fbpx
Menu

Fréttir

07. febrúar 2019

Menntamálaráðherra
í heimsókn

Menntamálaráðherra <br> í heimsókn

Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra kom í heim­sókn í Tækni­skólann á Skólavörðuholti í gær miðvikudaginn 6. febrúar ásamt hópi starfs­fólks úr ráðuneytinu.  Ráðherra var boðið í stutta skoðunarferð um húsnæði skólans á Skólavörðuholti þar sem litið var inn til nemenda og kennara í klæðskurði og kjólasaumi, húsgagnasmíði og húsasmíði, rafvirkjun og rafeindavirkjun og gull- og silfursmíði.  Þá heimsótti hún nemendur á nýbúabraut skólans sem eru mislangt komnir með að læra íslensku. Þar sagði m.a. einn nemandi frá Afganistan af langri ferð fjölskyldu sinnar til Íslands og lönguninni til að læra íslensku sem leyndi sér ekki í áhrifaríkri framsögu hennar.

Framtíðarstofan 42

Að lokinni göngu um skólann átti ráðherra gott spjall við nemendur og starfsmenn um námið og lífið í skólanum í hinni splunkunýju framtíðarstofu skólans.  Með framtíðarstofunni, sem er um 300 fermetra rými búið margs konar tækjum, vill Tækniskólinn hjálpa nemendum og kennurum að stuðla að nýsköpun í sinni grein, efla tækniþekkingu og sameina nemendur í vinnu þvert á fög.  Þá mun hún vonandi nýtast vel til þess að auka áhuga fólks á öllum aldri á nýsköpun og þeim fjölbreyttu möguleikum sem liggja í iðn- og tæknigreinum.

Það kom svo í hlut Lilju að opna framtíðarstofuna form­lega og um leið að opin­bera heiti og merki stof­unnar.  Heitið, sem er 42, var valið eftir hugmyndasamkeppni meðal starfsfólks skólans. Talan 42 vísar m.a. í bókina Leiðarvísi puttaferðalangsins um Vetrarbrautina eftir Douglas Adams.  Í bókinni er 42 svarið við spurningunni um lífið, alheiminn og allt (,,the answer to the ultimate question of life, the universe and everything“).  Það var Ingi Björn Ingason sem átti hugmyndina að heitinu en Anna Kristín Ólafsdóttir hannaði merkið sem Arnar Óskarsson og Engilbert Valgarðsson kennarar og málarameistarar máluðu svo á vegg fyrir framan stofuna.

Sérlega ánægjuleg heimsókn

Heimsóknin var í alla staði sérlega ánægjuleg.  Lilja gaf sér góðan tíma til að ræða við nemendur og nefndi m.a. í spjalli sínu við þá hversu mik­il­vægt það er að velja nám eftir áhuga en ekki að fylgja tísku­straumum.  Þá hrósaði hún nemendum á nýbúabraut sérstaklega og hvatti þá til dáða við að halda áfram að læra íslenskuna því hún er lykill að svo mörgu.  Það er frábært að finna einbeittan áhuga ráðherra og starfsfólks ráðuneytisins á því fjölbreytta námi sem fer fram í skólanum og ekki síst viljann til að stuðla að eflingu iðn- og tæknináms.

Tækniskólinn þakkar Lilju og föruneyti kærlega fyrir komuna.