fbpx
en
Menu
en

Fréttir

20. desember 2020

Fordæmalaus útskrift

Útskrift Tækniskólans var með heldur óhefðbundnu sniði þessi jólin en hún var haldin með rafrænum hætti við hátíðlega athöfn heima í stofu.

Viðburðinum var streymt í gegnum Youtube sunnudaginn 20. desember og hófst athöfnin kl. 14:00.

Að þessu sinni útskrifuðust 270 nemendur af 26 námsbrautum.

 

Prófskírteini heim að dyrum

Á meðan á athöfninni stóð bankaði starfsfólk Tækniskólans upp hjá nemendum á suðvesturhorninu og afhenti þeim skírteinin ásamt táknrænni gjöf frá skólanum.

Þrátt fyrir að nemendur hafi horft á athöfnina heima voru flestir spariklæddir og settu upp útskriftarhúfu í tilefni dagsins.

Útskriftarnemar voru hvattir til að deila myndum frá deginum undir myllumerkinu #heimaútskrift.

 

Þrautseigja og útsjónarsemi á tímum faraldurs

Nemendur skólans í hljóðtækni, sem mynda hljómsveitina Mono is King, flutti tónlistaratriði á útskriftarathöfninni og sáu nemendur í hljóðtækni um alla hljóðvinnslu en nemendur í kvikmyndatækni tóku upp. Þá sendu kennarar nemendum sínum rafrænar kveðjur og Hildur Ingvarsdóttir skólameistari flutti ávarp. Þar fjallaði hún meðal annars um þær skrítnu aðstæður sem við höfum búið við undanfarið og sagði að árið hefði verið erfitt en þó lærdómsríkt. Þá þakkaði hún nemendum og starfsfólki skólans fyrir útsjónarsemi, þrautseigju, jákvæðni og umhyggju á þessum óhefðbundu tímum. Þessir eig­in­leikar munu án efa nýtast útskrift­ar­nem­endum vel í framtíðinni.

 

Áhugi á íslenskri byggingarlist kveikjan að náminu

Pétur Lúðvík Marteinsson sem útskrifaðist úr húsasmíði hlaut verðlaun fyri bestan heildarnámsárangur í skólanum. Pétur hefur alltaf haft gaman af nýsmíði, viðhaldi og að gera upp hluti enda kominn af handlögnu fólki í báðar ættir. Þá hefur hann mikinn áhuga á íslenskri byggingarlist og er það ein af ástæðum þess að hann valdi námið. Fyrst og fremst valdi hann þó húsasmíði þar sem hann taldi námið hagnýtt. Það sem stóð upp úr í náminu var meðal annars að fá að taka þátt í endursmíði á Krýsuvíkurkirkju en að hans mati var mikill fróðleikur fólginn í verkefninu.

 

Vill skapa eitthvað nýtt á hverjum degi

Alexandra Líf Benediktsdóttir sem nam hársnyrtiiðn hlaut verðlaun fyrir næstbestan heildarárangur í skólanum. ,,Ég hef alltaf verið listræn manneskja og haft mikinn áhuga á leiklistarmenningu ásamt undirbúningi baksviðs. Það rann því snemma upp fyrir mér að ég vildi vinna við að skapa eitthvað nýtt á hverjum degi og láta öðrum líða vel í leiðinni, þannig endaði ég í hársnyrtinámi. Næst á dagskrá er að klára sveinsprófið og ég er spennt að sjá hvert lífið leiðir mig. Vonandi í sjónvarpið, leikhúsið eða kvikmyndir samhliða því að vinna á hársnyrtistofunni Primadonnu“.

 

Tölvur og tæki í miklu uppáhaldi

Egill Pétur Ómarsson sem útskrifaðist með burtfararpróf í rafeindavirkjun og stúdentspróf hlaut verðlaun fyrir bestan heildarárangur í Raftækniskólanum. Einnig hlaut hann íslenskuverðlaun og verðlaun frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. ,,Ég myndi segja að ég hafi valið rafeindavirkjann þar sem ég hef alltaf haft gaman af tækni ásamt því að smíða og hanna rafmagnstæki. Tölvur og tæki hafa alltaf verið í uppáhaldi og þegar ég fann námið vissi ég strax að það væri fyrir mig. Eftir útskrift ætla ég að vinna hjá Sensa til að uppfylla starfshluta námsins og að því búnu stefni ég á háskólanám“.

 

Endurnýtir gamla hluti

Heba Lind Halldórsdóttir hlaut verðlaun fyri góðan árangur í húsgagnasmíði. ,,Ég hef mikinn áhuga á húsgagna- og innanhússhönnun auk þess sem ég hef alltaf haft gaman af því að gramsa á nytjamörkuðum og endurnýta gamla hluti. Ég ákvað að fara í húsgagnasmíði því mig langaði að læra handtökin en hafði ekki endilega mótaða sýn á því hvað ég vildi gera að námi loknu. Nú hef ég hins vegar ákveðið að sérhæfa mig í húsgagnaviðgerðum og bólstrun en eftir áramót mun ég hefja nám í Danmörku“.

 

Draumastarfið að forrita tölvuleiki

Mikael Andri Ingason sem útskrifaðist af tölvubraut hlaut viðurkenningu fyrir bestan heildarárangur í Upplýsingatækniskólanum ásamt því að fá verðlaun fyrir góðan árangur í forritun. Mikael valdi tölvubrautina vegna áhuga á forritun og tölvuleikjagerð. ,,Námið var áhugavert, skemmtilegt og stuðningur kennaranna ómetanlegur. Framtíðarplön mín eru óskýr en ég veit þó að draumastarfið er að verða tölvuleikjaforritari og mun námið héðan nýtast mér vel í framhaldinu“.

 

Af íslenskubraut í pípulagnir

Hussain Merzaye sem útskrifaðist af íslenskubraut hlaut verðlaun fyrir jákvæðni og þrautseigju í námi. Hussain flúði undan ógn Talibana í Afganistan og eftir mikla þrautagöngu fékk hann alþjóðlega vernd á Íslandi og horfir nú til bjartari tíma. Hussain hefur sýnt ótrúlegan dugnað, jákvæðni og áræðni við að læra íslensku ásamt fleiri námsgreinum og hefur hann nám á pípulagnabraut í janúar.

 

Nákvæm vinnubrögð lykilatriði í kvikmyndagerð

Svava Lovísa Aðalsteinsdóttir fékk viðurkenningu fyrir frábæran árangur í kvikmyndatækni, en í Tækniskólanum er kennd kvikmynda- og hljóðtækni í samvinnu við Stúdíó Sýrland.

Jonathan Devaney, kennari í kvikmyndatækni, segir að styrkleikar Svövu felist í nákvæmum vinnubrögðum og góðum undirbúningi. ,,Hún hefur sýnt framúrskarandi þekkingu á tæknilegum og listrænum atriðum og verk hennar sýna góða sköpunargáfu og skopskyn“.

 

Eineggja tvíburar fengu viðurkenningu fyrir góða ástundun

Tvíburarnir Anton Proppé Hjaltason og Brynjar Proppé Hjaltason hlutu viðurkenningu fyrir góða ástundun í Véltækniskólanum. Þeir útskrifuðust báðir af vélstjórnarbraut og munaði aðeins 0,05 á lokaeinkunn þeirra. ,,Það var krefjandi að takast á við námið í Covid þá aðallega vegna verklegu kennslunnar en við þurftum til dæmis að setja upp verkstæði til að klára lokaverkefnið. Þá átti hugtakið um að það taki heilt þorp að ala upp barn vel við því gott fólk var boðið og búið til að lána tæki og tól svo þetta gengi upp“. Anton og Brynjar sem héldu upp á daginn heima á Þingeyri segja námið fjölbreytt og gott og telja það mjög góðan undirbúning fyrir lífið.

 

Gefandi og skemmtilegt að heimsækja nemendur

Haraldur Guðjónsson Thors fylgdi skólameistara og aðstoðarskólameistara í nokkrar heimsóknir og smellti af myndum. Þá tóku fjölmargir starfsmenn skólans myndir úr sínum heimsóknum og fylgja nokkrar þeirra með fréttinni.

Að sögn Hildar skólameistara og Guðrúnar Randalín aðstoðarskólameistara var virkilega skemmtilegt og gefandi að afhenda glaðbeittum og uppábúnum nemendum skírteini og gjöf frá skólanum og hitta í leiðinni aðstandendur. Þær vonast þó til þess að geta í tekið í höndina á nemendum á næsta ári grímulausar og gert þetta allt með hefðbundnari hætti.

 

Við óskum nemendum öllum hjartanlega til hamingju með útskriftina!