Hátíðleg útskrift á tímamótum

Fjölmennt var við hátíðlega athöfn í Laugardalshöll föstudaginn 25. maí, þar sem nemendur mættu til útskriftar
Alls brautskráði skólinn 437 nemendur bæði af framhaldsskólastigi og fagháskólastigi sem er nám á fjórða stigi. Í annað sinn voru brautskráðir nemendur úr vefþróunarnámi frá Vefskólanum og stór hópur frá Margmiðlunarskólanum var einnig mættur til útskriftar. Stærsti hópurinn sem brautskráðist var úr Meistaraskólanum en þeir nemendur koma til náms í skólann að loknu iðnnámi. Frá Flugskóla Íslands voru brautskráðir 37 atvinnuflugmenn og Stúdíó Sýrland er í samstarfi við Tækniskólann um nám í kvikmyndatækni og voru 11 nemendur brautskráðir úr kvikmyndatækninámi.



Brautskráð var frá neðangreindum skólum/deildum Tækniskólans:
- Byggingatækniskólinn(49), Handverksskólinn, hár, gull og föt(24), Raftækniskólinn(49), Skipstjórnarskólinn(29), Tæknimenntaskólinn(37), Upplýsingatækniskólinn(40), Véltækniskólinn(42).
- Flugskóli Íslands (37), Kvikmyndatækni (11), Margmiðlunarskólinn (21), Meistaraskólinn (84), Vefskólinn (14)
Dúxinn tækniteiknari og semidúx grafískur miðlari
Erla Þórðardóttir er dúx Tækniskólans á vorönn 2018 – með meðaleinkunnina 9,92 hún útskrifast úr tækniteiknun frá Byggingatækniskólanum. Erla á góð tengsl við skólann en móðir hennar Guðný Lára Petersen er vélstjóri og kennari sem hefur kennt rafiðngreinar í Tækniskólanum til margra ára. Semidúx skólans er Björk Marie Villacorta sem útskrifaðist úr grafískri miðlun frá Upplýsingatækniskólanum með meðaleinkunnina 9,84.
Síðasta útskrift undir stjórn Jóns B. Stefánssonar skólameistara
Jón B. Stefánsson mun láta af störfum sem skólameistari og snúa sér að öðrum störfum fyrir skólann í lok yfirstandandi annar. Hann hefur verið skólameistari í 15 ár, fyrst hjá Fjöltækniskólanum og svo Tækniskólanum þegar hann varð til við sameiningu Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskólans árið 2008. Í hátíðarræðu sinni fjallaði Jón um mikilvægi þess að Tækniskólinn komist undir eitt þak og er stefnan sett á nýtt húsnæði í náinni framtíð. Húsnæði þar sem allar greinar skólans fá að njóta sín og vaxa við bestu aðstæður.
Framvegis verða tvær konur í brúnni
Framundan eru breytingar í stjórnendateymi skólans og í fyrsta sinn er kona í stöðu skólameistara skólans en stofnunin byggir á langri sögur eldri skóla þar sem karlar hafa ráðið ríkjum. Skólameistari verður Hildur Ingvarsdóttir verkfræðingur og tekur hún formlega til starfa 1. júní n.k. Undanfarin ár hefur hún starfað sem forstöðumaður hjá Veitum. Þar hefur hún tekið ríkan þátt í að efla vinnustaðanám fyrirtækisins auk þess að vinna ötullega að því að efla áhuga unglinga á iðn- og tæknigreinum. Hildur sat í stjórn Tækniskólans frá 2014-2016 sem fulltrúi Samorku og þekkir því til skólans. Áður starfaði Hildur hjá Almennu verkfræðistofunni og sem kennari í Menntaskólanum í Reykjavík.
Nýráðinn aðstoðarskólameistari er einnig kona – Guðrún Randalín Lárusdóttir – en hún tók til starfa í maímánuði. Guðrún, sem er tölvunarfræðingur, hefur gegnt stöðu skólastjóra Upplýsingatækniskóla Tækniskólans frá árinu 2015 og kenndi þar áður um árabil.
Í fyrsta skipti í sögu skólans eru því tvær konur sem sitja í brúnni.
Ljósmyndir
Ljósmyndarinn Odd Stefan Thorisson tók myndir við útskriftarathöfnina.
Hægt er að panta einstaka mynd hjá Odd Stefan: Hafið samband við Odd Stefan Thorisson í netfang: [email protected]