fbpx
Menu

Heimildaskrá – APA

Heimildaskrá – APA

Þegar notast er við heimildir í ritgerð er nauðsynlegt að skrá þær í sérstaka heimildaskrá. Þar eru tilgreindir ýmsir þættir um heimildina sem gera þeim sem les ritgerðina auðveldara fyrir að finna upplýsingarnar sem byggt er á. Athugið að það þarf alltaf að tilgreina hvaðan upplýsingar sem notast er við eru fengnar. Þetta á bæði við þegar er verið að umorða það sem einhver annar hefur sett fram, svo sem hugmyndir eða rannsóknir og þegar verið er að vitna beint og orðrétt í ummæli einhvers annars.

Gerð heimildaskrár

Mismunandi kerfi – APA kerfið

Í fræðilegum verkum og rannsóknarritgerðum þarf alltaf að koma skýrt fram hvaða heimildir eru notaðar.

Heimildaskrá er listi yfir allar heimildirnar sem notaðar hafa verið við gerð ritgerðarinnar. Heimildaskrá er alltaf skráð eftir ákveðnu kerfi og eru til fleiri en eitt kerfi sem hægt er að styðjast við. Hér á eftir fylgja leiðbeiningar um hvernig á að nota APA kerfið en það er algengt kerfi hér á landi. Hvort sem notast er við APA kerfið eða önnur heimildaskráningarkerfi er mjög mikilvægt að gæta alltaf samræmis í allri heimildaskráningu.

Samræmt og skýrt

Upplýsingar sem þurfa að koma fram í heimildaskrá, eru eilítið mismunandi eftir heimildum, eins og má sjá á dæmunum hér á síðunni. Athugið að mikilvægt er að allar upplýsingar séu settar fram eins og í ritinu sem þær voru sóttar í.

 

Leiðbeiningar

Af hverju þarf ég að nota heimildir?

Heimildir eru notaðar til að svara rannsóknarspurningunni, til að koma upplýsingum á framfæri og til að sýna að höfundur ritgerðarinnar hefur aflað sér upplýsinga um efnið.

Heimildir eru mikilvægar til þess að:

  • lesandinn sjái á hverju verkið er byggt
  • skýrt sé að höfundur hafi aflað sér upplýsinga og vandað til verka
  • lesandinn geti treyst höfundi
  • lesandinn geti sannreynt það sem höfundur ritgerðarinnar skrifar
  • lesandinn geti jafnvel lesið meira um efnið með því að skoða heimildirnar.

Tilvitnanir

Texti sem við notum úr verkum annarra kallast tilvitnun. Tilvitnanir eru notaðar til að rökstyðja hugmyndir og tengja efnið við það sem áður hefur verið gert eða rannsakað á þessu sviði. Ef á að vitna í efni eftir annan höfund verður alltaf að geta heimilda.

Bein tilvitnun – texti er tekinn orðrétt upp eftir öðrum og merktur með gæsalöppum til að aðgreina hann frá eigin texta. Ef vitnað er beint í orð annarra má ekki breyta neinu innan gæsalappanna, meira að segja þó að sé prentvilla í textanum! Ef leynist prentvilla má merkja hana sérstaklega með því að skrifa [svo] beint á eftir henni, til þess að lesandinn átti sig á því að prentvillan er hluti af tilvitnuninni og ekki prentvilla í ritgerðinni sjálfri.

Ef tilvitnunin er lengri en 40 orð er hún ekki felld inn í texta heldur er dregin inn með tab takkanum. Þá eru ekki notaðar gæsalappir.

Óbein tilvitnun – þegar það sem aðrir hafa skrifað er umorðað og sagt frá því með eigin orðum. Þegar hugmyndir annarra eru umorðaðar þarf ekki að setja gæsalappir utan um tilvitnunina en samt er nauðsynlegt að setja tilvísun í sviga á eftir til þess að lesandinn átti sig á að þetta sé hugmynd eða efni sem höfundur ritgerðarinnar hefur eftir öðrum.

Tilvísanir

Hverri tilvitnun fylgir tilvísun, sem vísar í heimildaskránna en það  sem er vitnað í þarf ALLTAF að skrá í heimildaskrá!

Mismunandi aðferðir eru til að skrá tilvísanir eftir því hvaða heimildaskráningarkerfi er notað. Í APA kerfinu sem er mikið notað á Íslandi eru tilvísanir hafðar í sviga inni í textanum. Hver tilvísun vísar þá til ákveðinnar heimildar í heimildaskránni.

Tilvísanir eru stuttar með lágmarksupplýsingum, svo sem nafni, ártali og blaðsíðutali.

Almenn þekking?

Ekki þarf að vitna í heimildir um alkunnar staðreyndir, almenna þekkingu eða staðreyndir sem mjög auðvelt er að sannreyna.

Dæmi um þekkingu/staðreyndir sem þarf ekki að styðja með heimildum:

  • Hagaskóli er í Vesturbænum.
  • Hægt er að kaupa nautahakk í verslunum.
  • Forseti Íslands er Guðni Th. Jóhannesson.
  • Íslenska landsliðinu gekk mjög vel á EM 2016.

Það er að nokkru leyti háð markhópnum hvað þarf að styðja með heimildatilvitnun og þarf að meta hverju sinni hvort um almenna þekkingu er að ræða eða ekki.

 

Uppsetning í heimildaskrá

Heimildaskránni er raðað í stafrófsröð, nöfnum erlendra höfunda eftir eftirnafni fyrsta höfundar en íslenskum nöfnum er alltaf raðað eftir eiginnafni. Séu höfundar fleiri en einn er þeim raðað eins og þeir koma fyrir á bókarkápu eða titilsíðu. Ef höfundur er óþekktur, skal skrá ritið undir titli í stafrófsröð. Atriði í heimildaskrá eru aðskilin með punkti. Við uppsetningu heimildaskrár á að nota einfalt línubil og önnur línan í hverri heimild á að vera inndregin.

Í Word er þetta gert með því að velja Home flipann og opna þaðan Paragraph gluggann, og breyta stillingum undir Indentation í „Hanging“. 

Í Google Docs er þetta gert með því að velja Format flipann og þar undir Align & indent og í Indentation options velja Special indent Hanging“.

Bækur

Í heimildaskrá er heimildum raðað í stafrófsröð eftir nafni höfundar, fornafni Íslendinga en ættarnafni útlendinga.  Séu höfundar fleiri en einn, er nöfnum þeirra raðað eins og þeir koma fyrir á bókarkápu.

Höfundur. (Útgáfuár). Titill. Útgefandi.

Tilvísun: (Höfundur, ártal) eða Höfundur (ártal)

 

Eftir einn íslenskan höfund

Garðar Gíslason. (2008). Félagsfræði. Einstaklingur og samfélag (3. útgáfa). Mál og menning.

Tilvísun: (Garðar Gíslason, 2008) eða Garðar Gíslason (2008)

 

Eftir tvo íslenska höfunda

Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson. (2007). Gagnfræðakver handa háskólanemum (4. útgáfa). Háskólaútgáfan.

Tilvísun: (Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson, 2007) eða Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson (2007)

 

Eftir einn erlendan höfund (þýðing)

Gombrich, E. H. (2008). Saga listarinnar (Halldór Björn Runólfsson þýddi). Opna.

Tilvísun: (Gombrich, 2008) eða Gombrich (2008)

 

Eftir tvo erlenda höfunda

Andrews, Philip og Cope, Peter. (2007). The complete digital photography manual. Everything you need to know to shoot and produce great digital photographs. Carlton.

Tilvísun: (Andrews og Cope, 2007) eða Andrews og Cope (2007)

 

Höfundar ekki getið

Ef höfundur er óþekktur, skal skrá ritið undir titli á réttum stað í stafrófsröð.

Bárðar saga Snæfellsáss. (1999). Iðnú.

Tilvísun: (Bárðar saga Snæfellsáss, 1999) eða Bárðar saga Snæfellsáss (1999)

 

Ritstýrðar bækur

Orðabækur

Árni Böðvarsson (ritstjóri). (1996). Íslensk orðabók (2. útgáfa, aukin og bætt).  Mál og menning.

Tilvísun: (Árni Böðvarsson, 1996) eða Árni Böðvarsson (1996)

 

Færsla í orðabók

Mörður Árnason (ritstjóri). (2002). Ráðhygginn. Í Íslensk orðabók: M-Ö (3. útgáfa, aukin og endurbætt). Edda.

Tilvísun: (Mörður Árnason, 2002) eða Mörður Árnason (2002)

 

Færsla í alfræðiriti

Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (ritstjórar). (1990). Turtildúfa. Í Íslenska alfræðiorðabókin. Örn og Örlygur 

Tilvísun: (Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir, 1990) eða Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (1990)

 

Grein úr greinasafni eftir marga höfunda

Sigurður Þórarinsson. (1974). Sambúð lands og lýðs í ellefu aldir. Í Sigurður Líndal (ritstjóri), Saga Íslands I. Hið íslenska bókmenntafélag – Sögufélagið.  

Tilvísun: (Sigurður Þórarinsson, 1974) eða Sigurður Þórarinsson (1974)

 

Tímarit og dagblöð

Höfundur. (útgáfuár). Titill greinar. Heiti tímarits, árgangur (tölublað), síðutal.

 

Tímarit

Eftir einn íslenskan höfund

Hilmar Snorrason. (2009). Gömlu skipin. Sjómannablaðið Víkingur71(3), 25-27.

Tilvísun: (Hilmar Snorrason, 2009) eða Hilmar Snorrason (2009)

 

Höfundar ekki getið

Gíraffinn dularfulli: Hjartað kemur vísindamönnum í opna skjöldu. (2010). Lifandi vísindi, (1), 19-25.

Tilvísun: (Gíraffinn dularfulli: Hjartað kemur vísindamönnum í opna skjöldu, 2010) eða „Gíraffinn dularfulli: Hjartað kemur vísindamönnum í opna skjöldu“ (2010)

 

Tímarit, sem er skannað inn (til dæmis á timarit.is)

Halldór Jónsson. (1939). Neyðarkall á 182 metrum. Sjómannablaðið Víkingur, 1(1), 12.

Tilvísun: (Halldór Jónsson, 1939) eða Halldór Jónsson (1939)

Greinin er sótt af timarit.is http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4224833&issId=288338&lang=is, en af því að hún er skönnuð inn og því nákvæmlega eins og prentaða útgáfan, er hún skráð í heimildaskrá eins og um tímaritið sjálft væri að ræða

 

Dagblöð

Grein með höfundi

Kristín Heiða Kristinsdóttir. (2014, 28. október). Ég er sterkari en ég hélt að ég væri. Morgunblaðið, bls.10.

Tilvísun: (Kristín Heiða Kristinsdóttir, 2014) eða Kristín Heiða Kristinsdóttir (2014)

Í sumum dagblöðum er eingöngu gefin upp skammstöfun á nafni höfundar eða netfang. Þetta má til dæmis leysa á eftirfarandi hátt:

S.H.Á. (2014, 28. október). Sigið nú 40 metrar. Fréttablaðið, bls. 10.

(S.H.Á., 2014)

[email protected] [nafns ekki getið]. (2014, 28. október). Strætó fær tuttugu nýja strætisvagna. Fréttablaðið, bls. 2.

([email protected], 2014)

 

Grein án höfundar

Fiskneysla eykst í heiminum. (2014, 28. október). Morgunblaðið, bls. 15.

(Fiskneysla eykst í heiminum, 2014) eða „Fiskneysla eykst í heiminum“ (2014)

 

Fjölmiðlar á netinu

Höfundur. (ártal, dagsetning). Titill [lýsing á tegund efnis]. Fjölmiðill, bls. x. http://www._______

 

Fréttamiðill á netinu

Með höfundi

Auður Albertsdóttir. (2014, 28. október). Aukinn áhugi á ferðum til Vesturheims. Mbl.is. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/28/aukinn_ahugi_a_vesturheimsferdum/

Tilvísun: (Auður Albertsdóttir, 2014) eða Auður Albertsdóttir (2014)

Athugið að stundum ber rafrænt form heimildarinnar sérstakt nafn, samanber Morgunblaðið og mbl.is og þá kemur það heiti fyrir framan slóðina.

 

Án höfundar

Halloween svíkur aldrei. (2022, 13. október) Kvikmyndir.is. https://kvikmyndir.is/halloween-svikur-aldrei/

Tilvísun: (Halloween svíkur aldrei, 2022) eða „Halloween svíkur aldrei“ (2022)

 

Veftímarit

Beach, C. (2022, 19. október). The Visual Identity for Pride Amsterdam 2022 is All About (Gender) Fluidity. Print. https://www.printmag.com/branding-identity-design/pride-amsterdam/

Tilvísun: (Beach, 2022) eða Beach (2022)

 

Efni á netinu – greinar, hljóð og myndrænt efni

Vefsíða

Reykjavíkurborg. (e.d.). Íbúalýðræði. https://reykjavik.is/ibualydraedi

Tilvísun: ( Reykjavíkurborg, e.d.) eða Reykjavíkurborg (e.d.)

Hér kemur stofnun í stað höfundar þar sem stofnunin ber ábyrgð á því sem birtist á vefnum. Hið sama á við ef fyrirtæki ber ábyrgð á vefsíðunni. Ef engin stofnun eða fyrirtæki er ábyrgðaraðili þess sem verið er að vitna í er titill settur í stað höfundar og er þá:

Titill greinar. (Ár, dagur. mánuður).  http://www._______

Tilvísun: (Titill greinar, ár)

 

Blogg

Trausti Jónsson. (2014, 18. október). Norðankast í undirbúningi? [bloggfærsla]. http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1476152/

 

Myndskeið af Youtube

Höfundur. (ár, dagur. mánuður). Titill myndbands [Myndskeið]. Heiti vefsíðu. http://____x

Notandinn sem setur myndbandið inn er skráður sem höfundurinn. Ef vantar raunverulegt nafn höfundar er það leyst á eftirfarandi hátt:

Skjánafn. (ár, dagur. mánuður). Titill myndbands [Myndskeið]. Heiti vefsíðu. http://____x

The Real Grumpy Cat. (2012, 25. september). The Original Grumpy Cat [myndskeið].  YouTube. http://www.youtube.com/watch?v=INscMGmhmX4

Tilvísun: (The Real Grumpy Cat, 2012) eða „The Real Grumpy Cat“ (2012)

 

Hlaðvarp

Stakur þáttur:

Elva Björk Ágústsdóttir (þáttastjórnandi). (2021, 23. apríl). Af hverju „elskum“ við morð? (nr. 18) [hlaðvarpsþáttur]. Í Poppsálin. Mbl.is. https://www.mbl.is/hladvarp/hlusta/poppsalin/

Tilvísun: (Elva Björk Ágústsdóttir, 2021) eða Elva Björk Ágústsdóttir (2021)

 

Munnlegar heimildir

Stundum eru notaðar heimildir sem lesandinn hefur ekki möguleika á að nálgast. Slíkar heimildir geta til dæmis verið viðtöl, tölvupóstar og fyrirlestrar eða annað námsefni frá kennurum. Efni af þessu tagi er ekki skráð í heimildaskrá heldur eru allar upplýsingar um það settar beint inn í textann. Það getur til dæmis litið svona út:

Í viðtali við Ingibjörgu Rögnvaldsdóttur, forstöðumanns bókasafns og upplýsingamiðstöðvar Tækniskólans, þann 12. september 2011, kom fram að almennt leituðu vélstjórnarnemar ekki aðstoðar á bókasafninu við öflun heimilda.
Stefán Þór Herbertsson, vélstjóri á Beiti, hefur áratuga reynslu af báðum þessum kerfum. Hann telur að ekki sé teljandi munur…. (14. október 2011).
Skv. Björgúlfi Jónssyni, sölumanni hjá Ísfelli, er mikill verðmunur á skötuselsnetum eftir því hvar þau eru framleidd (12. nóvember 2011).

Ef um er að ræða viðtal þarf að koma fram fullt nafn viðmælanda og dagsetning viðtalsins. Jafnframt verður að segja deili á viðkomandi til skýringar á því af hverju til hans er leitað.