Hvatningarverðlaun afhent í Tækniskólanum
Dagur gegn einelti
Ár hvert er 8. nóvember helgaður baráttunni gegn einelti og þá er Dagur gegn einelti haldinn hátíðlegur í skólum landsins.
Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.
Athöfn í Tækniskólanum
Í tengslum við daginn veitir mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við samtökin Heimili og skóla hvatningarverðlaun til einstaklings eða verkefnis sem unnið hefur ötullega gegn einelti.
Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála í Tækniskólanum, var handhafi hvatningarverðlaunanna í fyrra og því fór athöfnin fram í Tækniskólanum í ár. Athöfnin fór fram í Hátíðarsal skólans á Háteigsvegi og komu nokkrir nemendur við sögu. Ali Mukhtar Ahmed, nemandi Tækniskólans á íslenskubraut, flutti hjartnæmt erindi um upplifun sína af dvölinni Íslandi og hvernig honum hefur tekist að fóta sig í samfélaginu hér á landi. Aukinheldur sagði Ali:
Gott samfélag er samfélag með engu einelti. Verum góð við fólk sem við kynnumst.
Það var svo Nafnlausa tríóið sem sló lokataktinn í athöfninni, með flutningi á tveimur fallegum lögum, en tríóið skipa þrír nemendur úr Tækniskólanum. Það eru þau Sigrún Ólafsdóttir, Stefan Erlendur Ívarsson og Helga Lilja Eyþórsdóttir.
Hvatningarverðlaunin 2024 hlaut Freyja Rós Haraldsdóttir, kennari og jafnréttisfulltrúi við Menntaskólann á Laugarvatni. Fagráð gegn einelti hjá Menntamálastofnun valdi verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum þar sem Freyja Rós varð fyrir valinu. Í tilnefningunni segir meðal annars:
Freyja Rós hefur staðið fyrir aðgerðum gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi eða svokölluð EKKO mál. Freyja Rós hefur jafnframt haft frumkvæði að því að skipuleggja EKKO málaflokkinn með gæðakerfisskipulagi og þannig lagt grunn að aukinni fagmennsku. Það sem vakti sérstaklega athygli fagráðs er vinnan sem hún hefur unnið á Degi gegn einelti en þá hefur hún haldið utan um metnaðarfulla dagskrá og má þar til dæmis nefna dagskrá sem nefnist slúður er klúður og var tilgangur þeirrar málstofu að styðja við góðan skólaanda sem byggði á trausti og góðum samskiptum þar sem baktal og slúður geta verið særandi og haft slæm áhrif á allt og alla.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Jóhann Gunnarson, formaður Heimilis og skóla afhentu hvatningarverðlaunin og að því búnu flutti Freyja Rós stutt ávarp. Þar kom meðal annars fram að fræðsla til nemenda um EKKO málefni sé verkefni sem aldrei klárast:
Efinn leitar á mann í allri forvarnarvinnu. Er maður að gera rétt, er maður að gera nóg. Við erum aldrei búin að mennta og fræða nemendur, því það koma alltaf nýir nemendur. Forvarnir og fræðsla eru lykilhlutverk í innleiðingu EKKO.
Við óskum Freyju Rós hjartanlega til hamingju með verðlaunin!