fbpx
Menu

Fréttir

05. apríl 2022

Mennta- og barna­málaráðherra
vígði vinnu­véla­hermi

Heimsókn ráðherra í Tækniskólann

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, heim­sótti Tækni­skólann mánu­daginn 4. apríl ásamt fylgd­arliði úr ráðuneytinu.

Tekið var á móti gest­unum á Skólavörðuholti og þeim fylgt í skoðunarferð um húsið. Litið var inn til nem­enda og kennara á íslensku­braut, hönn­unar- og nýsköp­un­ar­braut, mál­ara­deild, húsasmíði, gull- og silf­ursmíði, starfs­braut, fataiðndeild og í áfanga í menn­ing­ar­læsi. Ráðherra sýndi mikinn áhuga á starf­semi Tækni­skólans og gaf sig á tal við starfs­fólk og nem­endur á leið sinni um svæðið.

Að skoðunarferð lok­inni var haldið í framtíðarstofu skólans þar sem Hildur Ingvars­dóttir, skóla­meistari, flutti kynn­ingu um skóla­starfið og Jón B. Stef­ánsson fjallaði um nýbygg­ing­armál skólans. Þar gafst gestum einnig tæki­færi á að kynna sér starf­semi framtíðarstof­unnar, spjalla saman og snæða hádeg­isverð.

 

Nám í jarðvirkjun hefst af fullum krafti í haust

Ásmundur Einar endaði heim­sóknina á því að vígja fyrsta vinnu­véla- og öku­hermi skólans í til­efni þess að nám í jarðvirkjun hefst af fullum krafti í haust. Um er að ræða tveggja ára nám sem hefur verið þróað í sam­vinnu við Félag vinnu­véla­eig­enda, Samtök iðnaðarins og Mennta­málaráðuneytið.

Ráðherra tók form­lega í notkun einn af þremur nýjum vinnu­véla- og öku­hermum sem verða notaðir til verk­legrar þjálf­unar í náminu. Í hermunum má æfa sig á fjöl­margar vinnu­vélar og leysa í þeim raunhæf verk­efni í fjöl­breyttum aðstæðum á öruggan og umhverf­i­s­vænan máta. Ráðherra notaði fyrst skurðgröfu og ók svo búkollu og gerði hvort tveggja með prýði.

Viðstaddir vígsluna voru auk menntamálaráðherra,
starfsfólks ráðuneytis, stjórnenda og fulltrúa stjórnar skólans:

  • Árni Sigurjónsson, formaður SI
  • Ásdís Kristinsdóttir, verkefnastjóri þróunar jarðvirkjanáms
  • Bjartmar Steinn Guðjónsson, mannvirkjasviði hjá SI
  • Óskar Sigvaldason, formaður Félags vinnuvélaeigenda
  • Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI
  • Vilhjálmur Þór Matthíasson, Félag vinnuvélaeigenda

Heim­sóknin var sér­lega ánægjuleg og þökkum við Ásmundi og föru­neyti hans kær­lega fyrir komuna.