Brautin er alls 210 einingar og skiptist í 183 eininga kjarna og 27 einingar í frjálsu vali.
Nemendur taka alla kjarnaáfanga með sínum bekk. Þeir eru kenndir af kennurum brautarinnar og kennsla fer fram á K2-ganginum á Skólavörðuholti eða í húsnæði HR við Öskjuhlíð.
Í kjarna er lögð áhersla á stærðfræði og raungreinar og taka nemendur til að mynda 35 einingar í stærðfræði og 15 einingar í eðlisfræði. Úrval áfanga í náttúruvísindum er sömuleiðis fjölbreytt og leggja kennarar sig almennt fram við að tengja efni áfanga sinna við áherslusvið brautarinnar. Kemur þetta til að mynda skýrt fram í áfanganum Vísinda- og menningasaga og síðasta íslenskuáfanga brautarinnar þar sem lögð er áhersla á máltækni, vélþýðingar og fleira. Áfanginn er unninn í samvinnu við HR.
Alls eru 20 einingar í íslensku á brautinni og 20 einingar í ensku. Nemendur taka einn áfanga í dönsku og þriðja tungumálið er spænska, alls 15 einingar. Í kjarna eru einnig spennandi áfangar í nýsköpun, frumkvöðlafræði, verksmiðju (rökrásaforritun) og upplýsingatækni.
Síðustu tvær vikur hverrar annar er hefðbundin stundaskrá tekin úr sambandi og nemendur einbeita sér að svokölluðum lokaverkefnum. Lokaverkefnin eru metin til þriggja eininga.
Um er að ræða sjálfstæð rannsóknarverkefni sem unnin eru í samstarfi við aðrar brautir skólans, aðra skóla, stofnanir, bæjarfélög eða fyrirtæki, undir leiðsögn og forystu kennara brautarinnar. Meðal samstarfsaðila eru Landvernd, Háskóla Íslands og Ungir vísindamenn, CCP, Snjallborgin Reykjavík, Stúdíó Sýrland, Össur, Lýsi og Umhverfisstofnun. Lagt er upp með ákveðið þema sem nemendur vinna út frá. Unnið er í hópum og verkefninu lýkur með kynningu og vörn.
Lokaverkefnin eru ákaflega fjölbreytileg og nemendur hafa mjög frjálsar hendur við útfærslu þeirra. Sem dæmi um verkefni nemenda má nefna rannsóknir á hulsum fyrir gervilimi, áætlun um innleiðingu svifnökkva fyrir græna og væna borg, stuttmyndir sem unnar voru með Stúdíó Sýrlandi og tölvuleikjagerð.
Lífsleikniáfangar K2 kallast Gæfuspor. Þeir eru 3 talsins og kenndir á haustönn. Í fyrsta áfanganum er lögð áhersla á aðferðir og vinnubrögð í framhaldsskólanámi; heimildir, heimildaleit og gagnrýnin hugsun, rannsóknarspurning o.s.frv. Í öðrum áfanganum er rýnt í rannsóknir og siðferði: Hvað má rannsaka? Þriðji áfanginn snýr að framtíðinni – því sem tekur við að námi loknu.
4 íþróttaáfangar eru á brautinni. Nemendur geta farið í hefðbundnar íþróttatíma en margir kjósa að nýta sér þær íþróttir, sem þeir þegar stunda, og skila inn vottorði og yfirliti um íþróttaiðkun til íþróttakennara nokkrum sinnum yfir önnina. Nemendum stendur einnig til boða að sækja líkamsræktarstöðvar og fá metið til eininga í íþróttum.
Valáfangar eru 27 einingar. Námið í Tækniskólanum er fjölbreytt og þar gefst góður kostur til að sníða stúdentsnámið að eigin áhugasviði. Nemendur geta tekið valáfanga af öllum brautum Tækniskólans, svo lengi sem þeir hafa lokið nauðsynlegum undanförum og pláss er í hópum. Einnig eru í boði sérhannaðir valáfangar sem kenndir eru eingöngu innan brautar, svo sem vefforritun, rafíþróttir, sjálfstætt rannsóknarverkefni, fjármálafræði og stjörnufræði.
Nemendur hafa tekið valáfanga í tungumálum, kerfisfræði, prentun, ljósmyndun, bókbandi, upplýsingatækni, sögu, róbótafræðum, félagsfræði og efnafræði, svo eitthvað sé nefnt. Nemendur geta byrjað að taka valáfanga strax á annarri önn. Þá hefur nemendum á brautinni staðið til boða að sækja námskeið í stærðfræði við Háskólann í Reykjavík. Þeir sem ljúka námskeiðinu útskrifast því með nokkrar háskólaeiningar í farteskinu. Samstarfið við HR er í sífelldri mótun og líklegt að nemendur á K2 muni einnig geta sótt fleiri námskeið í framtíðinni.
Á útskriftarönn stendur nemendum til boða að sækja sérstakan undirbúningsáfanga í gerð rannsóknarritgerða (litla BA-smiðjan) þar sem þeir þjálfa sig í vísindalegum og fræðilegum vinnubrögðum fyrir háskólanám og aðferðafræði rannsókna.