Upplýsingar vegna breyttra kennsluhátta – mikilvægt
Upplýsingar til nemenda og forráðamanna vegna breyttra kennsluhátta – mikilvægt
Kæru nemendur og forráðamenn
Nú vinna kennarar og aðrir starfsmenn skólans hörðum höndum að því að undirbúa kennslu næstu vikna. En þið þurfið líka að undirbúa ykkur fyrir rafræna kennslustofu sem verður í gegnum Microsoft teams. Þetta er það sem þið þurfið að gera:
- Rifja upp tækniskólanetfangið ykkar og aðgangsorð (sama notendanafn og þið notið til að skrá ykkur inn á tölvur skólans). Ef þið eruð ekki með það á hreinu þá getið þið farið hér inn til þess að búa til nýtt lykilorð. Þar setjið þið inn persónulega netfangið ykkar sem þið notið í Innu og ýtið svo á ,,request link“. Þá munuð þið fá póst með notendanafni og nýja lykilorðinu ykkar. Þið þurfið að bregðast við póstinum innan 15 mínútna – annars þurfið þið að gera þetta aftur. Athugið þó að það getur tekið um 2 klukkutíma fyrir nýtt lykilorð að virkjast og því gætuð þið þurft að bíða þann tíma þar til þið getið tekið skref 2.
- Setja upp Microsoft teams í tölvunni ykkar og/eða snjalltæki. Hér er að finna leiðbeiningar um hvernig á að setja upp Microsoft teams og í reynd ýmislegt annað. Ef þið lendið í vandræðum sendið þá tölvupóst á tolvuthjonusta@tskoli.is eða nýtið spjallið hér á vefnum okkar.
- Yfirfara upplýsingar um ykkur á Innu. Sumir eru með gömul símanúmer og netföng þar inni og nú er brýnna en nokkurn tíma að allar upplýsingar þar séu réttar.
Verkefni og próf í Innu
Athugið að verkefnafyrirlögn, próf og fleira verða áfram í gegnum Innu. Við tökum bara í notkun Microsoft teams í staðinn fyrir kennslustofuna sem þið eruð vön að mæta í. Þið mætið því inn á Microsoft teams á þeim tíma sem þið eigið að vera í viðkomandi fagi skv. stundatöflu. Í sumum tilvikum verða þó ekki fyrirlestrar/hefðbundnir tímar skv. stundatöflu en kennara munu þá láta ykkur vita um fyrirkomulagið.
Mætingaskylda
Töluvert hefur verið spurt um mætingaskyldu. Við gerum ráð fyrir því að þið mætið vel í rafræna tíma líkt og þið gerið í hefðbundna tíma en fjarvistir munu ekki hafa áhrif á mætingareinkunn þessar þrjár vikur. Eftirfarandi kerfi verður notað til að halda utanum mætingu í Innu:
- M = nemandi mætti í rafrænan tíma
- D = nemandi mætti ekki í rafrænan tíma
- X = rafrænn tími var ekki haldinn
Þannig getið þið nemendur og forráðamenn fylgst með mætingu þótt fjarvera komi ekki niður á mætingareinkunn þessar þrjár vikur (góð mæting getur hins vegar verið til hækkunar á mætingareinkunn). Við treystum því að sjálfsögðu að nemendur hafi áfram metnað til að mæta í tíma. Það er mikilvægt að halda rútínu meðan þetta ástand varir og sinna náminu vel. Þótt ekki verði kennt yfir netið í öllum fögum (eða mögulega ekki jafnmarga tíma og venjulega) munu kennarar vera til staðar á Microsoft teams á sama tíma og áfanginn er í stundatöflu og nemendur geta þá haft beint samband við kennara á þeim tíma.
Breytt fyrirkomulag og aðgangur forráðamanna í Innu
Það er viðbúið að við munum glíma við einhverja byrjunarörðugleika í breyttu fyrirkomulagi næstu daga. Við biðjum ykkur því um að sýna þolinmæði en um leið að hika ekki við að biðja um aðstoð ef þið þurfið. Þetta eru skrýtnir tímar sem við munum eflaust öll læra mikið á. Nú reynir á sjálfstæði í vinnubrögðum, ábyrgð, umburðarlyndi og hjálpsemi.
Loks hvet ég ykkur sem eruð orðin 18 ára og búið í foreldrahúsum til að veita foreldrum/forráðamönnum ykkar aðgang að Innunni svo að þeir geti fylgst með því sem er að gerast hjá ykkur í skólanum og stutt ykkur sem best. Hér eru leiðbeiningar um hvernig það er gert.
Gangi ykkur sem allra best! Kv. Hildur skólameistari