Námsdvöl í hönnunarskóla í Danmörku
Ferð sem opnaði augu mín og ég fann hvað ég var búin að læra mikið á hönnunar- og nýsköpunarbraut
Hrafnhildur Karlsdóttir fór ásamt sex öðrum nemendum á 5. önn á hönnunar- og nýsköpunarbraut á Erasmus+ styrk til Danmerkur í tvær vikur. Auk hennar fóru þau Aldís Eva Geirharðsdóttir, Elísabet Praowphilai Torp, Katrín Árnadóttir, Mary Jemrio Soriano Malana, Ólavía Rún Grímsdóttir og Seifur Logi Sigurbjörnsson í ferðina.
Dvelja við nám, skoða skóla, söfn og hönnun
„Markmið verkefnisins var að dvelja við nám í eina viku í hönnunarskólanum í Kolding á Jótlandi ásamt því að skoða skóla, söfn og hönnun bygginga og umhverfis í Kaupmannahöfn. Ferðin opnaði augu mín gagnvart umhverfinu og nýjum hugmyndum. Mér finnst ég hafa lært að horfa á hluti og umhverfi með hönnun og nýsköpun í huga. Ferðin fékk mig til að hugsa á annan hátt og vera meðvitaðri um það sem ég sá. Ég áttaði mig líka á því hve mikið ég hef lært hér í Tækniskólanum og sá grunnur nýttist mér vel þarna úti.“ segir Hrafnhildur.
Fá góðan grunn í náminu í Tækniskólanum
„Mér fannst æðislegt að sjá hluti og hönnun sem ég gat tengt við, hafði lært um og þekkti. Ég skildi líka betur strauma og stefnur sem hafa áhrif á hönnuði. Ég hefði ekki haft jafn gaman af þessu fyrir um tveimur árum þegar ég hafði ekki sama grunn sem ég hef nú eftir námið í skólanum. Ég þekkti enga hönnuði og vissi lítið sem ekkert um hönnun yfir höfuð. Ég lærði mikið á því að vera í hönnunarskólanum í Kolding sem er á háskólastigi. Ég kynntist skólanum, tók sjálf þátt og upplifði hvernig næsta skólastig lítur út fyrir okkur. Það var æðislegt að vera þarna, sjá hvað fólk var að gera og fá innblástur. Það var líka áhugavert að sjá hvernig námið er byggt upp, hverjar áherslurnar eru og hvernig nemendur vinna. Námið þar er í raun og veru mjög líkt náminu hjá okkur og ég áttaði mig á því hvað við höfum öðlast góðan grunn hér á hönnunar- og nýsköpunarbraut Tækniskólans. Ég fylltist eldmóði við dvöl mína í Danmörku þegar ég sá hvaða tækifæri ég hef að loknu náminu hér í Tækniskólanum og ég sé að við erum full fær um að takast á við nám af þessu tagi. Ég hlakka því mikið til áframhaldandi náms.“
„Ferðin gekk vel og ég er mjög þakklát fyrir þetta tækifæri og er full af hugmyndum, innblæstri og eldmóði. Ég hvet alla sem hafa tækifæri til að taka þátt í verkefni eins og þessu að gera það.“