fbpx
Menu

Fréttir

08. nóvember 2024

Hvatn­ing­arverðlaun afhent í Tækni­skól­anum

Dagur gegn einelti

Ár hvert er 8. nóv­ember helgaður bar­átt­unni gegn einelti og þá er Dagur gegn einelti haldinn hátíðlegur í skólum landsins.

Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra sam­skipta og efla vináttu.

 

Athöfn í Tækniskólanum

Í tengslum við daginn veitir mennta- og barna­málaráðuneytið í sam­starfi við sam­tökin Heimili og skóla hvatn­ing­arverðlaun til ein­stak­lings eða verk­efnis sem unnið hefur ötul­lega gegn einelti.

Lilja Ósk Magnús­dóttir, verk­efna­stjóri for­varna- og félags­mála í Tækni­skól­anum, var hand­hafi hvatn­ing­arverðlaun­anna í fyrra og því fór athöfnin fram í Tækni­skól­anum í ár. Athöfnin fór fram í Hátíðarsal skólans á Háteigs­vegi og komu nokkrir nem­endur við sögu. Ali Muk­htar Ahmed, nem­andi Tækni­skólans á íslensku­braut, flutti hjart­næmt erindi um upp­lifun sína af dvöl­inni Íslandi og hvernig honum hefur tekist að fóta sig í sam­fé­laginu hér á landi. Auk­in­heldur sagði Ali:

Gott samfélag er samfélag með engu einelti. Verum góð við fólk sem við kynnumst.

Það var svo Nafn­lausa tríóið sem sló loka­taktinn í athöfn­inni, með flutn­ingi á tveimur fal­legum lögum, en tríóið skipa þrír nem­endur úr Tækni­skól­anum. Það eru þau Sigrún Ólafs­dóttir, Stefan Erlendur Ívarsson og Helga Lilja Eyþórs­dóttir.

Hvatn­ing­arverðlaunin 2024 hlaut Freyja Rós Har­alds­dóttir, kennari og jafn­rétt­is­full­trúi við Mennta­skólann á Laug­ar­vatni. Fagráð gegn einelti hjá Mennta­mála­stofnun valdi verðlauna­hafa úr inn­sendum til­nefn­ingum þar sem Freyja Rós varð fyrir valinu. Í til­nefn­ing­unni segir meðal annars:

Freyja Rós hefur staðið fyrir aðgerðum gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi eða svokölluð EKKO mál. Freyja Rós hefur jafnframt haft frumkvæði að því að skipuleggja EKKO málaflokkinn með gæðakerfisskipulagi og þannig lagt grunn að aukinni fagmennsku. Það sem vakti sérstaklega athygli fagráðs er vinnan sem hún hefur unnið á Degi gegn einelti en þá hefur hún haldið utan um metnaðarfulla dagskrá og má þar til dæmis nefna dagskrá sem nefnist slúður er klúður og var tilgangur þeirrar málstofu að styðja við góðan skólaanda sem byggði á trausti og góðum samskiptum þar sem baktal og slúður geta verið særandi og haft slæm áhrif á allt og alla. 

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra og Jóhann Gunn­arson, formaður Heim­ilis og skóla afhentu hvatn­ing­arverðlaunin og að því búnu flutti Freyja Rós stutt ávarp. Þar kom meðal annars fram að fræðsla til nem­enda um EKKO mál­efni sé verk­efni sem aldrei klárast:

Efinn leitar á mann í allri forvarnarvinnu. Er maður að gera rétt, er maður að gera nóg. Við erum aldrei búin að mennta og fræða nemendur, því það koma alltaf nýir nemendur. Forvarnir og fræðsla eru lykilhlutverk í innleiðingu EKKO.

Við óskum Freyju Rós hjart­an­lega til ham­ingju með verðlaunin!