Menu

Nemendur

Til Dan­merkur í Hús­gagna­bólstrun

Þegar nem­endur í hús­gagna­bólstrun hafa lokið þeim tímum sem hægt er að taka í Tækni­skól­anum og lokið ákveðið mörgum stundum hjá meistara í hús­gagna­bólstrun, þarf að leggja land undir fót og taka seinni hluta námsins í Skive Col­lege í Skive á Jótlandi. Skive Col­lege er stór tækni­skóli með um 1500 nem­endum og er hægt að læra allt mögu­legt í skól­anum. Hús­gagna­bólstrun er eitt nám af mörgum.

Auður og Berg­lind segja okkur frá náminu og aðstöðunni en þær fóru út á Era­smus+ styrk.

Era­smus+ veitir nem­endum í starfs­mennta­skólum og nemum á samn­ingi tæki­færi til að fara í náms- og þjálf­un­arferðir og starfsnám hjá fyr­ir­tækjum, skólum og stofn­unum í Evrópu í 2 vikur til 12 mánuði. Námið/þ​​​jálf­unin verður hluti af námi viðkom­andi nem­anda og metið sem slíkt að dvöl lok­inni. Hér eru upplýsingar um alþjóðasamstarf og Erasmus+ styrk hjá Tækniskólanum.

Klára námið í Skive

Uppbygging námsins

Náminu í hús­gagna­bólstrun í Skive Col­lege er skipt upp í þrjár lotur og stendur hver lota í fimm vikur. Á milli hverrar lotu er ein vika þar sem fundið er verkstæði fyrir íslenska nem­endur til að fara í verknám. Í heildina eru því íslenskir nem­endur í eina önn í  Skive. Sumir nem­endur byrja námið í ágúst, á haustönn. Aðrir byrja í janúar og eru á vorönn.

Lot­urnar þrjár sem íslenskir nem­endur taka eru kallaðar H1, H2 og H3. Þessar lotur eru ekki endi­lega teknar í réttri röð. Allar lot­urnar fara fram á sama verkstæði í skól­anum. Skylda er að vera í örygg­is­skóm á verkstæðinu. Skólinn útvegar nokkrar stærðir af skóm en ekki tryggt að skór séu til í réttri stærð. Öll verk­færi eru til staðar. Hver nem­andi fær verk­færa­tösku að láni með þeim verk­færum sem þarf og skáp til að geyma töskuna og annað í. Gott er þó að hafa með sér nokkra hluti að heiman eins og skæri, mál­band, reglu­stiku, penna, tréliti og glósubók. Tölvu þarf að nota í skól­anum, fyrir autocad og önnur verk­efni. Ef nem­andi á ekki tölvu þá er hægt að fá lánaða far­tölvu hjá skól­anum til eigin nota á meðan á náminu stendur.

Í H1 er hannaður stóll fyrir börn á aldr­inum 7-12 ára. Stóllinn á að vera að mestu úr svampi en þó með ein­hvers­konar bindi­kerfi. Þarna er verið að kenna nem­endum að vinna með nútíma­efni í bólstrun eins og svamp og fleira.

Í H2 er hins vegar unnið með hefðbundna gam­aldags bólstrun. Allir nem­endur vinna sama stólinn frá grunni. Nem­endur frá sama tré­stellið til að skrúfa saman og svo vinna allir eins. Fyrst er stóllinn teiknaður upp í autocad og síðan byrjað á upp­bygg­ingu hans frá grunni út frá teikn­ingu.  Stóllinn er byggður upp á hefðbundinn hátt með fjaðrabind­ingum. Í H2 er ein­ungis unnið með sætið og lot­unni lýkur áður en áklæðið er sett á.

Í H3 er stóllinn kláraður. Þá er lokið við arma og bak og stóllinn er að lokum klæddur með leðri.

Ef nem­andi vill eiga stólinn sem hann vinnur með þá þarf hann að borga efn­is­kostnað. Þá hefur nem­andinn aðeins meira að segja um end­an­legt útlit stólsins og leðrið sem fer á hann.

 

Aðstaðan í skólanum er ljómandi góð

Í skól­anum er heima­vist þar sem flestir nem­endur búa fimm daga vik­unnar. Flestir nem­endur í skól­anum fara heim um helgar en það gera íslenskir nem­endur auðvitað ekki. Her­bergin eru lítil en það er allt til staðar sem þarf. Þú færð handklæði og rúmföt og á vist­inni er þvottahús þar sem hægt er að þvo þvott.

Matur er innifalinn í mötu­neyti skólans alla virka daga (nema föstu­dags­kvöld), þrjár máltíðir á dag. Um helgar þurfa þeir nem­endur sem eftir verða á vist­inni að bjarga sér sjálfir með mat. Á hverri hæð er sam­eig­in­legt eldhús með öllu sem þarf og hægt er að hafa það huggu­legt í sófum og horfa á sjón­varp.

Í and­dyri heima­vist­ar­innar er umsjón­armaður/​kona sem hægt er að vera í sam­bandi við og fá upp­lýs­ingar um hvað sem er. Umsjón­ar­fólkið er mjög hjálp­legt við nem­endur. Í sam­eig­in­legu rými heima­vist­ar­innar er líka setu­stofa, lík­ams­rækt­ar­salur, poolborð, borðtennis, playstation og fleira. Hægt er að fá lánuð hjól hjá umsjón­ar­manni til að skoða sig um í nágrenninu

Skólinn heldur nokkuð þétt utanum nem­endur sem koma frá Íslandi. Flestir tala ágætis ensku. Námið fer fram á dönsku og er það undir nem­endum sjálfum komið hvort þeir helli sér í dönskuna eða noti ensku í sam­skiptum. Í hverri lotu er nýr hópur nem­enda svo að íslenskir nem­endur hitta alltaf nýja nem­endur í hverri lotu.

 

Um ferðalagið og bæinn Skive

Ferðalagið frá Kaup­manna­höfn til Skive er gott að und­irbúa áður en lagt er af stað frá Íslandi. Hægt er að taka lest frá Kaup­manna­höfn með skiptistoppi í Árósum. Gott að er kaupa lest­armiðann með fyr­ir­vara svo að hægt sé að kaupa sæti. Annar mögu­leiki er að taka rútu frá lest­arstöðinni í Kaup­manna­höfn með Flixbus. Rútan fer seinni partinn beint til Skive. Skólinn byrjar alltaf á mánu­degi og ef nem­andi er á vist­inni er bara hægt að mæta á staðinn á sunnu­dags­eftrimiðdegi eða kvöldi.

Bærinn Skive er rólegur bær á Jótlandi. Íbúar í bænum eru um átján þúsund. Í bænum eru tveir stórir skólar, auk Skive Col­lege er lýðháskóli fyrir ungt fólk í list­námi svo að á fimmtu­dags­kvöldum er algengt að nem­endur kíki út á næt­ur­lífið. Vet­urinn í Skive er rakur og rign­inga­samur og gott að hafa með sér hlýja peysu. Í bænum er hægt að finna allt sem þarf. Það er fínt bíó í Skive Kult­urcenter og sund­laug á sama stað.

Verk­efni frá nem­endum

For­rit­un­ar­keppni fram­halds­skól­anna

Glæsilegur árangur nemenda

Útskriftarsýning hársnyrtideildar

Bíómyndaþema

T-ið í TÆKNÓ

Glænýtt skólablað