fbpx
Menu

Fréttir

08. febrúar 2019

Tækniskólinn á UTmessu

Tækniskólinn á UTmessu

UTmessan fer fram í Hörpu, dagana 8. og 9. febrúar og tekur Tækniskólinn virkan þátt í messunni – líkt og undanfarin ár – en svæði skólans er með glæsilegasta móti. Föstudagurinn er helgaður fyrirlestrum og er eingöngu opið ráðstefnugestum, sem hafa greitt sig sérstaklega inn, en dagurinn er einskonar árshátíð upplýsingatæknifólks á Íslandi. Það er svo opið fyrir almenning á laugardag – frá kl. 10:00 til 17:00 – öllum að kostnaðarlausu. Fulltrúar Vefskólans, Margmiðlunarskólans, Raftækniskólans, tölvubrautar og 42 framtíðarstofu standa vaktina fyrir Tækniskólann.

Teiknisamkeppni í Tilt Brush

Gestir á UTmessu hafa nóg að skoða frá Tækniskólanum á laugardeginum, sem dæmi er hluti 42 framtíðarstofu komin í Hörpu, en þar verður m.a. haldin teiknisamkeppni í Tilt brush sem er þrívíddarteikniforrit. Þeir sem vilja taka þátt í keppninni geta unnið glæsileg verðlaun, 1. verðlaun eru 40þús. króna inneign á endurmenntunarnámskeið  og 32gb silver iPad – 2. verðlaun er 20þús. kr. inneign á endurmenntunarnámskeið.

Sýndarveruleiki og vélmenni

Nemendur og kennarar frá Margmiðlunarskólanum verða í Norðurljósasal, þar sem gestir eiga kost á því að stíga inní sýndarveruleikaheim. Viðkomandi getur fylgst með sjálfum sér í samskiptum við teiknimyndapersónu og horft á útkomuna á skjá. Sjón er sögu ríkari!

Nemendur á tölvubraut verða einnig í Norðurljósasal með vélmenni sem leikur ýmsar listir. Vélmennið er hluti af áfanga sem kenndur er við brautina og þurfa nemendur að smíða vélmennið og forrita til þess að vinna ýmis verk.

Að auki má sjá nokkur sveinsprófsverkefni, frá nemendum úr rafeindavirkjun, í Norðurljósasal. En þar gefur að líta verkefni sem nemendur hafa smíðað frá grunni, bæði rafrásir og grind, með hjálp 3D prentara og laserskurðarvél.

Kynning á námi í Vefskólanum

Kennarar og nemendur úr Vefskólanum verða einnig á staðnum með kynningu á námi í Vefskólanum. Hvað er vefþróun, vefhönnun, notendaupplifun, „front end“ og „back end“? Vertu velkomin í spjall og spekúleringar – við tökum vel á móti þér.