fbpx
Menu

Fréttir

23. maí 2022

Fjölmennasta útskrift Tækniskólans
frá upphafi

Fjölmenni á útskriftarathöfn Tækniskólans

Guðrún GígjaFjölbreyttur hópur nem­enda mætti til útskriftar í Eld­borg­arsal Hörpu sunnu­daginn 22. maí. Alls voru braut­skráðir 483 nem­endur frá eft­ir­far­andi skólum/​deildum Tækni­skólans: Bygg­inga­tækni­skól­anum, Hönn­unar- og hand­verks­skól­anum, Raf­tækni­skól­anum, Skip­stjórn­ar­skól­anum, Tækni­mennta­skól­anum, Upp­lýs­inga­tækni­skól­anum og Vél­tækni­skól­anum. Einnig voru nem­endur í stafrænni hönnun braut­skráðir úr Tækniaka­demí­unni sem og nem­endur í Meist­ara­skól­anum.

Líkt og venjan er settu nemendur skólans svip sinn á útskriftina. Guðrún Gígja, nem­andi á tölvubraut og sigurvegari í Söngkeppni Tækniskólans, flutti tónlistaratriði og Hálfdán Helgi, nem­andi á K2, hélt hrífandi ræðu fyrir hönd útskriftarnema.

 

Þú verður að sækja tækifærin og nýta þau sem þú færð

Hálfdán Helgi Matthíasson talaði meðal annars um hvað skólaganga hans hafi verið æðisleg og hann er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu frábæra fólki í skólanum sem hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif á líf hans. Hálfdán sagði útskriftina stór tímamót í lífi allra nemenda þar sem nú er komið að því að velja hvað skal gera næst.

,,Ég veit að það eru margir hér sem ætla beinustu leið í háskóla og halda áfram að læra og aðrir skella sér út á vinnumarkaðinn en ég veit líka að það eru einhverjir hérna sem hreinlega hafa ekki hugmynd um það hvað þeir ætla að gera næst. Málið er að þó að þessum kafla í lífi okkar sé lokið þá er allt lífið fyrir framan okkur og við getum gert nákvæmlega það sem við viljum. En það er samt gott að muna að það gerist ekkert ef þú gerir ekkert. Það er ekki hægt að sitja heima allan daginn og bíða eftir að tækifærin komi, þú verður að sækja tækifærin og nýta þau sem þú færð.“

Þess má geta að Hálfdán Helgi hlaut viðurkenn­ingu fyrir félagsstörf í þágu skólans. Hann er búinn að spila stórt hlutverk í félagslífi Tækniskólans síðustu þrjú ár og hefur til að mynda gegnt stöðu formanns og varaformanns NST.

 

Nám í jarðvirkjun framfaraskref fyrir íslenskt atvinnulíf

Hildur Ingvars­dóttir skóla­meistari flutti ávarp og óskaði nem­endum, aðstand­endum og starfs­fólki til ham­ingju með daginn. Hildi þótti sér­lega gleðilegt að geta loks haldið útskrift án tak­markana og er stolt af því sam­fé­lagi sem Tækni­skólinn er. ,,Ég fyllist ávallt miklu stolti þegar ég horfi yfir salinn á útskrift­ar­degi. Ég er svo stolt að til­heyra því sam­fé­lagi sem þessi skóli er. Skóla sem gegnir svo mik­il­vægu hlut­verki á Íslandi. Ég gæti best trúað því að þessi salur gæti rekið Ísland. Í dag útskrifast nefni­lega fólk sem getur skapað, hannað og siglt, reiknað og teiknað, klippt og greitt, smíðað og saumað, for­ritað og þróað, tengt og soðið, flutt mál í ræðu og riti, leitt stóra sem litla hópa, lagað og betr­um­bætt. Í starfs­manna­hópnum er svo fólk sem getur kennt og miðlað af víðtækri þekk­ingu og reynslu, stutt og hvatt og gert svo margt fleira.“

Hildur fjallaði einnig um nýtt nám í jarðvirkjun sem hefst af fullum krafti í haust í húsnæði skólans í Hafnarfirði. Í jarðvirkjun læra nem­endur um land­mótun, upp­gröft, efn­is­flutning, jarðlagna­vinnu, vegagerð, örygg­ismál, gæðamál o.fl. Þá öðlast þeir vinnu­véla­rétt­indi og hljóta víðtæka þjálfun á vinnu­vélar sem notaðar eru hjá jarðvinnu­fyr­ir­tækjum. ,,Námið hefur verið þróað með Félagi vinnu­véla­eig­enda, Sam­tökum iðnaðarins og Mennta- og barna­málaráðuneytinu og erum við afskap­lega stolt af því að hleypa því af stokk­unum og teljum að um mikið fram­fara­skref sé að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf.“

Að lokum þakkaði hún kenn­urum og öðru starfs­fólki skólans fyrir frábær störf og ósér­hlífni. Nem­endum óskaði hún alls hins besta, hvatti þá til að leggja alúð í verk sín og bera virðingu fyrir samferðafólki sínu.

 

Líkaði vel við staðinn, nemendur og kennarana

Hákon MániHákon Máni Albertsson, tvítugur nemandi í húsasmíði, hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í greininni. Hákon Máni er Vesturbæingur, fór í Melaskóla og svo í Hagaskóla. Í Hagaskóla kynntist hann frábærum smíðakennara, sem hvatti hann áfram í tímum, sem varð til þess að hann mætti á opið hús hjá Tækniskólanum og kynnti sér m.a. nám í húsasmíði. Það var svo haustið 2018 að Hákon hóf nám í Byggingatækniskólanum.

„Ég byrjaði í húsgagnasmíðinni en breytti svo yfir í húsasmíðina. Ég fann mig mjög vel í náminu og líkaði vel við staðinn, nemendur og kennarana. Námsráðgjafarnir voru líka alltaf boðnir og búnir að aðstoða mig með hvað sem var. Þegar ég var að byrja þarna var Númi [þáverandi Íslandsmeistari í húsasmíði] alltaf bestur í öllu og ég vildi komast þangað. Ég tók svo pásu frá skólanum og tók verknámið á verkstæði upp í HÍ sem var mjög fjölbreytt og enginn dagur eins. Tók svo síðustu áfangana nú á vorönn í Tækniskólanum, hélt áfram á verkstæðinu upp í HÍ með skólanum og ég verð áfram þar.“

Hákon Máni fer í sveinsprófið í júní, en hann ætlar svo á að klára stúdentsprófið og stefnir að því búnu, á nám í iðnfræði í Háskólanum í Reykjavík.

 

Verkefni í formi rapps og stuttmynda

Egill Andri Reynisson, nem­andi á K2, hlaut verðlaun fyrir bestan heild­arár­angur í skól­anum. Egill Andri er úr Vesturbæ Reykjavíkur og hóf nám í Tækniskólanum haustið 2019. Að grunnskóla loknum var hann óviss hvert skyldi halda næst en eftir að hafa talað við námsráðgjafa í Hagaskóla, sem taldi K2 fullkomna braut fyrir Egil, ákvað hann að skoða námið betur. Hann mætti í framhaldinu á opið hús í Tækniskólanum, spjallaði við nemendur á brautinni og ákvað loks að sækja um. Þegar hann svo byrjaði í náminu fann hann sig vel og tengdi strax við samnemendur sína.

„Það sem var líka frábært við K2 var frelsið sem við fengum í allri verkefnavinnu. Ég hef meðal annars skilað af mér verkefnum í formi rapps og stuttmynda. Í fyrstu var ég aðeins hikandi því mér þótti þetta kennsluform framandi en eftir mína reynslu vil ég segja við alla þá sem eru smeykir að sækja um að þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Nemendurnir eru alls konar og námið skapandi. Ég á virkilega góðar minningar úr Tækniskólanum.“

Egill hefur alltaf haft mikinn áhuga á kvikmyndum og í haust liggur leið hans í Kvikmyndaskóla Íslands þar sem hann mun stunda nám í leikstjórn og framleiðslu.

 

Aukið ímyndunarafl eftir námið

Margrét Líf Jóhannesdóttir, 19 ára nemandi á hönnunar- og nýsköpunarbraut, hlaut verðlaun fyrir næst­bestan heild­arár­angur í skól­anum. Margrét var snemma á því að hefðbundið bóknám hentaði henni ekki og frá unga aldri var hún harðákveðin að fara í Tækniskólann. Hún rakst svo á hönnunar- og nýsköpunarbrautina þegar hún var í 9. bekk og vissi þá strax að ekkert annað nám kæmi til greina.

„Eftir að hafa stundað námið síðastliðin þrjú ár hef ég lært svo margt og mikið. Ég hef fengið að prufa allskonar hluti sem ég hélt að ég myndi aldrei fá tækifæri til að prufa, eins og gull- og silfursmíði, rafvirkjun og bókband. Mér fannst námið á þessari braut dásamlegt, ásamt kennurunum og samnemendum mínum. Brautin er lítil og þægileg sem gerir það að verkum að þú myndar nánari tengsl. Mér fannst ímyndunaraflið líka aukast þar sem maður kynnist svo mörgum öðrum hugmyndaríkum einstaklingum.“

Samkvæmt Margréti er allt opið í framtíðinni en hún hefur nú þegar fengið inngöngu í LHÍ í vöruhönnun. Fyrst liggur leiðin þó til Danmerkur þar sem Margrét ætlar í lýðháskóla og skemmta sér aðeins áður en háskólanámið hefst. Margrét Líf mælir sterklega með námi á hönnunar- og nýsköpunarbraut fyrir alla þá sem hafa áhuga á list, hönnun eða öðru á því sviði.

 

Iðnmeistari í netagerð

Gunnlaugur Hólm Sigurðsson lauk iðnmeistaranámi í netagerð við Tækniskólann og er þar með einn af fáum netagerðarmeisturum landsins.

Gunnlaugur HólmGunnlaugur er frá Dalvík, fór fyrst á sjó 15 ára gamall og stundaði sjómennsku í tugi ára líkt og margir af hans ættingjum. Eftir 33 ár til sjós fékk hann sumarvinnu við netagerð og eftir tvö sumur á landi upplifði hann þá tilfinningu að vilja ekki snúa aftur á sjóinn. Konan hans studdi þessa ákvörðun og eftir nokkrar vangaveltur fannst honum liggja beinast við að læra netagerð. Gunnlaugur tók sveinspróf í faginu eftir nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og að því búnu ákvað hann að fara í meistaranámið í Tækniskólanum. Hann var ánægður með námið og sagðist jafnvel hafa upplifað svolítinn tómleika að því loknu.

Nú starfar Gunnlaugur hjá Hampiðjunni og líkar vel í sínu starfi. Hann er þó uggandi yfir framtíð greinarinnar. „Ég hef áhyggjur af starfsstéttinni, það eru svo fáir sem læra þetta. Ég hvet einstaklinga til þess að íhuga þetta nám því það vantar vissulega fólk í netagerð.“

 

Allt mitt líf hef ég haft þessa ástríðu og áhuga á list

Viktorija Tambakeviciute, nemandi á hönnunar- og nýsköpunarbraut, hlaut meðal annars verðlaun fyrir ástundun og vinnusemi. Viktorija er fædd og uppalin í Litháen en flutti ásamt foreldrum sínum til Íslands þegar hún var 16 ára. Hún kláraði upphaflega íslenskubraut í Tækniskólanum og að því búnu hóf hún nám á hönnunar- og nýsköpunarbraut.

„Allt mitt líf hef ég haft þessa ástríðu og áhuga á list. Tækniskólinn stóð upp úr þar sem mér fannst hann passa best við áhugamálin mín og bauð um leið upp á frábæra fræðslu. Eftir skólagönguna hér hef ég þróað sköpunargáfuna og lært einstakar leiðir til að breyta hugsunum og hugmyndum mínum í vel útfærð verkefni. Ég mun aldrei gleyma frábæru kennurunum sem hjálpuðu mér, leiðbeindu og veittu mér jafnvel innblástur við hvert skref.“

Viktorija hefur ekki ákveðið hvað hún tekur sér fyrir í framhaldinu en hún er sannfærð um að námið í Tækniskólanum hafi verið góður undirbúningur fyrir næsta skref í lífinu, hvað svo sem það verður.

 

Við óskum nemendum og aðstandendum þeirra hjartanlega til hamingju með áfangann!

 

Ljósmyndir: Haraldur Guðjónsson Thors og Dannyela Torres. Hér má skoða fleiri ljósmyndir frá athöfninni.