fbpx
Menu

Iðnskólinn í Reykjavík

Saga Iðnskólans í Reykjavík hefst með stofnun Iðnaðarmanna­fé­lagsins í Reykjavík árið 1867. Það félag stofnaði til skóla­halds fyrir iðnnema árið 1873 og fór kennsla fram á sunnu­dögum nem­endum að kostnaðarlausu. Iðnskólinn í Reykjavík tók síðan til starfa 1904 í Vinam­inni í Grjótaþorpi og tveimur árum síðar flutti hann í nýbyggt hús Iðnaðarmanna­fé­lagsins við Von­ar­stræti. Skóla­stjóri var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar athafna­samur borg­ar­stjóri, en Þórarinn B. Þorláksson, mynd­list­armaður var ráðinn fastur teikni­kennari. Þórarinn varð víðfrægur fyrir túlkun sína á íslenskri náttúru í myndum sínum. Kennt var á kvöldin og að loknum 12–13 stunda vinnu­degi iðnnema þeirra tíma. Skólaárið 1929–1930 voru nem­endur orðnir 295 í 26 iðngreinum og hófst þá kennsla í dag­skóla í fyrsta sinn. Á kreppu­ár­unum milli 1930 og 1940 fækkaði iðnnemum og haustið 1939 eru þeir 224 í 33 iðngreinum.

 

Fjölgun í iðnnámi og þróun kennslunnar

Hús Tækniskólans Skólavörðuholti

Fjöldi iðnnema marg­faldaðist á árum síðari heims­styrj­ald­ar­innar. Skólaárið 1942–1943 voru nem­endur orðnir 571 í 43 iðngreinum, eða nærri 200 fleiri en árið á undan. Er þetta mesta fjölgun nem­enda milli ára sem um getur í sögu skólans. Þrengsli höfðu hrjáð skóla­hald við Tjörnina um árabil þegar ákveðið var að ráðast í nýbygg­ingu og ýmsir staðir komu til greina fyrir nýtt skólahús. Það varð hins vegar úr að Reykja­vík­ur­borg lét lóð undir skólann á Skólavörðuholti.

Árið 1944 var efnt til sam­keppni um skóla­bygg­inguna og varð Þór Sand­holt arki­tekt og kennari við skólann hlut­skarp­astur. Töluverðar breyt­ingar voru gerðar á teikn­ingu Þórs áður en þær voru lagðar fram til samþykktar árið 1946 en síðla það ár hófust fram­kvæmdir. Árið 1955 hófst kennsla í nýjum húsa­kynnum á Skólavörðuholti og var það tákn­rænt fyrir þá miklu efna­hags­legu end­ur­reisn sem varð á þeim árum í íslensku atvinnu­lífi. Í lok sjö­unda ára­tug­arins hóst nýr kafli í sögu skólans þegar stofn­settar voru fyrstu verk­náms­deild­irnar. Fram að því höfðu iðnmeist­arar séð um alla verk­lega kennslu.

Árið 1982 var tekið upp áfanga­kerfi við skólann og náms­efni í almennu bók­námi sam­ræmt því sem kennt var í öðrum fram­halds­skólum. Kennsla hófst í Meist­ara­skóla á vorönn 1963. Árið 1985 var stofnuð tölvu­braut við skólann og hönn­un­ar­braut 1995. Fyrstu stúd­ent­arnir voru útskrifaðir frá Iðnskól­anum í Reykjavík 1989. Grunnnám upp­lýs­inga- og fjölmiðlagreina hófst haustið 2000 og leita margir nem­endur inn á það svið en um helm­ingur nem­enda skólans stundaði nám á þessum þremur brautum skólaárið 2001–2002. Leiðir iðnnema til fram­halds­náms á æðri skóla­stigum og til end­ur­mennt­unar hvenær sem er á starfsæv­inni eru orðnar mun greiðari en áður var. Þróun Iðnskólans í Reykjavík end­ur­speglar nú sem áður þróun íslensks atvinnu­lífs. Iðnskólinn í Reykjavík heldur í heiðri og viðheldur fagþekk­ingu rót­gró­inna iðngreina og mótar námsleiðir þar sem ný atvinnu­tæki­færi eru að skapast.

 

Nám og atvinnulíf

Sérstaða Iðnskólans í Reykjavík fólst í nánum tengslum skólans við atvinnu­lífið í landinu á hverjum tíma og mark­vissum und­ir­bún­ingi nem­enda til ákveðinna starfa. Iðnskólinn í Reykjavík hefur verið eins konar móðurskóli hand­verks og iðnmennt­unar í landinu allt frá stofnun hans og á síðustu ára­tugum brautryðjandi í kennslu í tölvufræðum á fram­halds­skóla­stigi.

Meg­in­markmið og stefna Iðnskólans í Reykjavík var að veita menntun sem sam­tímis var sniðin að þörfum nem­enda og atvinnu­lífs, auðga líf ein­stak­ling­anna og efla sam­fé­lagið. Sýn starfs­manna Iðnskólans í Reykjavík á starf skólans og mennta­stefna var í sam­ræmi við þetta. Ein­kunn­arorð skólans voru að mæta nem­and­anum þar sem hann væri staddur og að bjóða trausta menntun í fram­sæknum skóla.

Frekari fróðleik um sögu Iðnskólans í Reykjavík má finna í Iðnskóli í eina öld, Iðnskólinn í Reykjavík 1904–2004, samantekin af Jóni Ólafi Ísberg.