Kafli 18 – Skólanámskrá
Grunnhugsunin á bak við gæðakerfi er að unnið sé að stöðugum umbótum á allri starfsemi skólans. Einnig gera alþjóðasamþykktir frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (International Maritime Organisation – IMO), sem Ísland og þar með skólinn er aðili að, og lög frá Alþingi, sömu kröfur. Rökrétt er því að Tækniskólinn vinni eftir slíku kerfi. Gæðakerfið er tekið út á þriggja ára fresti með vottunarúttekt og þess á milli fer fram árleg viðhaldsúttekt.
Gæðastjórnun tekur til allrar starfsemi skólans, tryggir þekkingu starfsmanna á innri ferlum skólans, stuðlar að sífelldum umbótum á allri starfsemi hans og að unnið sé eftir ferlum gæðakerfisins. Lilja Guðný Jóhannesdóttir er gæðastjóri Tækniskólans. Gæðastjóri hefur umsjón með og vinnur að gæðamálum skólans auk gæðaráðs, sem skipað er fulltrúum stjórnenda, starfsmanna og kennara. Gæðaráð heldur fasta mánaðarlega fundi samkvæmt boðaðri dagskrá, en getur kallað til fundar hvenær sem tilefni er til eða þurfa þykir.
Í starfsemi Tækniskólans er kerfisbundin skjalastjórn í samræmi við lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og reglur Þjóðskjalasafns. Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir er skjalastjóri Tækniskólans.
Skólameistari í samvinnu við aðra stjórnendur skólans ber ábyrgð á og hefur frumkvæði í vinnunni með rýni stjórnenda, að unnið sé að stöðugum umbótum á allri starfsemi skólans og að unnið sé eftir ferlum gæðahandbókar. Þar sem rekstrarráð fer yfir fundargerðir gæðaráðs skólans þá tvinnast gæðamál og önnur dagleg rekstrarmál skólans saman.
Rýni stjórnenda er sérstakur rekstrarráðsfundur sem er boðaður í lok hvers skólaárs. Til að undirbúa rýni stjórnenda tekur gæðastjóri saman skýrslu með samantekt og greiningu á öllum frábrigðum, ábendingum/kvörtunum, úrbótum og forvörnum sem fram hafa komið eða gerðar hafa verið á önninni. Einnig er farið yfir gæðastefnu og markmið og metin þörf á umbótum. Nauðsynlegar aðgerðir og verkefni eru ákveðin og sett á verkefnalista einstakra stjórnenda.
Tvisvar á önn er framkvæmt kennslumat meðal nemenda í skólanum þar sem nemendur svara spurningum um áfanga og kennslu. Unnið er með úrtak og þvi gefst nemendum kostur á að svara spurningum um hluta þeirra áfanga sem þeir sátu. Samhliða kynningu á kennslumati til nemenda er ábendingakerfi skólans kynnt fyrir þeim en þar er hægt að koma á framfæri ábendingum, kvörtunum og hrósi á öllum tímum.
Uppfært 9. desember 2024
Áfangastjórn