Hátíðleg útskrift í Hörpu
Brautskráning Tækniskólans
Fjölbreyttur hópur fjölhæfra nemenda mætti til útskriftar í Eldborgarsal Hörpu fimmtudaginn 21. desember. Alls voru brautskráðir 328 nemendur af 36 námsbrautum Tækniskólans.
Anna Fanney Kristinsdóttir, nemandi í stafrænni hönnun, hóf athöfnina með tónlistarflutningi og söng lagið Cry me a River með Julie London.
Fleiri nemendur skólans settu svip sinn á athöfnina en að þessu sinni fluttu þeir Dzhasur Vokhidov og Ísak Þór Björgvinsson ræður fyrir hönd útskriftarnema.
Einnig báru nokkrir stjórnendur skólans fallega skartgripi eftir nemendur í gull- og silfursmíði. Virkilega fallegir gripir sem bera sköpunargáfu og handverki nemenda gott vitni.
Tungumálið skapaði tækifæri
Dzhasur Vokhidov er frá Tajikistan og kom 16 ára til Íslands ásamt fjölskyldu sinni haustið 2021. Dzhasur hefur áhuga á iðnnámi og valdi þess vegna Tækniskólann en byrjaði á íslenskubraut til að ná tökum á tungumálinu. Í gær útskrifaðist Dzhasur af íslenskubraut og flutti fyrri nemendaræðu athafnarinnar.
Ég er mjög ánægður og stoltur að hafa lokið íslenskunáminu, að geta talað og skilið íslenskt mál. Að kunna tungumálið gaf mér mörg tækifæri, að finna vinnu og eignast vini. Núna á ég marga íslenska vini, við höngum saman, vinnum, grínumst og hlæjum mikið.
Hann er þakklátur fyrir kennara skólans en Dzhasur stóð sig með prýði og hlaut verðlaun fyrir góðan árangur á íslenskubraut.
Þökk sé fagmennsku kennara minna byrjaði ég að tala innan árs. Auðvitað voru erfiðleikar, en nú er allt að baki. Námið var áhugavert, við fórum í heimsóknir á ýmsa staði og ég lærði mikið um samfélagið. Við lærðum líka um menningu og sögu Íslendinga í fyrri tíð. Það var mjög áhugavert. Ég þakka fyrir þetta tækifæri. Ísland er mjög áhugavert land sem mig langar að vita meira um.
Dazhasur mun hefja nám í pípulögnum í Tækniskólanum á nýju ári.
Fatatæknir stefnir á Ólympíuleika
Marín Aníta Hilmarsdóttir, 19 ára nemandi í fatatækni, fékk verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum fatatækni og einnig fyrir góðan árangur á stúdentsprófi af fagbraut. Marín Aníta ólst upp í Grindavík og byrjaði skólagöngu sína í Grunnskóla Grindavíkur en í byrjun 3. bekkjar flutti hún í Grafarholt og fór þá í Sæmundarskóla. Á unglingastigi kviknaði áhuginn á fatahönnun þegar hún tók þátt í Skrekk, árlegri hæfileikakeppni fyrir grunnskólanemendur í Reykjavík.
Ég var í búningadeildinni og fann þar ástríðu fyrir búninga- og fatahönnun. Ég man eftir augnablikinu þegar ég sá inn í saumastofuna í Borgarleikhúsinu og á þeirri stundu hugsaði ég með mér að þarna myndi ég einn daginn vera.
Eftir Skrekk kynntu Marín og móðir hennar sér framhaldsnám í fatahönnun. Þeim þótti Tækniskólinn bjóða upp á frábært nám á þessu sviði en Marín las frásagnir fyrrum nemenda í fatatækni sem hjálpuðu henni að taka ákvörðun.
Námið hér í Tækniskólanum er alveg frábært, kennararnir hjálpuðu mér ótrúlega mikið í gegnum námið og fólkið í skólanum er alveg yndislegt. Ég hef öðlast ótrúlega mikla þekkingu og reynslu sem ég tek með mér á vinnumarkaðinn.
Marín Aníta hefur skýr markmið í lífinu og hefur náð góðum árangri á fleiri sviðum en í náminu. Marín Aníta skartar titlunum sveigbogakona og bogfimikona ársins.
Á næsta ári þá ætla ég að einbeita mér að bogfimi og reyna að koma mér inn á Ólympíuleikanna í París 2024. Svo stefni ég á nám annaðhvort í Listaháskólann hér heima eða erlendis t.d. í Danmörku til að læra búninga- og fatahönnun.
Húsasmiður og heimsmeistari í hestaíþróttum
Benedikt Ólafsson, tvítugur nemandi í húsasmíði, hlaut verðlaun fyrir góðan árangur í faggreinum húsasmíði. Benedikt hefur lengi átt þann draum að verða bóndi en hann er uppalinn í Mosfellsdalnum. Mosfellsdalnum lýsir hann sem sveit í borg þar sem fólk býr svo vel að hafa jafnvel hesta í bakgarðinum.
Ég hef alltaf gengið með drauminn um að verða bóndi í maganum. Það kemur ekkert annað til greina en að getað reddað mér sjálfur í öllu því sem þarf að gera. Þess vegna valdi ég húsasmíðina.
Námið í Tækniskólanum segir hann bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Hann kláraði stúdentsprófið með húsasmíðinni og þakkar Jónu Dís, skólastjóra Tæknimenntaskólans, fyrir stuðning og aðstoð við að skipuleggja námið.
Næsta haust stefnir Benedikt á að fara í Háskólann í Reykjavík til að mennta sig frekar í byggingarbransanum. Þar að auki ætlar Benedikt að halda áfram að þjálfa hross enda er hestamennska stór partur af lífi hans.
Stærsta áhugamálið eru hestarnir. Ég hef verið að keppa með fínum árangri sem hefur skilað nokkrum Íslandsmeistaratitlum og tveimur heimsmeistaratitlum. Ég hef verið valinn í U21 landsliðið fimm ár í röð og fékk þann heiður að keppa fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramóti Íslenska hestsins í sumar í Hollandi.
Rafvirkjun og raftónlist
Anna A. Jónína Guðmundsdóttir ólst upp í litlu sjávarþorpi á Vestfjörðum, gekk í Grunnskóla Önundarfjarðar og er nú að klára nám í rafvirkjun.
Ég bý yfir þeim forréttindum að hafa alist upp á Flateyri. Pabbi minn er fæddur og uppalinn á Flateyri en mamma mín kemur frá Cebu á Filippseyjum. Hún hefur búið á Flateyri síðan 1988 og öll systkini hennar og foreldrar fylgdu henni eftir til Íslands.
Eftir að Anna útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 2017 fór hún beint í HÍ til að læra eðlisfræði. En á þessum tíma stóð valið á milli eðlisfræðinnar eða píanónáms í LHÍ.
Iðnnám var verulega fjarstæðukennt fyrir mér á þeim tíma, enda lítil hvatning í samfélaginu til að skoða það. Háskólagangan mín var frekar stutt, eftir fyrstu önnina færði ég mig yfir í jarðfræði og prufukeyrði það í tvo mánuði.
Anna fann sig ekki í háskólanáminu, flutti aftur heim á Flateyri og sótti um stálsmíði við Menntaskólann á Ísafirði. Á þriðju önn var henni boðið í starfskynningu hjá Pólnum á Ísafirði og þar heillaðist Anna af þeirri tilhugsun að vinna sem rafvirki frekar en stálsmiður. Hún sótti því um nám í rafvirkjun við Tækniskólann og flutti aftur í höfuðborgina haustið 2020.
Þegar ég byrjaði var þetta dálítið eins og að hoppa í djúpu laugina, ég hafði lítið vit á rafmagni, fyrir utan eðlisfræðina á bakvið hana. Ég var nokkuð kvíðin fyrir því að rafvirkjun myndi mögulega ekki henta mér en annað kom í ljós. Námið er fjölbreytt og opnar margar dyr.
Vegna COVID var námið að stórum hluta kennt í fjarnámi og hentaði það Önnu illa. Hún hélt þó áfram, byrjaði að vinna hjá fyrirtækinu Rafmiðlun með námi og útskrifast nú af rafvirkjabraut með framúrskarandi árangri.
Þegar ég fór að fullorðnast þá kom meira og meira í ljós að pabbi minn er mín helsta fyrirmynd. Menntaður bifvélavirki en vann við rafvirkjun í tvo áratugi, svakalegur heimiliskokkur og bókstaflega „alt muligt mand.“ Það langar mig að verða þegar ég verð stór.
Eftir útskrift ætlar Anna að halda áfram að vinna og setja pásu á fullt nám í bili. Hana langar til að sinna helsta áhugamálum sínum af meiri krafti en stefnir þó á að klára meistaranámið í rafvirkjun.
Helsta áhugamálið mitt er tónlist, þá sérstaklega að fikta í hljóðvinnsluforritum og semja raftónlist. Það er pínu langþráður draumur að verða upptökustjóri og hljóðmaður. Planið er samt á næstu árum að taka nokkur námskeið árlega fyrir meistaranámið. Væri frekar töff að vera rafvirkjameistari eins og afi minn.
Eldmóður og stórar hugmyndir
Í dag er stór dagur, að minnsta kosti dagur sem fær tvær málsgreinar í ævisögunni. Eða kannski er þetta meira eins og endir á einum kafla og byrjun á þeim næsta.
Sagði Ísak Þór Björgvinsson, 25 ára nemandi í vélstjórn, í ræðu sinni við athöfnina. Ísak Þór hefur lagt metnað í nám sitt en bendir á að nemendur fari ólíkar leiðir að ólíkum markmiðum.
Við erum eins fjölbreyttur hópur nemanda og gerist í framhaldsskólum og ég þori að fullyrða við höfum haft mismikið fyrir hlutunum. Sumir læra bara í skólastofu á skólatíma, aðrir læra fram á nótt og enn aðrir læra einungis á nóttunni. En í dag fáum við öll staðfestingu á verklokum í því sem við höfum verið að vinna að seinustu misseri.
Ísak Þór kveður skólann með fangið fullt af verðlaunum en ásamt góðum árangri í vélstjórn fékk hann félagsmálaverðlaun Tækniskólans. Ísak Þór var formaður skólafélags Véltækniskólans síðustu ár og tók meðal annars þátt í undirbúningi Skrúfudagsins.
Í Véltækniskólanum er frábært samfélag nemanda með mikinn eldmóð og stórar hugmyndir. Eldmóð sem ég smitaðist svo sannarlega af. Ég trúi því að fjölbreytt félagslíf sé gífurlega mikilvægt. Það gefur okkur tækifæri til að kynnast betur og hafa gaman saman.
Ísak þakkaði starfsfólki skólans fyrir samstarfið og óskaði samnemendum til hamingju með daginn.
Við kveðjum Tækniskólann í bili og þökkum fyrir góðu stundirnar. En einnig þær erfiðu og krefjandi sem hafa gert okkur að sterkari einstaklingum, tilbúna að takast á við nýjar áskoranir. Kæru útskriftarnemar, lífið er draumur og tíminn naumur. Takk fyrir mig og til hamingju með daginn!
Árið hefur verið Tækniskólanum gjöfult
Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari, kom víða við í hátíðarræðu sinni. Hún sagði árið hafa verið gjöfult en fulltrúar Tækniskólans hafa meðal annars tekið þátt í fjölda viðburða og hlotið hinar ýmsu viðurkenningar. Þar ber Íslandsmót iðngreina einna hæst en á mótinu endaði Tækniskólinn með tólf Íslandsmeistara í jafnmörgum greinum. Þá tóku kennarar í málaraiðn við íslensku menntaverðlaununum sem málarabrautin hlaut fyrir þróun einstaklingsmiðaðs og verkefnastýrðs náms en skólinn hlaut einnig tilnefningar og verðlaun í fyrra.
Tilnefningar til menntaverðlaunanna bera skólaþróun innan skólans glöggt vitni. Þar á bakvið standa metnaðarfullir og áhugasamir kennarar og annað starfsfólk skólans og líka gríðarlega öflugir nemendur en hvorki skólastarf né skólaþróun gerist án aðalleikaranna; nemendanna.
Þrátt fyrir að árið hafi verið gjöfult hefur það líka reynist mörgum erfitt, bæði hér á landi og erlendis. Á síðustu jólaútskrift minntist Hildur á stríðið í Úkraínu sem ári síðar geisar enn og nú hafa bæst við hryllilegir atburðir í Palestínu.
Nemendum frá báðum þessum löndum hefur fjölgað í Tækniskólanum á liðnu ári. Þeir eiga það almennt sameiginlegt að vera miklir fyrirmyndarnemendur sem þrá frið, öryggi og réttlæti, að búa sér og fjölskyldum sínum betra líf hér á Íslandi til skemmri eða lengri tíma.
Áskoranir hér á landi hafa líka sett mark sitt á árið og undanfarið hefur hugur margra verið hjá Grindvíkingum sem þurftu að yfirgefa heimili sín vegna jarðhræringa. En liðnar vikur hafa einnig minnt okkur á mikilvægi öflugs iðn-, starfs- og tæknináms.
Verkefnin í Grindavík kalla m.a. á pípulagningafólk, rafvirkja, rafveituvirkja, suðufólk, vélvirkja, jarðvirkja, tæknifólk o.fl.. Fólk með þekkingu og færni sem það hefur tileinkað sér í starfsnámsskólum og haldið svo áfram að læra í atvinnulífinu. Þekkingu og færni sem er svo gríðarlega mikilvæg alla daga ársins – alltaf. Ég sendi grindvískum nemendum okkar, sem telja á fjórða tug sérstakar kveðjur og hrós fyrir þrautseigjuna í þessum erfiðu aðstæðum.
Að lokum minnti Hildur á gildi skólans og hvatti nemendur til að leggja alúð í verk sín, vera framsækin í lífinu og fagna fjölbreytileikanum.
Verið stolt og gleðjist yfir þeim árangri sem þið hafið náð og haldið áfram að læra svo lengi sem þið lifið!
Tækniskólinn óskar útskriftarnemendum hjartanlega til hamingju með áfangann!
Ljósmyndir: Karen Helenudóttir og Hulda Margrét Óladóttir
Hér má sjá ljósmyndir frá athöfninni