Tveir nýir stjórnendur ráðnir til starfa
Tveir nýir stjórnendur hafa verið ráðnir til starfa hjá Tækniskólanum. Anna Jónsdóttir hefur verið ráðin í stöðu mannauðsstjóra Tækniskólans og Víglundur Laxdal Sverrisson hefur verið ráðinn skólastjóri Véltækniskólans og Skipstjórnarskólans.
Mannauðsstjóri
Anna Jónsdóttir, sem er viðskiptafræðingur að mennt og leggur stund á meistaranám í mannauðsstjórnun, hefur undanfarin 12 ár gegnt stöðu mannauðs- og gæðastjóra hjá Hótel Sögu. Í starfi sínu þar hefur hún borið ábyrgð á launavinnslu og mannauðskerfi, úrvinnslu tölulegra gagna og áætlanagerð, haft umsjón með ráðningum og nýliðaþjálfun, starfsþróun og frammistöðuviðtölum, veitt stjórnendum ráðgjöf og unnið að lausnum á ágreiningsmálum. Þá hefur hún víðtæka reynslu af stefnumótun hvers konar og þá ekki síst þeirri sem lýtur að mannauðsmálum.
Skólastjóri Véltækniskólans og Skipstjórnarskólans
Víglundur Laxdal er okkur að góðu kunnur enda hefur hann kennt vélstjórn og véltækni við skólann frá árinu 2018 auk þess að gegna hlutverki fagstjóra. Víglundur er vélfræðingur, vélvirki og rafvirki að mennt með diplóma í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands auk kennsluréttinda. Áður en Víglundur kom í Tækniskólann vann hann hjá SKF Danmark sem viðskiptastjóri í ein 12 ár. Þar áður var hann framkvæmdastjóri Viðhalds og Iðnaðartækni ehf. en hann var einnig tækni- og verkefnastjóri hjá skipafélaginu Mærsk um árabil.
Við hjá Tækniskólanum bjóðum þau hjartanlega velkomin til starfa!