fbpx
Menu

1. Uppbygging námsins

Námið á K2 skiptist í 6 annir. Hver önn skiptist í 2  spannir. Samhliða áföngum í kjarna vinna nemendur að einu þverfag­legu loka­verk­efni. Alls eru loka­verk­efnin fimm talsins. Tækni­skólinn áskilur sér rétt til að fækka eða fjölga loka­verk­efnum.

1.1 Einingafjöldi: 210 einingar
Námið á K2: Tækni og vísindaleiðinni er alls 210 einingar. 183 einingar eru í kjarna og 27 í vali. Náminu lýkur með stúdentsprófi.

1.2 Kjarnaáfangar: 183 einingar
Í kjarna eru alls 183 einingar og allir sem hyggjast ljúka námi af brautinni þurfa að klára alla kjarnaáfanga.

1.3 Valáfangar: 27 einingar
Nemendur hafa 27 einingar í vali. Nemendur geta valið áfanga þvert á brautir Tækniskólans. Einingar fyrir félagsstörf gilda ekki upp í einingar í vali. Einingar fyrir góða mætingu (95% eða hærra) gilda ekki upp í einingar í vali.

1.4 Bóklegi hluti flugnámsins
Nemendum á þriðja og síðasta námsári stendur til boða að taka bóklegan hluta flugnámsins sem hluta af vali sínu. Það er metið til 15 eininga. Námið fer fram hjá Geirfugli. Athugið að nemendur þurfa að fá 7,5 á öllum prófum til að teljast hafa náð áföngum þar. Sækja þarf sérstaklega um að taka bóklega hluta flugnámsins til skóla- eða brautarstjóra.

1.5 Einingar fyrir félagsstörf
Nemendur geta fengið einingar fyrir ýmis félagsstörf. Einingafjöldi er metinn af félagsmálafulltrúa skólans og í samræmi við námskrá skólans. Einingar fyrir félagsstörf koma ekki í staðinn fyrir valáfanga. Aðeins er hægt að nýta félagsmálaeiningar upp á móti falli. Að hámarki er hægt að fá 2 einingar á önn fyrir félagsstörf og aldrei fleiri en 12 einingar samtals yfir námstímann.

1.6 Einingar fyrir mætingu
Fyrir 95-100% raunmætingu getur nemandi á K2 fengið eina einingu á önn. Þá einingu er hægt að nýta upp á móti falli, sé þörf á því.

1.7 Einingar fyrir tónlistarnám
Nám (grunnpróf, miðpróf) í viðurkenndum tónlistarskólum sem prófað er af prófanefnd tónlistarskóla er metið af skólastjóra og brautarstjóra. Einingar fyrir tónlistarnám falla undir val í námsferli. Að hámarki er hægt að fá metnar 12 einingar í tónlistarnámi.

1.8 Áfangar á háskólastigi
K2 á í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Á hlokaönn stendur nemendum á K2, sem lokið hafa öllum stærðfræðiáföngum brautarinnar með 9 eða hærra í einkunn, til boða að taka 1-2 áfanga í HR.

Þeir áfangar sem standa K2-nemendum til boða fara eftir framboði námskeiða í HR. Brautarstjóri og fagstjóri þurfa að samþykkja að nemandi sæki áfanga í HR. Áfangar í HR eru metnir til 5 einingar og gilda sem val.

 

2. Reglur um mætingu

Allir nemendur á K2: Tækni- og vísindaleiðinni lúta almennum skólareglum hvað varðar mætingu, sjá reglur um skólasókn.

 

3. Kröfur um námsframvindu

Nemendur þurfa að standast kröfur um námsframvindu til að færast upp á milli áfanga, anna og ára.

3.1 Að standast áfanga
Til að standast áfanga þarf nemandi að ná að lágmarki 5,0 í lokaeinkunn. Lokaeinkunn hvers áfanga byggist á símati. Vægi hvers matsþáttar er breytilegt milli einstakra áfanga og er vægið tilgreint í kennsluáætlun. Nemandi þarf í öllum tilvikum að ná 4,0 eða hærra í lykilmatsþáttum. Nemandi sem fær undir 4,0 í einkunn á lykilmatsþætti er fallinn í áfanga.

3.2 Fall í kjarnaáfanga
Nemandi telst fallinn í áfanga ef hann nær ekki 5,0 í lokaeinkunn eða ef hann fær undir 4,0 í lykilmatsþætti. Samtals má nemandi falla þrisvar sinnum í kjarnaáfanga meðan á námi hans á K2 stendur. Aðeins má þó falla einu sinni hverjum áfanga.

3.2.1 Fall í kjarnaáfanga á haustönn
Falli nemandi í kjarnaáfanga á haustönn stendur honum til boða að taka sambærilegan áfanga í dagskóla næstu önn á eftir, sé sá áfangi í boði. Ef sambærilegur áfangi er ekki í boði í dagskóla þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig.

3.2.2 Fall í kjarnaáfanga á vorönn
Falli nemandi í áfanga á vorönn þarf hann að ræða við brautarstjóra um að fá undanþágu til að færast upp á milli bekkja þrátt fyrir fallið og taka áfangann, sem hann féll í, í dagskóla á næstu haustönn.

3.3 Fall í valáfanga
Falli nemandi í valáfanga færist hann engu að síður á milli anna/skólaára að því gefnu að hann hafi náð öllum kjarnaáföngum og staðist reglur um skólasókn og einingafjölda. Nemandi getur fallið tvisvar í sama valáfanga. Hafi hann fallið 2 í sama valáfanga stendur honum ekki til boða að taka þann áfanga aftur.

3.4 Kröfur um undanfara
Nemandi má ekki sitja áfanga hafi hann ekki lokið nauðsynlegum undanfara eða undanförum, nema í sérstöku samráði við brautarstjóra og kennara viðkomandi námsgreinar.

3.5 Til að ná önn
Til að standast önnina þurfa nemendur á K2 að hafa staðist alla bóklega kjarnaáfanga annarinnar en fjöldi eininga á önn í kjarna er á bilinu 18-35 einingar. Víkja má frá þessari meginreglu þrisvar sinnum, sbr. það sem segir hér á undan um fall í áfanga og hversu oft má falla í áfanga. Nemandi telst þó ávallt fallinn á önn hafi hann ekki lokið 15 einingum.

3.6 Fall á önn
Nemandi telst fallinn á önninni hafi hann ekki staðist alla kjarnaáfanga annarinnar, sbr. það sem segir hér að framan. Nemandi telst ávallt fallinn á önn hafi hann ekki lokið 15 einingum. Nemandi sem fellur á önn fær aðeins heimild til innritunar á næstu önn hafi hann haft meira en 70% mætingu á önninni og geri samning við brautarstjóra um ástundun og skólasókn ásamt því að fyrirséð er að hann geti lokið kjarnaáfanganum innan eða utan brautar.

3.7 Til að ná skólaárinu
Til að flytjast upp á milli bekkja þarf nemandi að hafa náð öllum kjarnafögum skólaársins, bæði á haust- og vorönn, og lokið tilskyldum fjölda eininga. Hafi nemandi fallið í kjarnaáfanga á haustönn þarf hann að hafa unnið þann áfanga upp á vorönn. Hafi nemandi fallið í kjarnaáfanga á vorönn þarf hann að hafa gert samning við brautarstjóra um að fá undanþágu til að færast upp á milli bekkja þrátt fyrir fallið og taka áfangann, sem hann féll í, næstu haustönn, sbr. það sem segir hér að ofan.

3.8 Fall á skólaári
Ef nemandi fellur á skólaárinu getur hann sótt um til brautarstjóra að setjast aftur í sama bekk. Þá á hann þann kost að fá metna þá kjarnaáfanga þar sem einkunn er 7,0 eða hærri (að undanskildum íþróttaáföngum).

3.9 Útskrift
Nemandi sem lokið hefur öllum kjarnaáföngum brautarinnar, samtals 183 einingar, og valáföngum hennar, alls 27 einingum, getur útskrifast sem stúdent af K2.

3.9.1 Útskriftarefni
Nemandi getur skráð sig sem útskriftarefni á síðustu önn sinni á K2 hafi hann lokið tilskyldum fjölda eininga og fyrirsjáanlegt er að hann ljúki þeim einingum sem hann er skráður í þá önnina.

3.9.2 Útskrift með fall í áfanga
Nemandi getur útskrifast sem stúdent með 4,0 í einkunn í að hámarki 1 áfanga. Í slíkum tilfellum fær nemandi engar einingar fyrir áfangann. Ákvæðið gildir eingöngu um lokaáfanga í viðkomandi námsgrein eða staka áfanga enda má ekki brjóta reglur um undanfara.

Einingafjöldi til stúdentsprófs á brautinni má aldrei verða minni en 210 einingar.

 

 

 

Uppfært 4. desember 2023