fbpx
Menu

Kafli 9 – Skólanámskrá


Námskröfur

Nemandi skal ljúka námi sem nemur 12 kennslustundum á viku eða 15 einingum á önn hið minnsta. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef um er að ræða:

  • sérstaka erfiðleika í námi, svo sem lesröskun eða fötlun
  • lokaönn í námi
  • nemendur á námssamningi

Nemandi sem fellur á önn fær aðeins heimild til innritunar á næstu önn hafi hann haft meira en 70% mætingu á önninni og geri samning um ástundun og skólasókn. Nemandi sem fallið hefur á tveimur önnum í röð eða þremur önnum samtals fær ekki skólavist á næstu önn. Ef frekari kröfur eru um námsframvindu á einstökum brautum, eru þær birtar á viðkomandi brautarsíðu.

 

Námsáætlanir

Uppbygging námsáætlana er eins fyrir alla áfanga en vikuplan er mismunandi á milli spanna/anna. Sjá nánar um gerð námsáætlana VKL-431

 

Námsgagnalisti

Nem­endur finna upp­lýs­ingar um bækur og náms­gögn í Innu, einnig á vef skólans. Námsgagnalisti í Innu á að innhalda öll námsgögn, bækur, verkfæri og annað sem nemandinn á að leggja til sjálfur.

 

Námsmat

Í annarlok fær nemandi einkunn fyrir árangur sinn í sérhverjum áfanga sem hann var skráður í. Fyrirkomulag námsmats og vægi einstakra þátta í námsmatinu (verkefna, vinnuframlags, prófa) kemur fram í námsáætlun. Gefnar eru einkunnir í heilum tölum frá 1 til 10. Til að standast námsmat í áfanga og fá leyfi til að hefja nám í næsta áfanga þarf lágmarkseinkunn 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 ef um er að ræða áfanga sem ekki er undanfari annars áfanga á brautinni. Slíkir áfangar gefa ekki einingar og þarf nemandi að skila öðrum einingum í staðinn. Ef frekari kröfur eru á einstökum brautum, eru þær birtar á viðkomandi brautarsíðu.

Um kennslu og námsmat:

  • Starfstími skólaárs er 18 vikur á önn.
  • Innan ramma 17 vikna rúmast samtals kennsludagar og námsmat.
  • 75 kennsludaga og 5 námsmatsdaga.
  • Á námsmatsdögum gilda reglur skólans um skráningu viðveru. Viðvera nemenda er skráð samkvæmt námsáætlun.
  • Síðasti skiladagur lokamatþáttar námsmats skal vera í síðustu kennsluviku og eða á námsmatsdögum í lok annar.
  • Síðasti starfsdagur samkvæmt stundatöflu er í skóladagatali skólans.

 

Endurgjöf og birting einkunna

Innan 5 daga eftir hvern matsþátt samkvæmt námsáætlun fá nemendur afhentar einkunnir í Innu. Nemendur geta fengið að sjá úrlausnir sínar hjá viðkomandi kennara og fengið skýringar á einkunnagjöf sé þess óskað. Nemendur geta einnig skoðað feril sinn og einkunnir í Innu. Þegar lokaeinkunn áfanga er birt, gefst nemendum kostur á að fara yfir námsmat með viðkomandi kennurum og leiðrétta val í samráði við skólastjóra/fagstjóra, sé þess þörf.

 

Um fall í einstökum áföngum

Falli nemandi þrisvar í sama áfanga þarf nemandi að sækja um undanþágu til skólastjóra ef hann vill halda námi áfram. Skólastjóri metur aðstæður nemandans og heimilar frekari skólavist eða hafnar. Jafnframt vísar skólastjóri nemandanum til námsráðgjafa.

 

Upptökupróf

Nemandi á útskriftarönn sem getur ekki útskrifast vegna falls í einum eða tveim áföngum getur fengið heimild til að taka upptökupróf í áfanganum eða áföngunum ef hægt er að koma því við í samráði við viðkomandi skólastjóra ef upptökupróf er framkvæmanlegt vegna umfangs áfangans. Ef áfanginn er verklegur þá er ekki framkvæmanlegt að taka upptökupróf. Nemandinn greiðir kostnað við að halda prófið. Einkunn fyrir úrlausn í upptökuprófi gildir sem lokaeinkunn í áfanganum.

 

Stöðu-/raunfærnimat

Í nokkrum námsgreinum getur skólinn heimilað nemendum sínum að taka stöðu-/raunfærnimat. Stöðu-/raunfærnimat er ætlað að kanna þekkingu eða hæfni nemenda og ákvarða í hvaða áfanga þeir skuli hefja nám í skólanum. Þeir sem gangast undir stöðu-/raunfærnimat greiða kostnað vegna matsins.

 

Sérúrræði við lausn matsþátta

Þeir nem­endur sem glíma við les­erfiðleika eða aðra námserfiðleika eiga rétt á allt að 30 mín­útum til viðbótar við lausn matsþátta. Sótt er um sérúrræði í Innu. Skráning sérúrræða virkar fyrir alla áfanga sem nemandi er skráður í umsóknin fylgir nemandanum á meðan hann er í skólanum og er því nægjanlegt að fylla út einu sinni, sjá nánar á vef skólans.

  1.  Nemandi/forráðamaður óskar eftir sérúrræði í námi í gegnum Innu og óskar þar eftir almennu sérúrræði.
  2.  Nemandi/forráðamaður sendir afrit af greiningunni sem viðhengi til aðstoðarskólameistara, ef nemandi/forráðamaður óska eftir því.
  3.  Einnig er hægt að koma með afrit af greiningu á fund með kennara í námsveri.
  4.  Nemandi/forráðamaður og kennari í námsveri ræða saman og ef nemandi er yngri en 18 ára þá geta aðstandendur komið með honum.
  5.  Kennari í námsveri útskýrir hvaða aðstoð í námi er í boði.
  6.  Kennari í námsveri og nemandi skipuleggja framhaldið saman.

 

Meðferð ágreiningsmála

Komi upp ágreiningur milli nemanda og kennara um mat úrlausnar skal farið eftir verklagsreglu um meðferð ágreiningsmála, VKL-425. Meðferð ágreiningsmála um mat úrlausnar. Finnist nemendum á sér réttur brotinn eða illa fram við sig komið skulu þeir koma kvörtunum til skólastjóra eða skólameistara eftir því sem við á og leita liðsinnis námsráðgjafa. Náms- og starfsráðgjafar eru jafnan málsvarar nemenda. Finnist starfsmönnum á sér réttur brotinn eða illa fram við sig komið skulu þeir koma kvörtunum til skólastjóra eða skólameistara eftir því sem við á. Trúnaðarmenn eru málsvarar starfsmanna. Einnig er hægt að skrá ábendingu/kvörtun í ábendingakerfi skólans á slóðinni https://tskoli.is/abendingar/ og er á ábyrgð gæðastjóra að koma ábendingu/kvörtun í réttan farveg skv. verklagsreglu VKL-404

 

Brautskráning

Nemandi lýkur námi í skólanum þegar hann hefur lokið ákveðnum áföngum og einingafjölda eins og tilgreint er í brautarlýsingu. Námstími til brautskráningar getur verið mislangur og fer eftir námsafköstum og lengd námsbrauta. Við brautskráningu fær nemandi skírteini þar sem fram kemur hvaða námi hann hefur lokið.

 

 

Uppfært 6. desember 2023

Áfangastjórn