fbpx
Menu

Nemendur

Til Danmerkur í Húsgagnabólstrun

Þegar nemendur í húsgagnabólstrun hafa lokið þeim tímum sem hægt er að taka í Tækniskólanum og lokið ákveðið mörgum stundum hjá meistara í húsgagnabólstrun, þarf að leggja land undir fót og taka seinni hluta námsins í Skive College í Skive á Jótlandi. Skive College er stór tækniskóli með um 1500 nemendum og er hægt að læra allt mögulegt í skólanum. Húsgagnabólstrun er eitt nám af mörgum.

Auður og Berglind segja okkur frá náminu og aðstöðunni en þær fóru út á Erasmus+ styrk.

Era­smus+ veitir nem­endum í starfs­mennta­skólum og nemum á samn­ingi tæki­færi til að fara í náms- og þjálf­un­arferðir og starfsnám hjá fyr­ir­tækjum, skólum og stofn­unum í Evrópu í 2 vikur til 12 mánuði. Námið/þ​​jálf­unin verður hluti af námi viðkom­andi nem­anda og metið sem slíkt að dvöl lok­inni. Hér eru upplýsingar um alþjóðasamstarf og Erasmus+ styrk hjá Tækniskólanum.

Klára námið í Skive

Uppbygging námsins

Náminu í húsgagnabólstrun í Skive College er skipt upp í þrjár lotur og stendur hver lota í fimm vikur. Á milli hverrar lotu er ein vika þar sem fundið er verkstæði fyrir íslenska nemendur til að fara í verknám. Í heildina eru því íslenskir nemendur í eina önn í  Skive. Sumir nemendur byrja námið í ágúst, á haustönn. Aðrir byrja í janúar og eru á vorönn.

Loturnar þrjár sem íslenskir nemendur taka eru kallaðar H1, H2 og H3. Þessar lotur eru ekki endilega teknar í réttri röð. Allar loturnar fara fram á sama verkstæði í skólanum. Skylda er að vera í öryggisskóm á verkstæðinu. Skólinn útvegar nokkrar stærðir af skóm en ekki tryggt að skór séu til í réttri stærð. Öll verkfæri eru til staðar. Hver nemandi fær verkfæratösku að láni með þeim verkfærum sem þarf og skáp til að geyma töskuna og annað í. Gott er þó að hafa með sér nokkra hluti að heiman eins og skæri, málband, reglustiku, penna, tréliti og glósubók. Tölvu þarf að nota í skólanum, fyrir autocad og önnur verkefni. Ef nemandi á ekki tölvu þá er hægt að fá lánaða fartölvu hjá skólanum til eigin nota á meðan á náminu stendur.

Í H1 er hannaður stóll fyrir börn á aldrinum 7-12 ára. Stóllinn á að vera að mestu úr svampi en þó með einhverskonar bindikerfi. Þarna er verið að kenna nemendum að vinna með nútímaefni í bólstrun eins og svamp og fleira.

Í H2 er hins vegar unnið með hefðbundna gamaldags bólstrun. Allir nemendur vinna sama stólinn frá grunni. Nemendur frá sama tréstellið til að skrúfa saman og svo vinna allir eins. Fyrst er stóllinn teiknaður upp í autocad og síðan byrjað á uppbyggingu hans frá grunni út frá teikningu.  Stóllinn er byggður upp á hefðbundinn hátt með fjaðrabindingum. Í H2 er einungis unnið með sætið og lotunni lýkur áður en áklæðið er sett á.

Í H3 er stóllinn kláraður. Þá er lokið við arma og bak og stóllinn er að lokum klæddur með leðri.

Ef nemandi vill eiga stólinn sem hann vinnur með þá þarf hann að borga efniskostnað. Þá hefur nemandinn aðeins meira að segja um endanlegt útlit stólsins og leðrið sem fer á hann.

 

Aðstaðan í skólanum er ljómandi góð

Í skólanum er heimavist þar sem flestir nemendur búa fimm daga vikunnar. Flestir nemendur í skólanum fara heim um helgar en það gera íslenskir nemendur auðvitað ekki. Herbergin eru lítil en það er allt til staðar sem þarf. Þú færð handklæði og rúmföt og á vistinni er þvottahús þar sem hægt er að þvo þvott.

Matur er innifalinn í mötuneyti skólans alla virka daga (nema föstudagskvöld), þrjár máltíðir á dag. Um helgar þurfa þeir nemendur sem eftir verða á vistinni að bjarga sér sjálfir með mat. Á hverri hæð er sameiginlegt eldhús með öllu sem þarf og hægt er að hafa það huggulegt í sófum og horfa á sjónvarp.

Í anddyri heimavistarinnar er umsjónarmaður/kona sem hægt er að vera í sambandi við og fá upplýsingar um hvað sem er. Umsjónarfólkið er mjög hjálplegt við nemendur. Í sameiginlegu rými heimavistarinnar er líka setustofa, líkamsræktarsalur, poolborð, borðtennis, playstation og fleira. Hægt er að fá lánuð hjól hjá umsjónarmanni til að skoða sig um í nágrenninu

Skólinn heldur nokkuð þétt utanum nemendur sem koma frá Íslandi. Flestir tala ágætis ensku. Námið fer fram á dönsku og er það undir nemendum sjálfum komið hvort þeir helli sér í dönskuna eða noti ensku í samskiptum. Í hverri lotu er nýr hópur nemenda svo að íslenskir nemendur hitta alltaf nýja nemendur í hverri lotu.

 

Um ferðalagið og bæinn Skive

Ferðalagið frá Kaupmannahöfn til Skive er gott að undirbúa áður en lagt er af stað frá Íslandi. Hægt er að taka lest frá Kaupmannahöfn með skiptistoppi í Árósum. Gott að er kaupa lestarmiðann með fyrirvara svo að hægt sé að kaupa sæti. Annar möguleiki er að taka rútu frá lestarstöðinni í Kaupmannahöfn með Flixbus. Rútan fer seinni partinn beint til Skive. Skólinn byrjar alltaf á mánudegi og ef nemandi er á vistinni er bara hægt að mæta á staðinn á sunnudagseftrimiðdegi eða kvöldi.

Bærinn Skive er rólegur bær á Jótlandi. Íbúar í bænum eru um átján þúsund. Í bænum eru tveir stórir skólar, auk Skive College er lýðháskóli fyrir ungt fólk í listnámi svo að á fimmtudagskvöldum er algengt að nemendur kíki út á næturlífið. Veturinn í Skive er rakur og rigningasamur og gott að hafa með sér hlýja peysu. Í bænum er hægt að finna allt sem þarf. Það er fínt bíó í Skive Kulturcenter og sundlaug á sama stað.

Verkefni frá nemendum

Starfsnám í húsgagnasmíði

Námssamningur í París

Útskriftarverkefni

Útskriftarverkefni

Ferð til Frankfurt

Um jafnrétti fyrir alla

Útskriftarsýning og Askur

Útskriftarsýning og Askur