fbpx
Menu

Skipstjórnarmenntun

Skipuleg kennsla skipstjórnarmanna hófst hér á landi upp úr miðri nítjándu öld á Ísafirði, en Torfi Halldórsson skipstjóri kenndi þar árin 1852–1856, en síðar á Flateyri við Önundarfjörð.

Fyrir stofnun Stýrimannaskólans í Reykjavík kenndu einstaka skipstjóralærðir menn á nokkrum stöðum um landið. Í Reykjavík mun Magnús Jónsson Waage fyrstur manna hafa byrjað kennslu í siglingafræði, sem hann auglýsti í Reykjavíkurpóstinum árið 1847. Þeir sem kenndu siglingafræði höfðu aflað sér menntunar erlendis eða með sjálfsnámi. Sumir höfðu lært undirstöðuatriði í siglingafræði af erlendum skipstjórum er sigldu hingað á sumrin. Í hópi þessara fyrstu kennara í siglingafræði voru t.d. Árni Thorlacius í Stykkishólmi, Jósef Valdason í Vestmannaeyjum, á Norðurlandi þeir Einar Ásmundsson í Nesi og Jón Loftsson í Efra-Haganesi, Fljótum, Eiríkur Briem prestaskólakennari í Reykjavík, Kristján Andrésson í Meðaldal í Dýrafirði og Hannes Hafliðason í Hafnarfirði.

 

Stofnun Stýrimannaskólans

Ekki komst þó nein skipan á þessi mál hér á landi fyrr en með stofnun Stýrimannaskólans í Reykjavík með lögum hinn 22. maí 1890, en skólinn tók til starfa haustið 1891. Fyrsti skólastjóri og einn helsti hvatamaður að stofnun Stýrimanna-skólans var Markús F. Bjarnason, skipstjóri á útvegi Geirs Zoëga í Reykjavík. Fyrir stofnun skólans hafði hann kennt ungum sjómönnum undir skipstjórnarréttindi, og voru þeir prófaðir um borð í dönskum herskipum, sem voru þá hér við landhelgisgæslu. Frá stofnun hefur Stýrimannaskólinn í Reykjavík verið höfuðskóli íslenskra sjómanna og skipstjórnarmanna.

Frá um 1910 til 1937 voru á vegum Fiskifélags Íslands haldin smáskipanámskeið á nokkrum stöðum á landinu. Námskeiðin stóðu í 3 til 4 mánuði og veittu fyrst 30 rúmlesta réttindi, og síðar 60 rúmlesta réttindi. Árið 1937 tók Stýrimannaskólinn í Reykjavík að sér þessi námskeið og lauk þeim með hinu minna fiskimannaprófi, sem veitti fyrst 75 rúmlesta réttindi, en síðar 120 rúmlesta réttindi.

 

Ný lög, breytt réttindi og þróun kennslunnar

Með nýjum lögum um atvinnu við siglingar árið 1936 voru gerðar allmiklar breytingar á prófum og kennslu í Stýrimannaskólanum. Fram að þeim tíma höfðu próf verið tvö – hið íslenska farmannapróf og hið íslenska fiskimanna-próf, en með breyttum lögum um skólann urðu prófin fjögur: Hið minna fiskimannapróf, Hið meira fiskimanna-próf, Farmannapróf og Skipstjórapróf á varðskipum ríkisins.

Þessi tilhögun náms og prófa var óbreytt fram til 1966, en þá var námsefni 1. bekkjar farmanna og fiskimanna samræmt og lengt úr fjögurra mánaða námi í 7 mánaða nám. Prófið var nefnt skipstjórapróf 1. stigs og veitti skipstjórnarréttindi í innanlandssiglingum á skip allt að 120 rúmlestir að stærð.

Með lögum nr. 112/1984 veitir skipstjórapróf 1. stigs skipstjórnarréttindi á 200 rúmlesta skip og minni í innanlandssiglingum og námið var lengt til jafns við önnur stig skipstjórnarnámsins.

Árið 1972 var námsefni 2. bekkjar fiskimanna og farmanna samræmt og nefnt skipstjórnarpróf 2. stigs. Það sama ár voru sett ný lög um Stýrimannaskólann, lög nr. 22 frá 3. maí 1972.

Með gildistöku laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, hinn 1. ágúst 1996, féllu lög um Stýrimannaskólann úr gildi, en Stýrimannaskólinn í Reykjavík, „sem veitir sérhæft nám á framhaldsskólastigi,“ fellur undir hin nýju framhaldsskólalög, sem „skulu komin að fullu til framkvæmda í upphafi skólaársins 2000-2001.“

Árið 1964 var Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum stofnsettur. Skólinn starfaði í tveimur deildum og veitti full réttindi fiskimanna (skipstjórnarpróf 1. og 2. stigs). Nám og námsfyrirkomulag var samsvarandi og í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og náið samstarf milli skólanna.

Árið 1981 hófst skipstjórnarfræðsla á Dalvík, og var námið hluti af sjávarútvegsdeild sem heyrði undir Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Með nýskipan skipstjórnarnámsins og lögum um framhaldsskóla nr. 80/1996 varð skipstjórnarfræðsla í Vestmannaeyjum og Dalvík breytt í sjávarútvegsbraut; í Vestmannaeyjum við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum, en á Dalvík í umsjá Verkmenntaskólans á Akureyri.

Skipstjórnarnám í landinu hefur lengi verið í endurskoðun. Menntamálaráðuneytið gaf út í júní 1996 skýrslu um „skipan skipstjórnarnámsins“ sem unnin var úr þrem nefndarálitum frá 1985, 1990 og 1994.

 

Áfangakerfið og námstími nemenda

Í september 1997 gaf ráðuneytið út brautarlýsingar sjávarútvegsbrautar og var náminu breytt úr bekkjakerfi í áfangakerfi. Inntökuskilyrði er grunnskólapróf og allt nám er metið. Auk þess sem nám í sjávarútvegsbraut leggur grunn að fagnámi í efri stigum skólans er það góður undirbúningur fyrir allt annað nám í sjávarútvegi. Sjávarútvegsbraut er 68 einingar og lokið er 30 rúmlesta réttindanámi.

Nefnd, sem endurskoðaði nám til hærri stiga skipstjórnarnámsins, skilaði tillögum til menntamálaráðuneytisins í apríl árið 2000. Þar er að loknum námsáföngum sjávarútvegsbrautar gert ráð fyrir að nám til 1. stigs verði 42 einingar og taki að meðaltali tvær annir, nám til 2. stigs verði 44 einingar og taki tvær annir, og nám til 3. stigs verði ein önn og 20 einingar. Samtals er nám til fyllstu réttinda á öll skip nema varðskip því 175 einingar. Námsefni 4. stigs hefur ekki enn verið endurskoðað en að því verður unnið n.k. haust í samráði við Landhelgisgæsluna.

Meðalnámstími nemenda, sem hófu nám í Stýrimannaskólanum strax að loknu grunnskólaprófi, var 6 annir eða 3 skólaár til skipstjórnarprófs 1. stigs, 8 annir til 2. stigs og 9 annir til ótakmarkaðra réttinda á kaupskip og sem yfirstýrimaður á varðskipum ríkisins. Kennslutíma er skipt í haust- og vorönn. Haustönn stendur frá því um 20. ágúst og fram í miðjan desember. Vorönn er frá byrjun janúar og fram um 20. maí þegar skólaárinu lýkur.

5. júní 2001 samþykkti menntamálaráðherra tillögu skólanefndar um tilfærslur á áföngum milli stiga. Ennfremur að nemandi sem hefur 24 mánaða reynslu til sjós fái allt að 16 einingar metnar inn í námið. Við þetta styttist námstíminn til 1. stigs í 2 skólaár, en námstíminn til 2. og 3. stigs er óbreyttur. Nemandi með 24 mánaða reynslu til sjós getur lokið náminu með einni önn minna.

1. ágúst 2003 tók Menntafélagið ehf. yfir rekstur Stýrimannaskólans og Vélskólans.

 

Ýtarlegri fróðleik um sögu skipstjórnarmenntunar á Íslandi má finna í hinu vandaða riti, Stýrimannaskólinn í Reykjavík í 100 ár, eftir Einar S. Arnalds sagnfræðing, sem út kom árið 1993.