Hluti af náminu á Spáni
Berglind Ósk komst á samning í hársnyrtingu hjá Kimbe hárstofu í Alicante á Spáni í gegnum Erasmus+ styrk. Þar er hún að vinna og tekur þátt í daglegu starfi á stofunni. Hún lærir nýja tækni og eflir þekkingu sína í faglegum aðferðum við að klippa og lita bæði karla og konur.
Fæ að gera mikið og læri svaka mikið
Berglind fór út í júní 2021 og verður úti á Spáni fram í desember. Hún sendi okkur myndir sem sjá má hér á síðunni og er mjög ánægð með dvölina. „Héðan er allt gott að frétta, gengur ofsalega vel. Mér er tekið vel á stofunni. Fæ að gera mikið og læri svaka mikið af því.“
Alþjóðasamstarf Tækniskólans
Erasmus+ veitir nemendum í starfsmenntaskólum og nemum á samningi tækifæri til að fara í náms- og þjálfunarferðir og starfsnám hjá fyrirtækjum, skólum, og stofnunum í Evrópu í 2 vikur til 12 mánuði. Námið/þjálfunin verður hluti af námi viðkomandi nemanda og metið sem slíkt að dvöl lokinni. Hér eru upplýsingar um alþjóðasamstarf og Erasmus+ styrk hjá Tækniskólanum.