Samstarfsverkefni við
skóla í Tékklandi
Í byrjun maí lauk samstarfsverkefni K2, Raftækniskólans og třední škola průmyslová, technická a automobilní sem staðið hefur yfir frá því snemma á síðasta ári og fjallar um samanburð á orkumálum landanna tveggja.
Til verkefnisins völdust níu nemendur af K2 og þrír úr Raftækniskólanum, ásamt hópi átta kennara. Íslenski hópurinn fór til Jihlava í Tékklandi síðastliðinn nóvember og skoðaði meðal annars kolanámur, kjarnorkuver og vann verkefni um orkumál.
Ferðalög og verkefnavinna
Tékkneski hópurinn dvaldi í hálfan mánuð hér á Íslandi á vormánuðum og meðal dagskrárliða voru heimsóknir í Hellisheiðarvirkjun, Svartsengi og Decode. Auk þess skoðaði nemendahópurinn vatnsorku og jarðvarma á hinum ýmsu stöðum.
Menning lands og þjóðar var einnig skoðuð og hópurinn heimsótti áfangastaði eins og Vestmannaeyjar, Gullfoss, Geysi og Þingvelli. Auk þess fengu gestirnir tækifæri til að baðast úti í náttúrunni, bæði í Reykjadal og affallslóni jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi.
Á meðan á dvöl þeirra stóð leystu nemendur sömuleiðis fjölmörg verkefni sem höfðu öll skýra tengingu við umhverfis- og orkumál.
Góðir gestir
Fjöldi góðra gesta kom í heimsókn og fjallaði um umhverfis- og orkumál. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ræddi við hópinn um stefnu Íslands í orkumálum og sjálfbæra orku. Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands ræddi um sjálfbæra orku og vindorku. Gísli Sigurgeirsson og Úlfar Ormarsson, kennarar í Tækniskólanum, ræddu sína sýn á orkumálin. Svanborg Hilmarsdóttir frá ON kom og spjallaði við hópinn og Erla Guðný Helgadóttir frá Landvernd kom og kynnti nýtt Náttúrukort og þýðingu þess.
Tækniskólinn óskar nemendum og kennurum hópsins til hamingju með farsælt verkefni. Víst er að eftir situr góð vinátta og dýrmætur skilningur og þekking á mikilvægum málaflokki til framtíðar.