað verkið sýnir vandað handverk og skemmtilega hönnun. Samstarf hönnunar- og nýsköpunarbrautar, Byggingatækniskólans og Raftækniskólans er til fyrirmyndar og er Tækniskólinn stoltur af vinnu allra sem að verkinu komu.
Einstakt listaverk sem sýnir fjölbreytnina í námi skólans
Verkið Sinergia er eins konar kúluhús sem er unnið úr stáli og timbri og vínildúklögn er á gólfinu. Hópurinn sem vann verkið er á mynd sem fylgir fréttinni og er talinn frá vinstri Númi (nemandi í húsasmíði), Guðmundur Rafnar kennari og dúklagningameistari, Guðmundur Skúli, Eva Huld kennari í hönnun, Haraldur k ennari og málmsmiður og Freyja María (nemandi á hönnunar- og nýsköpunarbraut). Innan í Sinergia má sjá nöfn á öllum námsbrautum Tækniskólans.