fbpx
Menu

Fréttir

24. febrúar 2023

Nýtt kennsluefni í múrsmíði

Trausti Ragnar gefur út leiðbeiningarit um múrdælurTrausti Ragnar Einarsson, múrarameistari og kennari, gaf á dögunum út leiðbeiningarrit um múrdælur.

Trausti Ragnar byrjaði að kenna í Tækniskólanum haustið 2017, fyrst sem verktaki og síðar sem fastráðinn starfsmaður. Fljótlega eftir að hann byrjaði að kenna tók hann eftir því að það var mjög lítið framboð af kennsluefni í faginu. Hann fór því að íhuga hvort hann gæti gert eitthvað í málinu og vorið 2018 hófst hann handa á við að skrifa leiðbeiningar um múrdælur.

Upphaflega áttu þetta bara að vera nokkrar blaðsíður sem hann gæti haft til hliðsjónar fyrir sjálfan sig í kennslunni en svo vatt verkefnið upp á sig. Trausti nýtti tímann hvenær sem færi gafst og skrifaði meðal annars í flugvélum og út á hótelsvölum á Tenerife. Hann lagði svo lokahönd á ritið í ferðalagi á Balkanskaga vorið 2022. Í framhaldinu hafði Trausti samband við Iðnú útgáfu sem sýndi verkinu áhuga, tóku það að sér og gáfu ritið út.

Það fór mikil vinna í verkefnið og það kom Trausta til dæmis á óvart hvað það reyndist tímafrekt að lesa yfir og lagfæra í svona ferli. Aðspurður segist Trausti að það hefði svo sannarlega verið gott að hafa svona rit til hliðsjónar þegar hann var í námi því það er erfitt að læra á múrdælur án kennsluefnis. Þarna er að finna upplýsingar sem hefur alltaf vantað á markað og vonast Trausti til þess að í framtíðinni muni skólar geta nýtt heftið í sinni kennslu.

Við óskum Trausta innilega til hamingju með áfangann.