fbpx
Menu

Skipstjórnarmenntun

Skipuleg kennsla skip­stjórn­ar­manna hófst hér á landi upp úr miðri nítj­ándu öld á Ísafirði, en Torfi Hall­dórsson skip­stjóri kenndi þar árin 1852–1856, en síðar á Flat­eyri við Önund­ar­fjörð.

Fyrir stofnun Stýri­manna­skólans í Reykjavík kenndu ein­staka skip­stjóralærðir menn á nokkrum stöðum um landið. Í Reykjavík mun Magnús Jónsson Waage fyrstur manna hafa byrjað kennslu í sigl­ingafræði, sem hann aug­lýsti í Reykja­vík­ur­póst­inum árið 1847. Þeir sem kenndu sigl­ingafræði höfðu aflað sér mennt­unar erlendis eða með sjálfs­námi. Sumir höfðu lært und­irstöðuatriði í sigl­ingafræði af erlendum skip­stjórum er sigldu hingað á sumrin. Í hópi þessara fyrstu kennara í sigl­ingafræði voru t.d. Árni Thorlacius í Stykk­is­hólmi, Jósef Valdason í Vest­manna­eyjum, á Norðurlandi þeir Einar Ásmundsson í Nesi og Jón Loftsson í Efra-Haga­nesi, Fljótum, Eiríkur Briem presta­skóla­kennari í Reykjavík, Kristján Andrésson í Meðaldal í Dýrafirði og Hannes Hafliðason í Hafnarfirði.

 

Stofnun Stýrimannaskólans

Ekki komst þó nein skipan á þessi mál hér á landi fyrr en með stofnun Stýri­manna­skólans í Reykjavík með lögum hinn 22. maí 1890, en skólinn tók til starfa haustið 1891. Fyrsti skóla­stjóri og einn helsti hvatamaður að stofnun Stýri­manna­skólans var Markús F. Bjarnason, skip­stjóri á útvegi Geirs Zoëga í Reykjavík. Fyrir stofnun skólans hafði hann kennt ungum sjó­mönnum undir skip­stjórn­ar­rétt­indi, og voru þeir prófaðir um borð í dönskum her­skipum, sem voru þá hér við land­helg­is­gæslu. Frá stofnun hefur Stýri­manna­skólinn í Reykjavík verið höfuðskóli íslenskra sjó­manna og skip­stjórn­ar­manna.

Frá um 1910 til 1937 voru á vegum Fiski­fé­lags Íslands haldin smá­skipanám­skeið á nokkrum stöðum á landinu. Nám­skeiðin stóðu í 3 til 4 mánuði og veittu fyrst 30 rúm­lesta rétt­indi, og síðar 60 rúm­lesta rétt­indi. Árið 1937 tók Stýri­manna­skólinn í Reykjavík að sér þessi nám­skeið og lauk þeim með hinu minna fiski­manna­prófi, sem veitti fyrst 75 rúm­lesta rétt­indi, en síðar 120 rúm­lesta rétt­indi.

 

Ný lög, breytt réttindi og þróun kennslunnar

Með nýjum lögum um atvinnu við sigl­ingar árið 1936 voru gerðar all­miklar breyt­ingar á prófum og kennslu í Stýri­manna­skól­anum. Fram að þeim tíma höfðu próf verið tvö – hið íslenska far­manna­próf og hið íslenska fiski­manna-próf, en með breyttum lögum um skólann urðu prófin fjögur: Hið minna fiski­manna­próf, Hið meira fiski­manna-próf, Far­manna­próf og Skip­stjóra­próf á varðskipum rík­isins.

Þessi til­högun náms og prófa var óbreytt fram til 1966, en þá var náms­efni 1. bekkjar far­manna og fiski­manna sam­ræmt og lengt úr fjög­urra mánaða námi í 7 mánaða nám. Prófið var nefnt skip­stjóra­próf 1. stigs og veitti skip­stjórn­ar­rétt­indi í inn­an­lands­sigl­ingum á skip allt að 120 rúm­lestir að stærð.

Með lögum nr. 112/​1984 veitir skip­stjóra­próf 1. stigs skip­stjórn­ar­rétt­indi á 200 rúm­lesta skip og minni í inn­an­lands­sigl­ingum og námið var lengt til jafns við önnur stig skip­stjórn­ar­námsins.

Árið 1972 var náms­efni 2. bekkjar fiski­manna og far­manna sam­ræmt og nefnt skip­stjórn­ar­próf 2. stigs. Það sama ár voru sett ný lög um Stýri­manna­skólann, lög nr. 22 frá 3. maí 1972.

Með gildis­töku laga um fram­halds­skóla nr. 80/​1996, hinn 1. ágúst 1996, féllu lög um Stýri­manna­skólann úr gildi, en Stýri­manna­skólinn í Reykjavík, „sem veitir sér­hæft nám á fram­halds­skóla­stigi,“ fellur undir hin nýju fram­halds­skólalög, sem „skulu komin að fullu til fram­kvæmda í upp­hafi skóla­ársins 2000-2001.“

Árið 1964 var Stýri­manna­skólinn í Vest­manna­eyjum stofn­settur. Skólinn starfaði í tveimur deildum og veitti full rétt­indi fiski­manna (skip­stjórn­ar­próf 1. og 2. stigs). Nám og náms­fyr­ir­komulag var sam­svar­andi og í Stýri­manna­skól­anum í Reykjavík og náið sam­starf milli skól­anna.

Árið 1981 hófst skip­stjórn­arfræðsla á Dalvík, og var námið hluti af sjáv­ar­út­vegs­deild sem heyrði undir Verk­mennta­skólann á Akur­eyri (VMA). Með nýskipan skip­stjórn­ar­námsins og lögum um fram­halds­skóla nr. 80/​1996 varð skip­stjórn­arfræðsla í Vest­manna­eyjum og Dalvík breytt í sjáv­ar­út­vegs­braut; í Vest­manna­eyjum við Fram­halds­skólann í Vest­manna­eyjum, en á Dalvík í umsjá Verk­mennta­skólans á Akur­eyri.

Skip­stjórn­arnám í landinu hefur lengi verið í end­urskoðun. Mennta­málaráðuneytið gaf út í júní 1996 skýrslu um „skipan skip­stjórn­ar­námsins“ sem unnin var úr þrem nefndarálitum frá 1985, 1990 og 1994.

 

Áfangakerfið og námstími nemenda

Í sept­ember 1997 gaf ráðuneytið út braut­ar­lýs­ingar sjáv­ar­út­vegs­brautar og var náminu breytt úr bekkja­kerfi í áfanga­kerfi. Inn­töku­skilyrði er grunn­skóla­próf og allt nám er metið. Auk þess sem nám í sjáv­ar­út­vegs­braut leggur grunn að fagnámi í efri stigum skólans er það góður und­ir­bún­ingur fyrir allt annað nám í sjáv­ar­út­vegi. Sjáv­ar­út­vegs­braut er 68 ein­ingar og lokið er 30 rúm­lesta rétt­inda­námi.

Nefnd, sem end­urskoðaði nám til hærri stiga skip­stjórn­ar­námsins, skilaði til­lögum til mennta­málaráðuneyt­isins í apríl árið 2000. Þar er að loknum náms­áföngum sjáv­ar­út­vegs­brautar gert ráð fyrir að nám til 1. stigs verði 42 ein­ingar og taki að meðaltali tvær annir, nám til 2. stigs verði 44 ein­ingar og taki tvær annir, og nám til 3. stigs verði ein önn og 20 ein­ingar. Sam­tals er nám til fyllstu rétt­inda á öll skip nema varðskip því 175 ein­ingar. Náms­efni 4. stigs hefur ekki enn verið end­urskoðað en að því verður unnið n.k. haust í samráði við Land­helg­is­gæsluna.

Meðalnáms­tími nem­enda, sem hófu nám í Stýri­manna­skól­anum strax að loknu grunn­skóla­prófi, var 6 annir eða 3 skólaár til skip­stjórn­ar­prófs 1. stigs, 8 annir til 2. stigs og 9 annir til ótak­markaðra rétt­inda á kaup­skip og sem yfir­stýrimaður á varðskipum rík­isins. Kennslu­tíma er skipt í haust- og vorönn. Haustönn stendur frá því um 20. ágúst og fram í miðjan des­ember. Vorönn er frá byrjun janúar og fram um 20. maí þegar skóla­árinu lýkur.

5. júní 2001 samþykkti mennta­málaráðherra til­lögu skóla­nefndar um til­færslur á áföngum milli stiga. Enn­fremur að nem­andi sem hefur 24 mánaða reynslu til sjós fái allt að 16 ein­ingar metnar inn í námið. Við þetta styttist náms­tíminn til 1. stigs í 2 skólaár, en náms­tíminn til 2. og 3. stigs er óbreyttur. Nem­andi með 24 mánaða reynslu til sjós getur lokið náminu með einni önn minna.

1. ágúst 2003 tók Mennta­fé­lagið ehf. yfir rekstur Stýri­manna­skólans og Vél­skólans.

 

Ýtarlegri fróðleik um sögu skipstjórnarmenntunar á Íslandi má finna í hinu vandaða riti, Stýrimannaskólinn í Reykjavík í 100 ár, eftir Einar S. Arnalds sagnfræðing, sem út kom árið 1993.