fbpx
Menu

Upphaf vélstjóramenntunar

VélUpphaf vél­stjóra­mennt­unar á Íslandi má rekja til ársins 1911. Það ár tóku gildi lög sem gerðu ráð fyrir að stofnuð yrði vél­stjórn­ar­deild við Stýri­manna­skólann í Reykjavík en tog­ara­útgerð var þá nýlega hafin hér.

Til kennsl­unnar var ráðinn danskur maður, Mar­inius Eskild Jessen. Kenndi hann við deildina næstu vetur og varð síðar fyrsti skóla­stjóri Vél­stjóra­skólans. Skólinn var stofnaður 1915 og starfaði hann í tveimur deildum undir stjórn Jes­sens. Húsnæði hafði skólinn í kennslu­stofum Iðnskólans í Reykjavík við Lækj­ar­götu.

Um svipað leyti hófst nám­skeiðahald á vegum Fiski­fé­lags Íslands fyrir vél­gæslu­menn á litlum bátum. Sá fiski­fé­lagið um þann þátt vél­stjóra­mennt­un­ar­innar þar til Vél­skóli Íslands tók við því árið 1966.

Um og eftir fyrri heims­styrj­öldina fór raf­búnaður skipa að aukast. Sam­tímis opnaðist nýr starfs­vett­vangur fyrir vél­stjóra þegar virkjun fall­vatna hófst. Þessi þróun kallaði á aukna menntun vél­stjóra.

Árið 1930 voru samþykkt ný lög á alþingi þess efnis að stofnuð skyldi raf­magns­deild fyrir vél­stjóra og raf­virkja. Það var ekki síst fyrir atbeina Vél­stjóra­fé­lags Íslands, sem studdi skólann af ráðum og dáð, að lögin náðu fram að ganga. Þó var það ekki fyrr en árið 1935 sem raf­magns­deild skólans tók til starfa.

 

Inntökuskilyrði voru smiðjutími og sveinspróf

Allt til ársins 1966 var það inn­töku­skilyrði í skólann að umsækj­endur hefðu starfað í smiðju. Fram til 1936 urðu umsækj­endur að hafa starfað í þrjú ár í smiðju en eftir það í fjögur ár, ásamt að hafa lokið iðnskóla­prófi.

Þessi breyting kom til af árekstrum á vinnu­markaði vegna þess að vél­stjórar höfðu ekki iðnrétt­indi.

Þetta varð til þess að þeir sem ætluðu í Vél­skólann luku sveins­prófi áður. Allt til ársins 1966 höfðu einkum þeir sótt nám við skólann sem hugðust verða vél­stjórar á stórum skipum, tog­urum og far­skipum,. En með setn­ingu nýrra laga árið 1966 var skól­anum heimilað að taka nýja nem­endur án þess að þeir hefðu áður lokið smiðjutíma og iðnskóla­prófi. Kennsla í málmsmíðum hófst í Vél­skól­anum árið 1966 vegna hinna breyttu inn­töku­skilyrða.

Nem­endur, sem hugðust fá sveins­rétt­indi, en þau eru skilyrði fyrir því að fyllstu vél­stjórn­ar­rétt­indi og starfs­heitið „vélfræðingur“ fáist, fengu smiðjutíma sinn styttan um leið, úr fjórum árum í tvö.

Vél­stjóra­mennt­unin hefur æ síðan verið í höndum Vél­skólans og vél­skóla­deilda á lands­byggðinni (nú á vél­stjórn­ar­brautum fjöl­brauta­skól­anna).

 

Tækniframfarir og breyttir kennsluhættir

Tækni­fram­farir hafa orðið miklar á þeim árum sem Vél­skólinn hefur starfað og jafn­framt hafa orðið miklar breyt­ingar á kennslu­efni og starfs­háttum skólans. Fyrstu árin var námið við skólann ein­göngu bók­legt. Verkleg kennsla í vélasal hófst ekki fyrr en 1952. Kennsla í kæli­tækni hófst fyrst 1951, í stý­ritækni 1968, í stil­li­tækni 1970 og í tölvufræði 1981.

Haustið 1981 hófst kennsla sam­kvæmt áfanga­kerfi og var reglugerð þar að lút­andi sett í febrúar 1982. Við þá breyt­ingu á skól­anum var kennslan sam­ræmd kennslu í öðrum fram­halds­skólum eftir því sem við varð komið, jafn­framt því að nem­endum var gert kleift að ljúka hluta námsins í heima­byggð sinni eða í öðrum fram­halds­skólum.

 

Frekari fróðleik má finna í afmælisriti Vélskólans, Vélstjóramenntun á Íslandi, Vélskóli Íslands 75 ára, eftir Franz Gíslason.