fbpx
Menu

Fréttir

20. desember 2022

Útskrift frá Tækniskólanum

Una TorfaFjölbreyttur hópur glæsilegra nemenda mætti til útskriftar í Eld­borg­arsal Hörpu þriðjudaginn 20. desember.

Alls voru brautskráðir 360 nemendur af 55 námsbrautum frá eftirfarandi skólum/deildum Tækniskólans: Bygg­inga­tækni­skól­anum, Hönnunar- og hand­verks­skól­anum, Raf­tækni­skól­anum, Skip­stjórn­ar­skól­anum, Tækni­mennta­skól­anum, Upp­lýs­inga­tækni­skól­anum, Vél­tækni­skól­anum og Meist­ara­skól­anum.

Nemendur skólans settu svip sinn á athöfnina líkt og áður en Una Torfadóttir, nemandi í fatatækni, hóf athöfnina með tónlistarflutningi. Muslim Salimov flutti svo ræðu fyrir hönd útskriftarnema og sagði meðal annars frá dvöl sinn í Tækniskólanum.


 

Ef þig langar eitthvað nógu mikið, þá getur þú það

Muslim Salimov er 19 ára og kemur frá Kirgistan. Hann kom til Íslands í október 2020 og hóf nám á íslenskubraut í janúar 2021. Samkvæmt Muslim var erfitt að læra íslensku en með þrautseigju komst hann í gegnum þetta, er virkilega þakklátur að hafa klárað námið og á margar góðar minningar úr skólanum.

Muslim Salimov

„Það var mjög erfitt að læra íslensku, sérstaklega málfræði, en mig langaði mikið til að læra íslensku. Ef þig langar eitthvað nógu mikið, þá getur þú það. Ég á margar góðar minningar um Tækniskólann og ein sú besta er líklega að við fórum í mismunandi ferðir um landið, það var mjög gaman og ef ekki væri fyrir Tækniskólann veit ég ekki hvenær ég hefði heimsótt svo marga staði. Í janúar ætla ég að byrja að læra húsasmíði af því að mér finnst gaman að byggja. Mig langar bara að segja takk kærlega allir kennarar fyrir allt sem þið kennduð okkur. Þið kennduð okkur ekki bara íslensku heldur líka um lífið á Íslandi.“

Að lokum óskaði Muslim nemendum góðs gengis á nýjum vettvangi og hvatti þá til að gefast aldrei upp.


 

Komst inn í Berklee College of Music í Boston

Benedikt Gylfason, tvítugur Reykvíkingur, útskrifaðist úr hljóðtækni og hlaut viðurkenningu fyrir frábæran árangur í náminu.

Benedikt GylfasonHann útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð síðustu jól og hóf nám við Tækniskólann í hljóðtækni í janúar á þessu ári. Benedikt er einnig í söngnámi á poppbraut í MÍT og stefnir að burtfararprófi þaðan næsta vor. Benedikt hefur lært á hljóðfæri í mörg ár, sungið frá því hann man eftir sér og semur einnig tónlist. Hann vildi þó auka þekkingu sína á upptökum og eftirvinnslu á tónlist og þess vegna skráði hann sig í hljóðtækninám Tækniskólans.

„Mér fannst virkilega gaman að læra að vinna í hljóðveri, læra hvernig búnaðurinn virkar og að fá tækifæri til að taka upp í vel útbúnum nemendahljóðverum. Í náminu tókst ég á við alls kyns fjölbreytt verkefni eins og að hljóðsetja stuttmynd og hljóðblanda tónleika en skemmtilegast fannst mér þó að taka upp plötu sem lokaverkefni. Ég frétti nú fyrir helgi að ég hefði komist inn fyrir næsta skólaár í Berklee College of Music í Boston. Skólinn er einn af bestu tónlistarháskólum Bandaríkjanna og fæ ég fullan styrk fyrir skólagjöldum, a.m.k. fyrsta árið.“

Í framtíðinni langar Benedikt að vinna við að syngja, semja tónlist og taka upp fyrir sjálfan sig sem og aðra. Hann telur að hljóðtækninámið muni því vafalaust nýtast honum vel í þeirri vinnu sem hann hyggst taka sér fyrir hendur.


 

Heppin að hafa svona góða kennara í kringum mig

Nisreen Asad fékk verðlaun fyrir ástundun og þrautseigju í námi. Nisreen kom til Íslands árið 2015 sem flóttamaður frá Sýrlandi ásamt eiginmanni sínum og tveimur sonum en síðan þá hefur sá þriðji bæst í hópinn. Nisreen byrjaði á íslenskubraut í Tækniskólanum í janúar 2016, lauk svo námi í hársnyrtiiðn vorið 2022 og er nú að útskrifast með stúdentspróf af fagbraut.

Nisreen„Þegar ég var 14 ára fann ég að ég vildi læra hárgreiðslu í framtíðinni. Ég byrjaði í hárgreiðslunámi í mínu heimalandi og þegar ég kom til Íslands hugsaði ég strax að ég þyrfti að læra tungumálið og halda áfram í hárgreiðslu. Ég var heppin að hafa svona góða kennara í kringum mig sem hjálpuðu mér mikið og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir aðstoðina. Námið var rosalega skemmtilegt og fannst mér virkilega gaman að sjá drauminn sem ég átti frá því ég var stelpa rætast.“

Samkvæmt kennurum Nisreen náði hún fljótt góðum tökum á íslensku og var einstakur nemandi, alltaf jákvæð og áhugasöm. Hún var á sama tíma boðin og búin að aðstoða aðra nemendur og túlka fyrir kennara þegar á þurfti að halda.


 

Klúbbakvöldin og LAN-ið í uppáhaldi

Einar DarriEinar Darri Sveinbjörnsson, 19 ára nemandi á tölvubraut, hlaut verðlaun Háskólans í Reykavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum og verðlaun frá Tækniskólanum fyrir góðan árangur á tölvubraut. Einnig hlaut hann félagsmálaverðlaun Tækniskólans en Einar Darri hefur spilað stórt hlutverk í félagslífi skólans síðustu ár. Hann var formaður Eniac, skólafélags nemenda á Háteigsvegi og sat fyrir þeirra hönd í miðstjórn Nemendasambands Tækniskólans. Auk þess sat hann í ýmsum nefndum, s.s. LAN nefnd ásamt því að hafa yfirumsjón með klúbbakvöldum Eniac.

Einar Darri hefur lengi haft áhuga á tölvum og var ánægður með bæði námið á tölvubraut og félagslífið í skólanum.

„Ég hef haft áhuga á tölvum mjög lengi og tók forritunaráfanga í Foldaskóla sem mér fannst mjög skemmtilegur. Ég fór svo á forritunarnámskeið sem Tækniskólinn hélt fyrir grunnskólanema og leist mjög vel á skólann. Ég valdi Tækniskólann af því að hann bauð upp á meira verklegt nám en aðrir skólar og tölvubraut með stúdentsprófi. Námið hentaði mjög vel, var skemmtilegt og áhugavert og mun nýtast mér vel í framtíðinni þar sem ég stefni á forritunarnám í HR. Ég hef verið virkur í félagslífi skólans síðustu tvö ár og þar hef ég kynnst fullt af skemmtilegu fólki. Það sem mér fannst skemmtilegast í félagslífinu voru klúbbakvöldin, LAN-ið og að vera í nemendasambandinu.“

Þess má geta að Einar Darri hóf störf hjá tölvudeild Tækniskólans í desember og verður þar í fullu starfi þar til næsta haust þegar hann hyggst fara í forritunarnám í Háskóla Reykjavíkur.


 

Búfræðingur með frábæran árangur í rennismíði

Matthildur Hjálmarsdóttir, búfræðingur og fyrrum sauðfjárbóndi, hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í rennismíði en hún var með 9,93 í meðaleinkunn. Matthildur útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hólum vorið 1989, vann sem sauðfjárbóndi til fjölda ára en leiðin lá svo í Tækniskólann haustið 2020.

„Ég nánast fæddist sem sauðfjárbóndi með mikla hestabakteríu. Ég ætlaði mér alla tíð að vera sauðfjárbóndi og hafa tamningar og útreiðar með því. Það varð og ég bjó á Þóroddsstöðum í Hrútafirði frá haustinu 1989 til vorsins 2017. Þá skildi ég við manninn minn og þar með starfið mitt. Ég flutti í framhaldinu til Hvammstanga og byrjaði að hugsa líf mitt upp á nýtt. Ég hef alltaf haft gaman af og gert töluvert af því að smíða en þó mest úr timbri. Aðeins gert við og smíðað úr járni en aldrei snert á rennibekk fyrr en ég kom í Tækniskólann. Ég vildi finna mér eitthvað að gera sem ég hefði gaman af, væri ekki of líkamlega erfitt og gæfi mér möguleika á að vera sjálfstæður atvinnurekandi áfram. Hugurinn leitaði í stálsmíði en kunningi minn benti mér á að rennismíði gæti verið áhugaverð fyrir mig svo ég ákvað að slá til og sótti um á rennismíðabraut Tækniskólans.“

Matthildi líkaði vel í náminu, sagði það fjölbreytt og skemmtilegt, en þó krefjandi. Hún er ekki enn farin að leita sér að vinnu í faginu en stefnir á að komast á námssamning í vor eða sumar og klára í framhaldinu sveinsprófið.


 

Feðgin útskrifast úr rafvirkjun

Feðginin Katla Sigurást Pálsdóttir og Páll Bragason útskrifuðust bæði með burtfararpróf úr rafvirkjun.

Fyrir er Páll rafeindavirki en hann útskrifaðist úr Iðnskólanum á Skólavörðuholti vorið 1992. Síðan þá hefur hann unnið sem rafeindavirki á hljóðverkstæði RÚV, hjá Flögu sem síðar varð Medcare og loks á Reykjavíkurflugvelli á radíóverkstæði Flugfélags Íslands sem síðar varð Icelandair.

Páll og Katla Sigurást„Eftir að ég fór að vinna á Reykjavíkurflugvelli fór mig að langa að vita meira um rafmótora og þriggja fasa rafmagn og skráði mig því í dreifnám í rafvirkjun á haustönn 2018, síðan dró forvitnin mig áfram og það endaði með því að ég kláraði loks námið níu önnum síðar. Það hefur verið gaman að kynnast aftur gamla skólanum þegar maður er komin með meiri innsýn eftir tæplega þrjátíu ár í rafmagninu. Ég hef kynnst fullt af góðu fólki bæði nemendum og kennurum og fyrir það er ég þakklátur.“

Katla Sigurást útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 2019 og ákvað að því búnu að feta í fótspor föður síns og skrá sig í Raftækniskólann.

„Þegar ég var yngri kom pabbi stundum heim með tilbúnar prentplötur til lóðunar, t.d. jólaskraut og sýndi mér hvernig þetta væri gert. Fyrir stúdentsveisluna mína var ákveðið að taka íbúðina í gegn og ég hafði mjög gaman af því að fylgjast með framkvæmdunum og fá að taka þátt í þeim. Þar sem pabbi er rafeindavirki og var sjálfur í rafvirkjanum ákvað ég bara að skella mér í þetta, það þurfti einhver að feta í fótspor hans þar sem systur mínar eltu báðar mömmu í heilbrigðisgeirann.“

Á nýju ári mun Katla Sigurást hefja störf hjá Raffi ehf. og stefnir svo á sveinsprófið þegar hún telur sig tilbúna.


 

Iðnmeistarar mikilvægur hlekkur í menntun iðnnema

Líkt venja er fyrir flutti skólameistari Tækniskólans, Hildur Ingvars­dóttir, hátíðarræðu í tilefni útskriftarinnar. Hún byrjaði á því að óska nem­endum, aðstand­endum og starfs­fólki hjartanlega til ham­ingju með daginn og sagðist stolt að tilheyra því samfélagi sem Tækniskólinn er.

„Ég fyllist ávallt miklu stolti þegar ég horfi yfir salinn á útskriftardegi. Ég er svo stolt að tilheyra því samfélagi sem þessi skóli er – samfélagi fjölbreytileikans. Skóla sem gegnir svo mikilvægu hlutverki á Íslandi.“

Fjölbreytileiki einkennir vissulega skólastarfið og í ræðu sinni fjallaði Hildur einmitt um þann fjölbreytta nemendahóp sem stundar nám í Tækniskólanum. Meðal annarra málefna í ávarpi skólameistara voru tilnefningar Tækniskólans til Íslensku menntaverðlaunanna, þrautseigja nemenda á tímum Covid, ný gildi Tækniskólans, þeir fjölbreyttu hæfileikar sem nemendur búa yfir og það mikilvæga hlutverk sem iðnmeistarar gegna í menntun nema.

„Síðustu nemendurnir sem við útskrifuðum rétt í þessu eru okkar nýju iðnmeistarar sem eru mikilvægur hlekkur í menntun iðnnema, svokölluðu vinnustaðanámi. Aðsókn í iðnmeistaranámið hefur verið mikil undanfarin ár og er það fagnaðarefni. Einhverjir þessara meistara eru svo líklegir til að rata inn til okkar í kennslu meðan aðrir leiðbeina á vinnustað – og þannig rúllar hjólið áfram. Hið mikilvæga hjól menntunar; að nema – að læra – að miðla og kenna.“

Að lokum þakkaði hún kenn­urum og öðru starfs­fólki skólans fyrir frábær störf. Nem­endum óskaði hún alls hins besta, hvatti þá til að leggja alúð í verk sín, sýna umburðarlyndi og bera virðingu fyrir samferðafólki sínu.

 

Útskriftarathöfnin var sérlega vel heppnuð og óskum við nemendum öllum hjartanlega til hamingju með áfangann!

 


 

Ljósmyndir: Hafsteinn Snær Þorsteinsson, ljósmyndari og nemandi í grafískri miðlun

Hægt verður að skoða allar ljósmyndir frá athöfninni á næstu dögum