fbpx
Menu

Fréttir

21. desember 2018

Söguleg útskrift

Söguleg útskrift

262 nemendur brautskráðir

Mikil hátíð var í Hörpu föstudaginn 21. desember er 262 nemendur voru brautskráðir frá Tækniskólanum í tveimur athöfnum. Yngsti stúdent frá skól­anum frá upphafi, Dýr­leif Birna Sveinsdóttir (17 ára), var fyrsti neminn til að braut­skrást af stúd­ents­braut­inni K2.  Bæði dúx og semídúx koma af pípulagnabraut. Hildur Ingvars­dóttir sem er fyrsta konan í sögu skólans sem gegnir starfi skólameistara sagði í hátíðarræðu af vel­gengni nem­enda í keppnum og viðburðum, innan- og utan­lands á árinu og Ásrún Mjöll Stef­áns­dóttir útskriftarnemandi af húsasmíðabraut flutti ræðu nemenda.

Brautskráð var frá neðangreindum skólum/deildum Tækniskólans:

  • Byggingatækniskólinn, Handverksskólinn, Raftækniskólinn, Skipstjórnarskólinn, Upplýsingatækniskólinn, Véltækniskólinn, Tæknimenntaskólinn, Meistaraskólinn, Flugvirkjun og Hönnunarbraut

Dúxinn og semidúxinn lærðu báðir pípulagnir

Örn Viljar Kjartansson er dúx Tækniskólans á haustönn 2018 en hann útskrifaðist af pípulagningabraut með einkunnina 9,17. Ágúst Örn Jónsson semídúx skólans útskrifaðist af sömu braut með  einkunnina 9,05 – aðsókn í pípulagnanám hjá Tækniskólanum hefur aldrei verið jafnmikil og nú.

Útskrifuð stúdent aðeins 17 ára af nýrri braut

Dýrleif Birna Sveinsdóttir er fyrsti nemandinn sem útskrifast af stúdentsbrautinni K2 og jafnframt yngsti nemandinn í sögu Tækniskólans sem útskrifast með stúdentspróf en hún er nýorðin 17 ára.  Auk þess að sinna náminu afburðavel hefur Dýrleif verið öflug  í félagsstörfum fyrir skólann. Þá var hún einnig í liði Tækniskólans sem hreppti annað sætið á heimsmeistaramótinu í vélmennaforritun í Mexíkó í sumar en 192 lið hófu keppni. Dýrleif Birna hlaut raungreinaverðlun HR, skólaverðlaun Upplýsingatækniskólans, verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íslensku og stærðfræði auk viðurkenningar fyrir félagsstörf í þágu nemenda.

Nemendur Tækniskólans hafa verið áberandi á liðnu ári.

Hildur Ingvarsdóttir skólameistari flutti hátíðarræðu við athöfnina og vék m.a. að góðum árangri nemenda Tækniskólans í keppnum hér heima og á erlendri grund á árinu.  Fyrrum nemandi Tækniskólans, Ásbjörn Eðvaldsson, var fyrstur Íslendinga til að komast á pall í Evrópukeppni iðngreina, Euroskills, er hann hlaut silfur í rafeindavirkjun nú í haust.  Þá hreppti lið skipað nemendum Tækniskólans 2. sæti á heimsmeistaramótinu í vélmennaforritun, sem haldið var í Mexíkó í sumar. Nýverið sigraði lið Tækniskólans nýsköpunarhraðal framhaldsskólanna, svonefnda Menntamaskínu, en það þróaði sérstaka þrýstingsstýrða loftdýnu fyrir fólk í hjólastól til að minnka líkur á legusárum.  Þá hrepptu núverandi og fyrrverandi nemendur Tækniskólans önnur verðlaun í Gullegginu nú í haust sem og 1. sæti í verkkeppni Viðskiptaráðs en þar bættist kennari við í keppnishópinn.

Hildur sem tók við stöðu skólameistara 1. júní síðastliðinn og var því að útskrifa í fyrsta sinn sagði frá því hve ánægjulegt það væri að aðsókn ungs fólks í iðn- og tæknigreinar væri að glæðast og gott væri að finna hvað stjórnmálamenn úr öllum flokkum og fólk úr öllum hópum samfélagsins virtist sammála um mikilvægi iðn- og tæknináms og eflingu þess.  Nú sé það áskorun skólans og menntakerfisins í heild að mæta þessari jákvæðu þróun og stuðla að því að hún haldi áfram.
Hátíðarræða skólameistara við útskrift jól 2018.

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir flutti nemendaræðu

Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, sem útskrifaðist af húsasmíðabraut, flutti ræðu nemenda en hún hefur tekið virkan þátt í kynningar- og félagsstörfum fyrir hönd skólans sem hún hlaut jafnframt viðurkenningu fyrir.  Í ræðu sinni fjallaði Ásrún um mikilvægi þess að standa með sjálfum sér og velja nám óháð hugmyndum annarra en hún hefur meðal annars tekið virkan þátt í átakinu #kvennastarf. Hún sagði að það sem hefði beint henni í þá átt að velja húsasmíðar hefði verið ,,draumur um sjálfbærni, sjálfstæðið sem slík kunnátta getur veitt og gleðina sem er fólgin í skapandi hugsun og handverki“.  Hún sagði Tækniskólann vera ,,kraumandi suðupott hagleiksfólks“ og ekki væri langt að sækja þverfaglegar ráðleggingar frá þeim margbreytilega hópi fólks sem væri við nám undir sama þaki.  Í skólanum væri mikil fjölbreytni í félagslífi og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.  Þá hrósaði hún jafnframt samnemendum og kennurum sínum.

Ljósmyndir

Ljós­mynd­arinn Odd Stefan Thorisson tók myndir við útskrift­ar­at­höfnina.

Hægt er að panta einstaka mynd hjá Odd Stefan: Hafið sam­band við Odd Stefan Thorisson í net­fang: [email protected]