Menu

Rit­verið er á bóka­safninu á Skólavörðuholti og það er opið alla miðviku­daga frá kl. 10:00–14:00.

Í rit­verinu er boðið upp á aðstoð við ritgerðarskrif, heim­ilda­leit og heim­ilda­skrán­ingar. Auk þess er boðið upp á aðstoð við gerð kynn­ing­ar­bréfs og fer­il­skrár.

Einnig er hægt að fá hjálp við ein­falda Wor­dPress heimasíðugerð, til dæmis fyrir port­folio síður.

Umsjón­armaður rit­versins er Sif og má senda henni fyr­ir­spurnir um rit­verið á net­fangið sss@tskoli.is.

 

Ritgerðaskrif

Bókasafnið SkólavörðuholtiHér á síðunni eru leiðbein­ingar sem nem­endur geta notað við ritgerðaskrif.
Þær eiga helst við um loka­verk­efn­isgerð en má einnig nota við styttri ritgerðir.

Hér eru einnig tenglar á leiðbein­ingar um heim­ilda­vinnu.

 

Forsíða

Á forsíðu verk­efnis er mik­il­vægt að ákveðnar upp­lýs­ingar komi fram svo auðvelt sé fyrir aðra að fá hug­mynd um hvað ritgerðin fjallar og að átta sig á hver skrifaði hana. Eft­ir­far­andi atriði er gott að hafa í huga:

  • lýsandi titill
  • nafn og kennitala nemanda (í stafrófsröð ef fleiri en einn)
  • áfangaheiti og númer
  • heiti skóla og undirskóla
  • nafn leiðbeinanda
  • önn/dagsetning skila

Hér má nálgast sniðmát sem nem­endur geta notað og fært viðeig­andi upp­lýs­ingar inn í:

Sniðmát (word) fyrir forsíðu.

Í loka­ritgerðum er sett autt blað milli forsíðu og efn­is­yf­ir­lits, þetta blað kallast saurblað og er ekki talið með í blaðsíðutalinu.

 

Efnisyfirlit

Í lengri ritgerð er gott að hafa efn­is­yf­irlit. Efn­is­yf­irlit auðveldar les­and­anum að átta sig á upp­setn­ingu ritgerðarinnar og finna ákveðna kafla.

Efn­is­yf­irlit á að vera á blaðsíðu 1 í ritgerðinni, forsíðan á ekki að teljast með í blaðsíðufjöld­anum.

Hér eru leiðbeiningar um hvernig má sleppa forsíðunni í blaðsíðutalningunni í Word

Efn­is­yf­irlit getur litið svona út:

  1. Inngangur ……………………………..bls. 2
  2. Efni og aðferðir ………………………bls. 3
    1. Ýtt úr vör ……………………….bls. 3
      1. Frá gufu til olíu ………bls. 4
  3. Með lausa skrúfu …………………….bls. 5
  4. Niðurstöður / lokaorð ……………..bls. 7
  5. Myndaskrá ……………………………..bls. 8
  6. Heimildaskrá ………………………….bls. 10
  7. Viðaukar ………………………………..bls. 11

Hægt er að gera efn­is­yf­ir­litið hand­virkt en einnig er hægt að láta rit­vinnslu­for­ritið gera það sjálf­virkt.

Hér eru leiðbeiningar um hvernig efnisyfirlit er búið til í Word

 

Inngangur

Í inn­gangi er stutt kynning á verk­efninu þar sem er sagt frá því hvað ritgerðin á að fjalla um. Gott er að byrja á víðri umfjöllun segja svo í stuttu máli frá efnis­tökum og því hvernig verk­efnið er unnið. Þá má til dæmis fjalla um hvort ritgerðin sé heim­ilda­ritgerð eða rann­sókn, hvort séu viðtöl, hvort ein­hver hafi veitt aðstoð og hver bak­grunnur verk­efn­isins er.

Fræðileg ritgerð svarar spurn­ingu/​spurn­ingum og hún er sett fram í lok inn­gangsins. Þessari spurn­ingu þarf svo að svara í meg­in­málinu og rökstyðja svarið. Inn­gangur er yfir­leitt hafður á sér blaðsíðu og er að hámarki ein síða en lengd fer að öðru leyti eftir lengd verk­efn­isins.

 

Meginmál

Meg­in­málið er aðalhluti ritgerðarinnar. Hér er fjallað um efnið sem var kynnt í inn­gang­inum. Kaflinn á ekki að heita meginmál heldur eitthvað sem er lýs­andi fyrir inni­haldið.

Í meg­in­máli geta verið fleiri en einn kafli og þeir geta haft undirkafla eftir því sem við á.

Gott er að byrja á því að fjalla um efni og aðferðir, það er að segja hvað ritgerðin fjallar um, til hvers hún er unnin og hvaða aðferðir var notast við til að vinna verk­efnið

Einnig má til dæmis fjalla um:

  • rannsóknarspurningu/rannsóknaraðferðir
  • hvaða heimildir er notast við og hvernig þeirra var aflað
  • tímabil eða ramma verkefnisins, hvenær var rannsóknin unnin
  • viðtöl, bakgrunn viðmælenda
  • verkið sett í stærra samhengi, t.d. sögulegt

 

Niðurstöður/lokaorð

Hér eru niðurstöður rann­sóknar settar í sam­hengi. Hér er fjallað um:

  • þýðingu hennar og hugsanlegt notagildi
  • hvaða lærdóm má draga af rannsókninni eða því sem fjallað er um í ritgerðinni,
  • hvað stendur upp úr,
  • hvaða spurningum er ósvarað, hvað mætti rannsaka nánar í framtíðinni

Hér mega ekki koma fram nýjar upp­lýs­ingar heldur ein­ungis sam­an­tekt á því sem hefur verið fjallað um áður. Niðurstöður eru hafðar á sér blaðsíðu og eru yfir­leitt ekki lengri en ein síða.

Gott er að láta niðurlag kallast á við inn­gang. Er búið að gera það sem átti að gera sam­kvæmt inn­gangi? Hvernig var það gert í stuttu máli. Hverjar voru niðurstöðurnar? Af hverju eru þær gagn­legar?

 

Heimildaskrá

Í lok ritgerðarinnar þarf að koma fram heim­ilda­skrá þar sem settar eru fram allar þær heim­ildir sem höf­und­urinn styðst við. Heim­ilda­skráin er alltaf á sér blaðsíðu aftast. Nokkrar almennar reglur um heim­ilda­skrár:

  • skrá yfir myndir er jafnan höfð á undan heimildaskrá en viðaukar á eftir (dæmi um viðauka eru spurningalistar, teikningar, skrá yfir viðmælendur, o.fl.)
  • heimildir eru í stafrófsröð eftir nafni höfunda, fornafni íslenskra höfunda en eftirnafni erlendra. Dæmi:
    • Fletscher, Sue. (2006). Reeds VHF-DSC handbook. 2. útg. London: Adlard Coles nautical.
    • Guðjón Ármann Eyjólfsson. (2009). Leiðastjórnun skipa. Kópavogur: Siglingastofnun Íslands.

Heimildaskráning – heimildaskrá skv. APA kerfi
Heimildaskráning – heimildaskrá skv. Chicago Manual of Style

 

Ýmislegt um málfar og uppsetningu

Íslenskar gæsalappir eru „svona“ (eins og 99 og 66). Kemur sjálf­krafa inn í nýrri útgáfum af Word.

Fyrsta efn­is­grein eftir fyr­ir­sögn er ekki inn­dregin, en allar efn­is­greinar þar á eftir í sama kafla eru inn­dregnar.

Vandið málfar, engar slettur nema ekki verði komist hjá þeim. Nota form­legan stíl og ekki nota orðatil­tæki nema vera alveg viss um að þau séu rétt notuð. Ekki nota talmál.

Hafið textann læsi­legan – ekki hafa of langt sam­hang­andi mál og ekki raða saman mörgum heim­ildum í sömu efn­is­grein.

Let­ur­stærð miðast við 12 p Times New Roman eða annað læsi­legt og hlut­laust letur. Línubil skal vera 1,5 eða 2.

Forðist óþarfa let­ur­breyt­ingar og skraut.

 

Bækur um ritgerðaskrif

Nánari leiðbein­ingar má finna í eft­ir­töldum ritum:

Baldur Sigurðsson og Bjarni Ólafsson. (1988). Fram á rit­völlinn. Reykjavík: Mál og menning.
Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grét­arsson. (2007). Gagnfræðakver handa háskóla­nemum. 4. útg. Reykjavík: Háskóla­út­gáfan.
Ingi­björg Axels­dóttir og Þórunn Blöndal. (2006). Handbók um ritun og frá­gang. 9. útg. Reykjavík: Mál og menning.

Einnig eru ítar­legar upp­lýs­ingar um gerð heim­ilda­skrár sam­kvæmt APA-kerfinu á leiðbeiningavef Ritvers menntavísindasviðs