fbpx
Menu

Fréttir

27. nóvember 2018

Lið Tækniskólans keppir til úrslita í Mema

Lið Tækniskólans keppir til úrslita í Mema

Mennta Maskína er nýsköpunarhraðall framhaldsskólanema

Gaman er að segja frá því að lið Tækniskólans keppir til úrslita í Menntamaskínu núna á laugardaginn. Liðið samanstendur af Hrafnhildi Ósk Ásmundsdóttur á Hönnunar- og nýsköpunarbraut, Katrínu Evu Hafsteinsdóttur sem er í rafeindavirkjun, Róberti Orra Gunnarssyni sem var í Margmiðlunarskólanum (útskrifaðist í vor) og Svavari Má Harðarsyni sem er að læra vélstjórn. Þetta þverfaglega teymi hefur hannað loftdýnu sem gengur undir nafninu Zeta og gert prótótýpu en henni er ætlað að hjálpa til við að auka blóðflæði hjá fólki sem er háð hjólastól eða er í mikilli kyrrsetu vegna fötlunar. Erna Ástþórsdóttir kennari hefur fylgt þeim eftir í keppninni og á hún eins og nemendurnir hrós skilið.

Nýsköpun í velferðatækni

Í þetta skiptið var áhersla sett á nýsköpun í velferðatækni. Verkefnið hefur verið styrkt af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, MND félaginu, Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, Reykjavíkurborg og Fab Lab Reykjavíkur. Teymi voru mynduð í framhaldskólunum sem unnu saman að því að finna tækifæri á sviði velferðartækni, fóru í gegnum hönnunarsprett þar sem lausnin þeirra var skoðuð frá öllum sjónarhornum og þróuðu að lokum frumgerð í Fab Lab Reykjavík.

Laugardaginn 1. desember verður verðlauna afhending til þess teymis sem verður valið best af dómnefnd.

Þeir skólar sem keppa til verðlauna að þessu sinni eru Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Tækniskólinn, Verslunarskóli Íslands og Menntaskólinn í Hamrahlíð.

Fyrstu verðlaun er 1.000.000 krónur í þróunarstyrk frá MND félaginu, 3 mánaða aðsetur á Setri Skapandi Greina á Hlemmi og 15 klukkustunda sérfræðiráðgjöf frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.