fbpx
Menu

Fréttir

26. maí 2023

Útskrift Tækniskólans

Tækifæri og fjölbreytileiki í Tækniskólanum

Það var hátíðleg stemning í Eldborgarsal Hörpu þegar nemendur Tækniskólans mættu til útskriftar föstudaginn 26. maí. Alls voru brautskráðir 507 nemendur af 65 námsbrautum skólans og er þetta því fjölmennasta útskrift skólans frá upphafi.

Hljómsveitin Marsipan, sem komst áfram í úrslit Músíktilrauna 2023, hóf athöfnina með tónlistarflutningi. Hljómsveitin var stofnuð fyrr á þessu ári en nafnið Marsipan á rætur sínar að rekja til Mars, leikfélags Tækniskólans, þar sem hljómsveitarmeðlimir voru fengnir til að semja lög fyrir uppsetningu á ævintýrinu um Lísu í Undralandi.

Fleiri nemendur skólans settu svip sinn á athöfnina en þau Helga Guðrún Guðmundsdóttir og Hörður Breki Björgvinsson fluttu ræðu fyrir hönd útskriftarnema. Þá báru bæði Hildur Ingvarsdóttir skólameistari og Guðrún Randalín aðstoðarskólameistari skartgripi eftir nemendur í gull- og silfursmíði.

 

Í fótspor mömmu

Helga Guðrún Guðmundsdóttir, 29 ára móðir úr Kópavogi, flutti ræðu fyrir hönd nemenda. Hún útskrifaðist úr hársnyrtiiðn og hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum. Móðir Helgu er hársnyrtir en upphaflega hugðist Helga Guðrún þó ekki feta í hennar fótspor.

Ég var handviss um að verða ekki eins og mamma, mér fannst hún vinna alltof mikið. Þegar ég varð eldri sá ég hlutina frá nýju sjónarhorni, hún var einstæð þriggja barna móðir sem þurfti heldur betur að hafa fyrir hlutunum. Hún er mín fyrirmynd í lífinu. Ég er búin að prófa ýmislegt. Ég fór í viðskiptafræði, kláraði Ferðamálaskólann í Kópavogi og skráði mig síðan í flugfreyjuna, en sá draumur fór í ruslið þegar WOW fór á hausinn.

Það varð því loks úr að Helga Guðrún skráði sig í nám í hársnyrtiiðn og fann strax að nú væri hún á réttri hillu. Það sem heillaði hana hvað mest við hársnyrtideildina er stemmningin, að vinna í opnu rými  og metnaðarfullir samnemendur hennar. Við óskum Helgu til hamingju með árangurinn, nýju hársnyrtistofuna Hár23 og fyrir að hafa fundið sína leið.

 

Leikari, söngvari, forritari og tölvuleikjahönnuður

Bjartur Sigurjónsson, 19 ára nemandi á tölvubraut, fékk viðurkenningu frá Tækniskólanum fyrir framúrskarandi árangur á tölvubraut, framúrskarandi árangur á stúdentsprófi og félagsmálaverðlaun Tækniskólans.

Ég er fæddur og uppalinn í Grafarvogi. Á unglingsárunum mínum byrjaði ég að fikra mig áfram í tölvuleikjagerð og kláraði minn fyrsta tölvuleik 14 ára gamall. Síðan hefur stefnan alltaf verið á tölvunarfræði en undanfarið hef ég verið að hallast meira að rafeindafræði.

Bjartur hefur spilað stórt hlutverk í félagslífinu síðustu ár þar á meðal sem formaður leikfélagsins Mars sem setti upp sýninguna Lísu í Undralandi í byrjun maí og er hann hluti af hljómsveitinni Marsipan sem hóf útskriftarathöfn Tækniskólans. Bjartur stóð einnig uppi sem sigurvegari Átótjúnsins söngkeppni Tækniskólans, og keppti fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna með lagið Never blue. Þar að auki hlaut hann Íslandsmeistaratitilinn í forritun á Íslandsmóti iðn- og verkgreina 2023.

 

Fann ástríðu fyrir sjómennsku

Thelma Þorbjörg Sigurðardóttir, Reykvíkingur og nemandi í skipstjórn, hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í skipstjórnargreinum og í fagensku. Thelma Þorbjörg er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, með lögmannsréttindi og starfar hjá Skattinum. Í heimsfaraldrinum tók hún óvænta ákvörðun um að fara í Skipstjórnarskólann.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara út í, enda aldrei verið á sjó, en ég kolféll hins vegar fyrir fræðunum. Þar sem Covid var ekkert á leiðinni neitt ákvað ég að skrá mig í Skipstjórnarskólann um haustið og tók nokkur fög þá önnina. Þegar þarna var komið við sögu var hreinlega ekki aftur snúið. Ég hafði uppgötvað ástríðu fyrir sjómennsku.

Thelma Þorbjörg ber kennurum og stjórn skólans góða sögu. Hún verður kennurum sínum ævinlega þakklát, þeirra vegna hafði hún einstaklega gaman af náminu enda búa kennararnir yfir gríðarlegri reynslu og þekkingu á sínu sviði. Thelma hefur mikinn áhuga á flutningaskipum og gælir við þá hugmynd að fara á sjóinn í framtíðinni og spyr sig: „kannski enda ég einn daginn í brúnni hjá Eimskip, hver veit?“

 

Frelsi til að læra

Þorsteinn Hilmir Erlendsson og Sindri Helgason voru að útskrifast með stúdentspróf af K2 – tækni- og vísindaleið.

Þorsteinn kemur úr Kópavogi og hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði. Hann valdi námsleiðina þar sem hann hefur áhuga á tækni og stefnir á hugbúnaðarverkfræði í HÍ.

Það sem stóð upp úr í náminu á K2 var meiri fókus á verkefni í stað lokaprófs. Ég var líka ánægður með kennarana mína og bekkjakerfið því það auðveldaði mér að kynnast fólki og eignast vini.

Sindri hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á K2 og í dönsku. Sindri er Hafnfirðingur og gekk áður í Setbergsskóla. Í framhaldsskóla langaði hann að prófa nýjar leiðir í námi og skoðaði valkosti sem bjóða annað en hefðbundið bóknám.

Þessi nýja braut K2, með fókus á verklegt og frjálst nám, vakti strax áhuga minn. Ég segi oft þegar ég er spurður um brautina, að hún er frábær fyrir þau sem hafa áhuga á öllu mögulegu, en vita ekki alveg hvað þau vilja gera. Ég t.d. uppgötvaði að ég hef áhuga á tölvuleikjahönnun en hún er ekki einu sinni kennd á K2. Það var frábær upplifun að fá frelsi við úrlausn verkefna og þannig tækifæri til að búa til tölvuleiki með vinum mínum. Frelsi til að læra nýja hluti. Og ekki bara nýja hluti heldur nýjar aðferðir líka. Á þessari braut lærir maður mikilvægi sjálfstæðra vinnubragða og samvinnu sem er einmitt hæfni sem maður þarf í háskóla eða á vinnumarkaði.

Sindri ætlar í tölvunarfræði í Háskóla Íslands í haust og með færnina sem hann öðlaðist í náminu á K2 er hann viss um að honum gangi vel í háskólanáminu.

 

Þakklát fyrir tækifærin og stefnir á hjúkrunarfræði

Faisa Adam Yusuf kemur frá Sómalíu og fór í Tækniskólann til þess að læra íslensku. Hún útskrifaðist af íslenskubraut í Tæknimenntaskólans og fékk viðurkenningu fyrir dugnað og þrautseigju í námi.

Ég er ung móðir með lítið barn, við eigum enga ættingja hér á landinu en ég er dugleg að minna mig á að framtíð mín verður betri hér. Ég er líka mjög þakklát manninum mínum sem hefur stutt mig allan þann tíma sem ég var í námi.

Samhliða náminu eignaðist Faisa marga vini og kynntist yndislegum kennurum sem kenndu henni meðal annars um sögu og menningu Íslands. Faisa Adam Yusuf er virkilega þakklát fyrir þau tækifæri sem skólinn veitti henni og í framtíðinni stefnir hún á að verða hjúkrunarfræðingur og efla menntun sína enn frekar.

Það sem stóð upp úr hjá mér er að hafa lært mikið um Ísland. Þannig áttaði ég mig á að mér finnst gaman að læra um sögu. Ég fann fyrir miklum stuðningi og skilningi frá kennurum mínum og fyrir það er ég mjög þakklát. Skólinn tók svo vel á móti mér og ég fann að ég var örugg í skólanum. Tækniskólinn er að mínu mati framúrskarandi.

 

Íslandsmeistari í húsasmíði

Hinn 18 ára Van Huy Nguyen útskrifaðist úr húsgagnasmíði og fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum í húsgagnasmíði.

Van er frá Víetnam en flutti til Íslands ásamt fjölskyldu sinni árið 2014. Hann gekk í Álftamýrarskóla og þegar hann var í 10. bekk fór hann í heimsókn með skólanum á Íslandsmót iðn- og verkgreina sem haldið var í Laugardalshöll vorið 2019. Þegar hann sá Núma Kárason keppa fyrir hönd Tækniskólans í húsasmíði heillaðist Van  af byggingagreinum.

Þarna upplifði ég að ég vildi verða smiður í framtíðinni og ákvað að fara í nám í húsgagnasmíði í Byggingatækniskólanum. Ég fann mig mjög vel í náminu, líkaði vel við staðinn, kynntist nemendum og var með góða kennara. Í mars á þessu ári keppti ég svo sjálfur á Íslandsmótinu fyrir hönd Tækniskólans, endaði í 1. sæti og tek þátt í Euroskills keppninni sem haldin verður í Póllandi í haust. Það var frábært að fá að taka þátt í svona keppni og góður undirbúningur fyrir sveinsprófið. Þetta er líka einstakt tækifæri til að upplifa og fræðast um fjölbreyttar iðn- og verkgreinar.

Það er margt á dagskrá hjá Van en hann ætlar sér einnig að klára nám í húsasmíði, taka síðan sveinspróf og stúdentspróf. Að því búnu er stefnan sett á byggingariðnfræði í Háskólanum í Reykjavík og jafnvel bæta við byggingafræði eftir það.

 

Listrænir hæfileikar og sköpunargáfa

Í ræðu sinni kom Hildur skólameistari víða við og fjallaði m.a. um glæsilegan árangur nemenda í hinum ýmsu keppnum og viðburðum. Þá sagði hún frá samstarfsverkefni nemenda í gull-og silfursmíði við Listasafn Íslands.

Í dag berum við Guðrún Randalín aðstoðarskólameistari skartgripi sem nemendur í gull- og silfursmíði hönnuðu og smíðuðu en þeir voru hluti af samstarfsverkefni gull- og silfursmíðabrautar við Listasafn Íslands á HönnunarMars. Verkefnið fólst í því að nemendur völdu sér listaverk í Safnahúsinu við Hverfisgötu og hönnuðu svo og smíðuðu skartgripi sem sýna ekki bara afburða handverk, heldur varpa þeir ljósi á listræna hæfileika og sköpunargáfu nemenda.

Hildur bar verk Elvars Snæs Jónssonar sem smíðaði armband og hring með sjómannahöttum en hönnunin varð til undir áhrifum frá myndinni „Morgunn á miðinu“ og jafnframt nælu eftir útskriftarnemann Guðrúnu Auði Kristinsdóttur sem sótti innblástur í origami fugla. Guðrún Randalín aðstoðarskólameistari bar svo armband eftir Írisi Eik Jónasdóttur sem sótti innblástur sinn í verkið ,,Í geimnum“ eftir Björgu Þorsteinsdóttur.

Í ræðu sinni kom Hildur einnig inn á gildi Tækniskólans – alúð, framsækni og fjölbreytileika. Hún hvatti nemendur til að sýna alúð í verki, vera framsækin í lífinu og fagna fjölbreytileikanum. Þá fjallaði hún um félagslífið og minnist á það gróskumikla starf sem nemendur skólans halda úti, þ.á.m. öflugu klúbbastarfi og leikfélaginu.

Þá var einkar ánægjulegt að sjá uppsetningu leikfélagsins Mars á Lísu í Undralandi en við höfum einmitt séð myndir úr því hér fyrir aftan og hlýddum fyrr í dag á hljómsveit félagsins Marsipan. Rafíþróttaliðið okkar stóð sig með sóma en gaf þó framhaldsskólameistaratitilinn eftir þetta árið eftir að hafa haldið á honum eftir fyrstu tvo framhaldsskólaleikana. Þá langar mig að minnast sérstaklega á hæfileikakeppni starfsbrauta framhaldsskólanna sem haldin var í hátíðarsal Tækniskólans á Háteigsvegi en hann Hörður Breki sem flutti ræðu áðan var einmitt kynnir þar og stóð sig með eindæmum vel líkt og þátttakendur skólans í keppninni.

Að lokum þakkaði Hildur kenn­urum og öðru starfs­fólki skólans fyrir frábær störf. Nem­endum óskaði hún alls hins besta og hvatti þá til að gleðjast yfir árangri sínum.

 

Framtíðin er okkar

Í lokin er við hæfi að vitna í útskriftarræðu Harðar Breka sem útskrifaðist af starfsbraut Tækniskólans. Hörður óskaði samnemendum sínum til hamingju með mikilvægan áfanga og hvatti samnemendur sína til að líta björtum augum til framtíðar.

Munið að fylgja alltaf hjarta ykkar, kjarnanum ykkar. Hugmyndir okkar eru einstakar og geta breytt heiminum. Skólinn hefur haft trú á okkur, kennarar hafa haft trú á okkur og nú er komið að okkur að hafa trú á okkur sjálfum. Framtíðin er okkar. 

 

Við óskum nemendum öllum hjartanlega til hamingju með áfangann!

 


 

Ljósmyndir tóku Haraldur Guðjónsson Thors og Maximus Jimmy.

Nemendur geta nú nálgast útskriftarmyndir sínar á flickr síðu Tækniskólans.

Til þess að hlaða myndum niður er nauðsynlegt að opna albúmið í tölvu.