fbpx
Menu

Fréttir

26. maí 2021

Hátíðleg athöfn í Hörpu

Hátíðleg athöfn í Hörpu

EldborgGlæsi­legur hópur útskrift­ar­nem­enda mætti til útskriftar í Eld­borg­arsal Hörpu miðviku­daginn 26. maí. Vegna gild­andi sótt­varn­ar­tak­markana var útskrifað í tveimur athöfnum en sú fyrri hófst kl. 14:00 og sú seinni kl. 17:00.

Alls voru braut­skráðir 477 nem­endur af 54 náms­brautum frá eft­ir­far­andi skólum/​deildum Tækni­skólans: Bygg­inga­tækni­skól­anum, Hönn­unar- og hand­verks­skól­anum, Raf­tækni­skól­anum, Skip­stjórn­ar­skól­anum, Tækni­mennta­skól­anum, Upp­lýs­inga­tækni­skól­anum, Vél­tækni­skól­anum og Meist­ara­skól­anum. Einnig var útskrifað úr Tækniaka­demí­unni sem er nám á fag­há­skóla­stigi en þar er kennd vefþróun og starfræn hönnun.

Líkt og venjan er settu nem­endur skólans svip sinn á útskriftina en Erla Ösp, nem­andi í graf­ískri miðlun, flutti tón­list­ar­atriði í báðum athöfnum og tveir nem­endur héldu ræðu. Þá klæddust Guðrún Randalín aðstoðarskóla­meistari og Hildur Ingvars­dóttir skóla­meistari flíkum sem útskrift­ar­nem­endur í kjólasaumi hönnuðu og saumuðu á þær.

 

Námið hefur gefið okkur ýmis verkfæri

Haukur GeorgssonHaukur Georgsson, nem­andi á K2, flutti ræðu á fyrri athöfn­inni og kom meðal annars inn á það hvernig námið í skól­anum mun nýtast í framtíðinni. ,,Námið hér í Tækni­skól­anum hefur gefið okkur ýmis verk­færi til að nota á næstu námsþrepum og í lífinu. Verk­færi eins og stærðfræði, stý­ritækni, for­ritun, stein­steypu­virki og fleira. En eitt verk­færi bætti sér vissu­lega óvænt í þessa verk­færa­k­istu. Fjar­fund­ar­tækni, Zoom og Teams. Þá tækni kunnum við svo sann­ar­lega að nota eftir námið og mun það ábyggi­lega koma að gagni.“

Þórdís Alda, nem­andi í sta­f­rænni hönnun, fluttu ræðu í seinni athöfn útskrift­ar­innar. Hún talaði um skóla­starfið á tímum Covid og hvernig Tækni­skólinn stóð undir nafni með því að finna snöggar, tækni­legar lausnir á vand­anum. Þórdís kom einnig inn á upp­lifun sína á skól­anum en það sem kom henni mest á óvart var hversu per­sónu­legir kenn­ar­arnir voru og hversu ofboðslega mikið er hægt að læra undir einu þaki.“

 

Verkefni nemenda sjást víða

KjólsaumurHildur Ingvars­dóttir flutti ávarp þar sem hún fjallaði meðal annars um áhrif heims­far­aldurs á skólaárið og góðan árangur nem­enda þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það má meðal annars sjá ummerki þessa árangurs í námi, félags­starfi, íþróttum og á sýn­ingum. ,,En verk­efni nem­enda sjást víðar. Þannig er okkur Guðrúnu Randalín aðstoðarskóla­meistara t.d. sannur heiður að fá í dag að klæðast kjól og dragt sem tveir útskrift­ar­nem­endur skólans í kjólasaumi, þær Vigdís Brands­dóttir og Eliza­beth Katrín Mason, hönnuðu og saumuðu á okkur. Og eins og það sé ekki nóg þá berum við einnig skart núver­andi og fyrr­ver­andi nem­enda í gull- og silf­ursmíði.“

 

Besti heildarárangur í skólanum hjá tveimur nemendum í Tækniteiknun

Heiða María Ásgeirs­dóttir, nem­andi í tækni­teiknum, hlaut verðlaun fyrir bestan heild­arár­angur í skól­anum.

Hafþór Ingi og Heiða María,,Námið fannst mér ótrú­lega skemmti­legt og krefj­andi. Það sem gerði gæfumuninn voru klár­lega sam­nem­endur mínir og finnst mér þau eiga skilið stórt hrós fyrir, við erum orðin mjög náin og veit ég að þeim eru allir vegir færir. Einnig voru kenn­arar mínir mjög hjálp­legir, stóðu sig vel með alla Teams kennsluna og voru alltaf til staðar fyrir mann. Stefnan er tekin á vinnu­markaðinn og svo mögu­lega áfram­hald­andi nám seinna en hvort eða hvenær ég geri það kemur bara í ljós.“

Hafþór Ingi Helgason, sem einnig útskrifast úr tækni­teiknun, hlaut verðlaun fyrir næst­bestan árangur. Fyrir er hann með sveins­próf í hús­gagnasmíði og stúd­ents­próf en skráði sig svo í tækni­teiknun. ,,Mér fannst þetta nám áhuga­vert og langaði að prófa það. Ég hafði mjög gaman af þessu námi og lærði heil­mikið. Ég hef fengið sum­arstarf hjá RARIK á Akur­eyri sem tækni­teiknari en fram­hald eftir það er óljóst.“

 

Mikil aukning nemenda í dúkalögn

Aðsókn í dúka­lögn hefur glæðst veru­lega und­an­farin ár og útskrifaðist nú í fyrsta sinn í langan tíma heill hópur úr faginu. Alls voru þetta sjö nem­endur og þar af tvær konur fæddar árið 2003.

Ingunn og Andrea Sól

Andrea Sól Svavars­dóttir er ein þeirra og á hún ekki langt að sækja þekk­inguna á faginu. „Ég hef verið að vinna með pabba og afa í gegnum tíðina og hjálpa þeim. Þeir hafa verið að vinna við þetta alla daga bara síðan ég man eftir mér.“ Sam­kvæmt Andreu var námið í dúka­lögn fjöl­breytt og skemmti­legt með krefj­andi verk­efnum. „Kenn­arinn er hæfi­leika­ríkur og náði að halda vel utan um þennan stóra hóp. Ég er mjög ánægð að hafa valið iðnnám og spennt fyrir kom­andi árum.“

Ingunn Björns­dóttir útskrifaðist einnig úr dúka­lögn og stefnir hún á að klára náms­samn­inginn og taka síðan sveins­prófið í fram­haldi af því. ,,Ég byrjaði í grunn­náminu þar sem maður fær að skoða og læra um allar greinar innan bygg­ing­ar­deild­ar­innar. Mér fannst dúk­lögn skemmti­legust og er að mínu mati mjög áhugaverður starfs­vett­vangur.“

Þetta er í fyrsta sinn sem konur útskrifast úr veggfóðrun- og dúka­lögn á Íslandi og fagna kenn­arar í faginu fjöl­breyttari nem­endahóp og auknum fjölda nem­enda í grein­inni.

 

Samtaka þríburar útskrifast úr vélstjórn

Þríburar í vélstjórn

Þríbur­arnir Þórir Örn, Gunnar Már og Guðfinnur Ragnar útskrifuðust allir úr vél­stjórn með D rétt­indi og í haust stefna þeir á að klára nám í raf­virkjun.

Bræðurnir koma frá Bol­ung­arvík og eru fæddir árið 1998. Þeir byrjuðu hver í sínu námi í Mennta­skól­anum á Ísafirði en enduðu að lokum allir í vél­stjórn og kláruðu B stigið fyrir vestan. Að því búnu tóku þeir hlé frá námi en ákváðu svo að klára í Tækni­skól­anum þar sem D stigið er ekki kennt í MÍ.

,,Þrátt fyrir að hafa allir valið þetta nám er áhugasvið okkar nokkuð fjöl­breytt og vél­stjórna­rétt­indin gera okkur kleyft að starfa á ólíkum stöðum á vinnu­markaðinum.“

 

Barnabörnin fá að heyra um það þegar afi fór í skólann

Sig­urjón M. Sig­ur­jónsson, sem útskrifaðist úr skip­stjórn, fór nokkuð óhefðbunda leið í gegnum námið. Sig­urjón er fæddur á Akur­eyri árið 1956 og að hans sögn eyddi hann bernsku­ár­unum sullandi í fjöruborðinu á Eyr­inni. Sig­urjón var mikið á sjónum en lærði einnig bíla­málun og rétt­ingar og stjórnaði bíla­verkstæði til margra ára. Eftir það vann hann sem verktaki við hin ýmsu störf en fann sig þó aldrei full­kom­lega.

Sigurjón M. Sigurjónsson

,,Svo gerðist það dag einn að ég og bróðir minn vorum að sötra kaffi og fórum að ræða um hvað það væri sniðugt ef ég næði mér í rétt­indi á litla báta. Stuttu seinna var ég mættur í Stýri­manna­skólann til að ná mér í lág­marks­rétt­indi og rölti svo heim. En það gerðist eitthvað gott inni í þessu merki­lega húsi því mér hefur aldrei liðið vel í skóla fyrr en í Stýri­manna­skól­anum. Ég eignaðist fljótt góða kunn­ingja og vini sem hvöttu mig til dáða og náms­rétt­indin jukust með hverju árinu. Svo var það haustið 2019 að tveir vinir mínir „göbbuðu“ mig til að taka stúd­entinn. Besta gabb fyrr og síðar segi ég nú bara. Skóla­gangan er í raun sigling. Maður nær alltaf landi, ef maður heldur vöku sinni, er sam­visku­samur og dug­legur. Stöku sinnum sigldi ég beiti­vind en oftast fékk ég góðan byr og mun ég búa lengi að því sem ég hef lært í þessum skóla. Eftir að ég tók ákvörðun um að verða stúdent varð skóla­gangan að nokk­urs­konar píla­grímsferð sem nú er lokið. Sá lærir sem lifir og barna­börnin fá að heyra allt um það þegar afi fór í skólann.“

 

Báðar útskriftarathafnir voru sérlega vel heppnaðar og óskum við nemendum öllum hjartanlega til hamingju með áfangann!

 

Ljósmyndir: Haraldur Guðjónsson Thors, kennari í Upplýsingatækniskólanum og Fannar Freyr Snorrason, nemi.

Skoða ljósmyndasafn