fbpx
Menu

Fréttir

19. desember 2019

Útskrift Tækni­skólans

Útskrift Tækniskólans

Brautskráning í Hörpu

Fjöl­breyttur hópur glæsi­legra nem­enda Tækni­skólans mætti til útskriftar í Hörpu miðviku­daginn 18. des­ember.  Alls braut­skráðust frá skól­anum 275 nem­endur af 49 brautum og var yngsti nem­andinn 17 ára en sá elsti 61 árs. Braut­skráð var frá eft­ir­far­andi skólum/​deildum Tækni­skólans: Bygg­inga­tækni­skól­anum, Hand­verks­skól­anum, Raf­tækni­skól­anum, Skip­stjórn­ar­skól­anum, Tækni­mennta­skól­anum, Upp­lýs­inga­tækni­skól­anum, Vél­tækni­skól­anum og Tækniaka­demí­unni (þ.m.t. Meist­ara­skól­anum).

Fagfólk í fárviðri

Hildur Ingvars­dóttir skóla­meistari fjallaði m.a. um óveðrið sem skók lands­menn í síðustu viku. „Sem dæmi – eru tveir nýút­skrifaðir iðnmeist­arar sem hugðust taka við skír­teinum sínum í dag staddir norður í landi.  Þeir afboðuðu komu sína vegna þeirrar mik­il­vægu vinnu sem nú á sér stað við að koma kerf­unum í lag.   Þeir eru í hópi fjölda fag­menntaðra sem hefur unnið sleitu­laust und­an­farna daga og mun vinna áfram við þá upp­bygg­ingu sem nauðsynleg er í kjölfar þessara veðurham­fara“. Hún rakti hvernig skip­stjórar og vél­stjórar sigldu í gegnum öldurót til Dal­víkur til þessa að koma á raf­magni þar í sam­vinnu við rafiðnaðarmenn og vélfræðinga hjá orku- og veitu­fyr­ir­tækjum.  Samhliða ynnu raf­virkjar og raf­veitu­virkjar hörðum höndum að því að koma loftlínum í lag, hreinsa línur og tengi­virki o.fl.. Raf­einda­virkjar og hinir ýmsu tækni­menn ynnu að því að koma fjar­skipta­málum í lag og fag­fólk úr bygg­inga­greinum kæmi jafn­framt að viðgerðum og upp­bygg­ingu.  Þannig gegni vel menntað fag­fólk lyk­il­hlut­verki í þeirri miklu vinnu sem fram undan er.

Loftlagsmál

Gunn­hildur Fríða Hall­gríms­dóttir fékk það verk­efni að flytja nem­endaræðu við útskrift skólans. ,,Ég ætla að vinna við að leysa lofts­lagsmál og þú mátt stela því svari ef þér líst á að vinna að því verk­efni með mér. Lofts­lags­breyt­ingar eru stærsta ógn mann­kynsins á þessari öld, og við munum ekki geta bjargað þeim nema að hver og einn, í sínu fagi, sínu starfi, geri sitt. Það er eitt sem þessi skóli hefur kennt mér, þetta er þverfag­legt vandamál.” Það skyldi engan undra að Gunn­hildur fjalli um loft­lagsmál en hún hefur verið mjög iðin við að vekja athygli á þeirri vá sem stafar af lofts­lags­breyt­ingum. Þess ber einnig að geta að Gunn­hildur er að klára nám við stúd­ents­brautina K2 á fimm önnum – í stað sex anna. Hún var m.a. formaður SÍF um tíma sem og formaður Nem­enda­sam­bands Tækni­skólans, hefur setið í Ung­mennaráði Heims­markmiða Sam­einuðu þjóðanna og verið í for­svari fyrir hópi ung­menna sem mót­mælt hafa aðgerðarleysi stjórn­valda í lofts­lags­málum.  Þá hefur hún látið mikið að sér kveða í nýsköp­un­ar­verk­efnum.

Rafeindavirki dúx skólans – stefnir á kennaranám

Auður Þórunn Rögn­valds­dóttir er dúx Tækni­skólans af raf­einda­virkja­braut. Áður en Auður lauk námi í raf­einda­virkjun hafði hún klárað hug­búnaðarverkfræði frá DTU í Dan­mörku og stúd­ents­próf frá MR. „Mig langaði bara alltaf að hafa þessa færni í hönd­unum – að kunna að smíða raf­eind­ar­ásir – ekki bara teikna þær“. Loka­verk­efnið hjá Auði var Stereo magnari og fjar­stýring fyrir magnarann – stofustáss sem Auður vildi smíða og nota heima hjá sér. Það er gaman frá því að segja að Auður hefur áhuga á því að kenna raf­einda­virkjun og stefnir hún á nám í kennslufræði.

Semidúx af tölvubraut

„Næsta mál á dag­skrá er tölv­un­arfræði í HR“ segir Matthías Ólafur Matth­íasson sem­idúx Tækni­skólans. Matthías braut­skráðist af tölvu­braut með framúrsk­ar­andi árangur en hann kláraði grunn­skólanám í Háa­leit­is­skóla og stefndi alltaf á nám sem tengist for­ritun. Upp­á­halds for­rit­un­ar­málið hans er JavaScript.

Konur í flugvirkjun

Diljá Kristjáns­dóttir og Erla Björg Valþórs­dóttir luku námi í flug­virkjun með framúrsk­ar­andi árangri og hlutu verðlaun fyrir. Þetta er í fyrsta skipti sem tvær konur braut­skrást sem flug­virkjar frá Tækni­skól­anum en aðeins örfáar konur starfa við greinina á Íslandi.  Þá stunda nú tvær konur nám í flug­virkjun við Tækni­skólann og má merkja aukinn áhuga kvenna á grein­inni.

Ljósmyndir

Ljós­mynd­arinn og kennari við Tækni­skólann Har­aldur Guðjónsson Thors tók myndir við útskrift­ar­at­höfnina.

Hægt er að panta myndir: Hafið sam­band við Harald Guðjónsson Thors í net­fangið: hgt@tskoli.is