fbpx
Menu

Fréttir

03. nóvember 2022

Minning

Í dag kveðjum við ynd­is­lega konu og frá­bæran vinnu­fé­laga, Ragnheiði Bjarna­dóttur, fyrr­ver­andi kennara og skóla­stjóra.

Ragnheiður hóf störf sem kennari við Iðnskólann í Reykjavík, for­vera Tækni­skólans, vorið 2006. Eftir að hafa gegnt stöðu kennara og braut­ar­stjóra hársnyrti­brautar var hún, við stofnun Tækni­skólans, ráðin skóla­stjóri Hársnyrtiskóla og síðar Hand­verks­skóla Tækni­skólans.

Ragnheiður hafði öðlast fjöl­breyttari starfs- og lífs­reynslu en margir ná á ævi sinni þegar hún réð sig til starfa í Iðnskól­anum í Reykjavík á fer­tug­asta ald­ursári. Auk þess að vera hársnyrti­meistari, förðunarfræðingur og hafa rekið eigin hársnyrti­stofu hafði hún verið bóndi, rekið útgerð og síðar harðfisks­verkun í ára­fjöld. Þá hafði hún unnið sjálf­stætt í verk­efnum tengdum hári og förðun fyrir aug­lýs­ingar, tískuþætti og tímarit. Hún mætti því til starfa, ekki ein­göngu með þekk­ingu á hársnyrtigreinum og kennslu, heldur með heilan fjársjóð þekk­ingar og reynslu sem hún skilaði svo sann­ar­lega inn í skóla­starfið.

Ragnheiður var mörgum kostum gædd. Hún var kraft­mikil og dugleg, skarp­greind, hug­myndarík og mikill fagmaður. Hún var skap­andi og vel máli farin og hafði ein­staka frá­sagn­ar­gáfu. Hún var einlæg og ein­beitt og vildi öllum vel. Segja má að jákvæðni hafi verið hennar ein­kenni. Allt var unnið með jákvæðnina að vopni … í reynd með sólina að vopni, enda vísaði Ragnheiður oft til kvæðisins um sól í hjarta, sól í sinni, sól í sálu minni. Og þannig var hún sann­ar­lega; með sól í hjarta, með sól í sinni og með sól í sálu sinni.

Ragnheiður hafði mikinn metnað fyrir hársnyrtifaginu og vann ötul­lega að því að betr­um­bæta og nútímavæða námið. Hún var frumkvöðull á Íslandi í vist­vænni hársnyrt­ingu og kom m.a. af stað sam­vinnu­verk­efni í því fagi með Finn­landi og Noregi fljót­lega eftir að hún tók við sem skóla­stjóri. Þá báru og bera glæsi­legar sýn­ingar útskrift­ar­nema í hársnyrtiiðn metnaði hennar og annarra starfs­manna hársnyrti­brautar gott vitni.

Ragnheiður var lífsglöð, félags­lynd, glaðvær og jafnan hrókur alls fagnaðar. Hún lífgaði upp á allar sam­komur sem hún tók þátt í og kom hag­mælgi hennar sér þá vel, enda fengum við að njóta ófárra limra sem hún virtist yrkja með lítill fyr­ir­höfn en flutti svo af glæsi­leika, enda geislaði hún af fegurð og gleði.

Ragnheiður var mikill nátt­úru­unn­andi og í reynd sann­kallað nátt­úru­barn. Því fékk sam­starfs­fólk hennar vel að kynnast í gönguferðum „Labbakúta“ Tækni­skólans. Í nátt­úr­unni undi hún sér sér­lega vel og þegar áð var við læk eða vatn átti hún það til að stinga sér til sunds, löngu áður en köld böð og sjó­sund náðu núver­andi vin­sældum. Hún naut jafn­framt lesturs, söngs, tón­listar og hvers kyns lista og virtist kunna það sem flesta langar til að kunna; að lifa lífinu og láta ekkert stöðva sig.

Fyrir hönd Tækni­skólans,
Hildur Ingvars­dóttir skóla­meistari

 

Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu þann 9. nóvember 2022